Ræða Hólofernesar

1 Þegar óánægjuraddir mannanna sem stóðu umhverfis fundarstaðinn hljóðnuðu tók Hólofernes yfirhershöfðingi Assýríumanna til máls. Ávarpaði hann Akíor í áheyrn allra útlendinganna en beindi orðum sínum sérstaklega til Móabíta og sagði: 2 „Hver heldur þú að þú sért, Akíor, þú og málaliðarnir frá Efraím? Hvað ert þú að flytja spádóma í okkar hópi í dag og ráða okkur frá að ráðast á Ísraelsmenn því að Guð þeirra muni koma þeim til bjargar? Hver er Guð nema Nebúkadnesar? Hann mun senda herafla sinn og afmá Ísraelsmenn af yfirborði jarðar. Ekki mun Guð þeirra bjarga þeim. 3 Við, sem erum þjónar Nebúkadnesars, munum fella þá alla eins og þeir væru einn maður. Ekki munu þeir fá staðist afl hesta okkar. 4 Við munum steypa þeim yfir þá. Fjöll Ísraelsmanna munu verða ölvuð af blóði þeirra og slétturnar mettaðar af líkum þeirra. Þeir munu alls enga mótspyrnu geta veitt okkur heldur mun þeim tortímt gjörsamlega. Svo segir Nebúkadnesar konungur, drottinn allrar jarðarinnar. Hann hefur talað og það sem hann býður mun ekki reynast orðin tóm. 5 En þú, Akíor, ammóníski málaliðinn þinn. Það sem þú sagðir nú hefur gert þig að svikara. Héðan í frá skalt þú mig ekki líta fyrr en ég hef refsað þessum lýð sem kom frá Egyptalandi. 6 Þegar ég svo sný aftur munu sverð hermanna minna og spjót þjóna minna leggja brjóst þitt í gegn og munt þú falla á valköst óvinanna. 7 Nú munu þjónar mínir fara með þig upp í fjöllin og koma þér fyrir í einhverri borginni við skörðin. 8 Ekki muntu lífinu týna fyrr en þér verður tortímt um leið og þeim sem þar búa. 9 Ef þú berð þá von í brjósti að þeir muni sleppa þá þarft þú ekki heldur að vera niðurdreginn. Ég hef talað og ekkert orða minna mun máttlaust falla.“

Akíor fluttur í böndum til Betúlúu

10 Síðan skipaði Hólofernes þjónum sínum, sem hjá honum voru í tjaldinu, að grípa Akíor og fara með hann til Betúlúu og afhenda hann Ísraelsmönnum. 11 Þjónarnir tóku hann höndum, leiddu hann úr herbúðunum og út á sléttuna. Þaðan héldu þeir með hann upp í fjöllin og að lindunum fyrir neðan Betúlúu. 12 Þegar Betúlúubúar sáu þá nálgast fjallshnjúkinn gripu þeir til vopna, héldu út úr borginni og upp á tindinn. Allir sem búnir voru vaðslöngvum komu sér fyrir við skarðið og hindruðu uppgöngu óvinanna með því að láta steinum rigna yfir þá. 13 Óvinirnir leituðu sér skjóls neðst í hlíðinni, bundu Akíor og skildu hann eftir liggjandi við rætur fjallsins. Síðan sneru þeir aftur til húsbónda síns.
14 Þegar Ísraelsmenn komu ofan úr borg sinni fundu þeir Akíor. Þeir leystu hann úr fjötrum, fóru með hann til Betúlúu og leiddu hann fyrir yfirmenn borgarinnar. 15 Um þær mundir voru það Ússía Míkason af ættkvísl Símons, Kabrís Gótóníelsson og Karmís Melkíelsson. 16 Stefndu þeir saman öllum öldungum borgarinnar. Yngri menn og konur hröðuðu sér einnig til fundarins. Akíor var leiddur inn í miðja mannþyrpinguna og innti Ússía hann eftir því sem við hefði borið. 17 Skýrði hann þeim frá því sem sagt hafði verið í herráði Hólofernesar og frá öllu sem hann hafði sjálfur sagt við herforingja Assýríumanna og frá gífuryrðum Hólofernesar gegn Ísraelsmönnum. 18 Þá féll fólkið fram fyrir Guð, ákallaði hann og sagði: 19 „Drottinn, Guð himinsins, lít ofurdramb þeirra. Miskunna þú auðmýktri þjóð vorri. Snú þér í dag til vor sem erum helgaðir þér.“ 20 Þeir stöppuðu stálinu í Akíor og hældu honum mjög. 21 Ússía tók hann heim með sér frá samkomunni og hélt öldungunum veislu. Síðan ákölluðu þeir Guð Ísraels og báðu hann hjálpar alla nóttina.