Örlög manna

1Mikið erfiði hefur Drottinn skapað öllum mönnum,
lagt þungt ok á Adams syni.
Frá þeim degi er þeir fæðast af móðurlífi
uns þeir hverfa aftur til móður allra
2 eru uggur og kvíði í hjarta mannanna,
framtíðaráhyggjur til æviloka.
3 Jafnt sá sem trónar í hásæti
sem hinn sem situr í sekk og ösku,
4 svo og sá sem klæðist purpura og ber kórónu
og hinn sem skýlir sér með striga:
5 Alla hrjáir reiði, öfund, áhyggja og órói,
ótti við dauðann, biturð og deilur.
Svo þegar lagst er til hvíldar að kvöldi
ruglar svefninn huga þess sem sefur.
6 Vart merkjandi andrá nýtur hann hvíldar,
svo fylgja áhyggjur dagsins inn í svefninn.
Ámóta ógnir hrella huga hans
og þess er með naumindum slapp af vígvelli.
7 Síðan vaknar hann þegar best gegnir
og undrast að ekkert er að óttast.
8 Á allt sem lífsanda dregur, jafnt menn sem dýr,
en sjöfalt fremur syndarana,
9 herja dauði og manndráp, styrjöld og sverð,
ógæfa, hungur, þrenging og þjáning.
10 Vegna syndara var allt þetta skapað,
sakir þeirra varð flóðið.
11 Allt, sem af jörðu er, hverfur aftur til jarðar
og það sem er af vatni hverfur aftur til hafsins.

Afleiðing hins illa

12Öll spilling og ranglæti mun afmáð verða
en heilindi halda velli um aldur.
13 Rangfenginn auður líkist þornuðum læk
og dynjandi þrumu sem dvínar í regni.
14 Sá sem er örlátur mun lifa í fögnuði
en þeir er brutu boðorðin munu afmáðir með öllu.
15 Niðjar guðlausra bera fáar greinar
og veikar rætur þeirra standa á klettasnös.
16 Sef, er sprettur við vötn og árbakka,
mun rifið upp á undan öllum öðrum gróðri
17 en góðvild er eins og grasgarður í blóma
og miskunnarverk varir að eilífu.

Gleðigjafar manna

18Ljúft er að sitja að sínu og hafa vinnu
en að finna fjársjóð tekur hvoru tveggja fram.
19 Nafn þess lifir sem eignast börn og reisir borg
en betra hvoru tveggja er dygðug kona.
20 Vín og söngur gleðja hjartað
en ást á speki tekur hvoru tveggja fram.
21 Flauta og harpa óma þýðlega
en hlýlegt orð ber af báðum.
22 Þokki og fegurð hrífa augað
en nýgræðingur ber af báðum.
23 Vinur og félagi hraða sér til hjálpar þegar við liggur
en kona við hlið manns síns er þeim betri.
24 Bræður og hjálpsemi koma að liði í raun
en eigin góðverk munu fremur hjálpa þér.
25 Gull og silfur eru góður grundvöllur
en dómgreind tekur hvoru tveggja fram.
26 Auður og máttur vekja öryggiskennd
en betra er að óttast Drottin.
Þann sem óttast Drottin mun ekkert bresta,
eigi þarf hann hjálpar að leita.
27 Ótti Drottins er sem grasgarður í blóma,
skýlir betur en nokkur jarðnesk vegsemd.

Varað við betli

28 Barnið mitt, betla þú ekki,
betra er að deyja en betla.
29 Maður sem mænir á annars borð
lifir eigi lífi sem svo megi kallast.
Biti af annars borði flekkar sálina,
hygginn maður og agaður varast það.
30 Betlaður biti er blygðunarlausum sætur
en mun brenna sem eldur í maga hans.