Menelaus líflátinn

1 Árið eitt hundrað fjörutíu og níu fengu Júdas og menn hans fregnir af því að Antíokkus Evpator sækti fram gegn Júdeu með mikinn her. 2 Með honum var Lýsías, forráðamaður hans og ráðsherra. Hvor um sig leiddi grískan her, um eitt hundrað og tíu þúsund manna fótgöngulið, fimm þúsund og þrjú hundruð riddara, tuttugu og tvo fíla og þrjú hundruð sigðvagna.
3 Menelaus gekk og til liðs við þá og eggjaði Antíokkus af mikilli undirhyggju, ekki til að bjarga föðurlandinu heldur í von um að hljóta æðsta embætti. 4 En Konungur konunganna gerði Antíokkus reiðan þessu varmenni enda gerði Lýsías honum ljóst að Menelaus væri valdur að allri ógæfunni. Skipaði konungur að farið skyldi með hann til Beröu og hann líflátinn eins og þar var siður.
5 Þar er fimmtíu álna hár turn, fullur ösku. Er hann búinn hringlaga búnaði að innanverðu sem hvarvetna hallar inn að öskunni. 6 Þeir sem gerst hafa sekir um rán í helgidómum eða aðra stórglæpi eru færðir þangað og þeim hrundið ofan svo að þeir tortímist. 7 Á þennan hátt beið lögmálsbrjóturinn bana og hlaut ekki einu sinni greftrun. 8 Það var maklegt, svo oft sem hann hafði svívirt altarið sem ber heilagan eld og ösku, að hann skyldi nú verða að mæta dauða sínum í ösku.

Orrustan við Módein

9 En konungurinn var kominn með þeim villimannlega ásetningi að láta Gyðinga líða enn meira en þeir höfðu liðið í stjórnartíð föður hans. 10 Þegar Júdas varð þessa áskynja hvatti hann fólkið til að ákalla Drottin dag og nótt um að liðsinna þeim nú fremur en nokkru sinni. 11 Nú ætti að svipta þá lögmálinu, föðurlandinu og musterinu helga. Því skyldi Drottinn innilega beðinn um að láta ekki fólkið, sem svo skömmu áður hafði öðlast nýja lífsvon, falla í hendur guðlausra heiðingja.
12 Þetta gerðu allir einum huga. Í þrjá daga féllu þeir fram og ákölluðu miskunnsaman Drottin um hjálp, föstuðu og grétu án afláts. Síðan stefndi Júdas þeim saman og hvatti menn sína til að vera viðbúna.
13 Júdas ræddi við öldungana í einrúmi og afréð eftir það að leggja af stað með Guðs hjálp og láta sverfa til stáls áður en her konungsins héldi inn í Júdeu og ynni borgina. 14 Hann fól skapara heimsins að ráða úrslitum og hvatti menn sína til að berjast hraustlega fram í dauðann fyrir lögmálið, musterið, borgina, föðurlandið og almannaheill. Sló hann síðan upp herbúðum hjá Módein. 15 Hann gaf mönnum sínum herópið: „Sigur frá Guði“, og um nóttina réðst hann á tjald konungs með valið lið hraustustu ungra manna. Í herbúðunum felldi hann nær tvö þúsund manns og lagði auk þess að velli besta fílinn og stjórnanda hans. 16 Fylltu þeir loks herbúðirnar ótta og ofboði og héldu þaðan sigri hrósandi 17 rétt fyrir dögun. Þetta lánaðist vegna þess að Drottinn verndaði Júdas og studdi.

Friðarsamningar Antíokkusar V við Gyðinga

18 Þegar konungur hafði fengið að kenna á dirfsku Gyðinga á þennan hátt freistaði hann þess að ná borgunum á sitt vald með brögðum. 19 Hann sótti að Bet Súr, sem var öflugt vígi Gyðinga, en var ítrekað hrakinn aftur og beið algjöran ósigur. 20 Júdas sendi nauðþurftir til þeirra sem umsetnir voru.
21 Ródókus, sem var í liði Gyðinga, ljóstraði þessu upp við óvinina. En það komst upp um hann og var hann tekinn höndum og fangelsaður.
22 Konungur gerði að nýju samkomulag við íbúa Bet Súr. Handsalaði hann þeim fyrirheit um frið, hélt á braut, 23 réðst á menn Júdasar og bar lægri hlut. Hann frétti að Filippus, sem orðið hafði eftir í Antíokkíu til að stýra málum ríkisins, væri orðinn óður. Hraus konungi hugur við og kallaði Gyðinga til sín og gekk að kröfum þeirra og vann eið að því að breyta réttlátlega við þá. Eftir sættirnar færði hann fórn og auðsýndi musterinu virðingu og örlæti. 24 Hann tók hlýlega á móti Makkabeusi og skipaði Hegemonídes herstjóra yfir landið frá Ptólemais til Gerra.
25 Þá hélt hann til Ptólemais. Íbúarnir þar létu í ljós óánægju sína yfir samkomulaginu. Voru þeir í slíku uppnámi að þeir vildu fá samninginn ógiltan. 26 Þá kvaddi Lýsías sér hljóðs og bar fram varnir eftir bestu getu. Hann sannfærði þá og sefaði og gerði þá samþykka. Hélt hann síðan aftur til Antíokkíu. Þannig fór um herför konungs og undanhald.