1 Drottinn talaði til Móse og sagði:
2 „Segðu Eleasar, syni Arons prests, að taka pönnurnar upp úr öskunni því að þær eru heilagar. Dreifið síðan glóðinni. 3 En eldpönnur þeirra sem greiddu synd sína með lífi sínu skal hamra í þunnar plötur og klæða með þeim altarið því að þeir báru þær fram fyrir Drottin og þær eru því heilagar.“
4 Eleasar prestur tók þá eirpönnurnar sem bornar höfðu verið fram af þeim sem brunnu. Þær voru síðan hamraðar og altarið klætt með þeim. 5 Þær voru Ísraelsmönnum áminning um það að enginn óviðkomandi, sem ekki er af ætt Arons, má ganga fram og brenna reykelsi fyrir augliti Drottins svo að ekki fari eins fyrir honum og Kóra og söfnuði hans. Eleasar gerði það sem Drottinn hafði boðað fyrir munn Móse.
6 Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni og sagði: „Þið hafið deytt þjóð Drottins.“ 7 Þegar söfnuðurinn safnaðist saman gegn Móse og Aroni og sneri sér að samfundatjaldinu huldi skýið tjaldið og dýrð Drottins birtist. 8 Móse og Aron gengu þá fram fyrir samfundatjaldið 9 og Drottinn talaði til Móse og sagði: 10 „Yfirgefið þennan söfnuð því að ég ætla að eyða honum á augabragði.“ Þeir létu þá fallast fram á ásjónur sínar 11 og Móse sagði við Aron: „Taktu eldpönnuna af altarinu, leggðu á hana reykelsi og farðu í skyndi til safnaðarins og friðþægðu fyrir hann því að reiði er þegar gengin út frá augliti Drottins og drepsótt hafin.“ 12 Þá tók Aron pönnuna eins og Móse hafði boðið og hljóp inn í söfnuðinn miðjan. Plágan var þegar hafin meðal fólksins en hann lagði reykelsi á pönnuna og friðþægði fyrir fólkið. 13 Þegar hann gekk milli hinna dauðu og hinna lifandi linnti plágunni. 14 En fjórtán þúsund og sjö hundruð dóu úr plágunni auk þeirra sem dóu vegna máls Kóra. 15 Því næst sneri Aron aftur til Móse að dyrum samfundatjaldsins þar sem plágunni hafði linnt.

Stafur Arons

16 Drottinn talaði til Móse og sagði:
17 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og fáðu hjá þeim tólf stafi, einn staf frá hverri fjölskyldu, einn staf frá hverjum höfðingja ættbálka þeirra. Þú skalt skrifa nafn hvers þeirra á staf hans 19 og nafn Arons á staf Leví því að einn stafur skal koma fyrir höfðingja hvers ættbálks. 19 Leggðu þá síðan niður í samfundatjaldinu frammi fyrir sáttmálstákninu þar sem ég mæti ykkur. 20 Stafur þess manns sem ég vel mun þá laufgast. Þannig ætla ég að þagga niður kurr Ísraelsmanna gegn mér og mögl þeirra gegn ykkur.“
21 Móse talaði því næst við Ísraelsmenn og allir höfðingjar þeirra fengu honum tólf stafi, einn staf fyrir höfðingja hvers ættbálks. Stafur Arons var á meðal stafa þeirra. 22 Síðan lagði Móse stafina niður fyrir augliti Drottins í sáttmálstjaldinu.
23 Þegar Móse kom til sáttmálstjaldsins daginn eftir var stafur Arons, stafur Leví ættar, laufgaður. Á honum höfðu sprottið blöð og blóm og hann bar þroskaðar möndlur. 24 Móse bar þá alla stafina frá augliti Drottins út til allra Ísraelsmanna. Þegar þeir sáu þá tók hver sinn staf.
25 En Drottinn sagði við Móse: „Farðu aftur með staf Arons fram fyrir sáttmálstáknið. Þar skal hann varðveittur sem tákn fyrir hina uppreisnargjörnu. Þar með skal kurri þeirra lokið svo að þeir deyi ekki.“ 26 Móse gerði í einu og öllu eins og Drottinn hafði boðið honum, það gerði hann.
27 Ísraelsmenn sögðu við Móse: „Við deyjum, við förumst, við förumst allir. 28 Sérhver sem kemur nærri bústað Drottins hlýtur að deyja. Eigum við þá allir að líða undir lok og deyja?“