Trúfesti Júdítar við trú feðranna

1 Hólofernes lét því næst fylgja Júdít þangað sem silfurborðbúnaður hans var lagður á borð og bauð að búa henni veislu svo að hún gæti neytt af dýrindis krásum hans og víni. 2 En Júdít sagði: „Ég mun ekki borða af þessu því að það mundi verða mér til falls. Það nægir sem ég hafði meðferðis.“ 3 „En þegar það þrýtur sem þú ert með,“ sagði Hólofernes, „hvaðan eigum við þá að fá sams konar mat handa þér? Enginn af þjóð þinni er hér á meðal okkar.“ 4 Júdít svaraði: „Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, þá mun ambátt þín eigi hafa lokið því sem hún hafði meðferðis fyrr en Drottinn hefur framkvæmt það sem hann ætlar með hendi minni.“
5 Þá fylgdu þjónar Hólofernesar henni inn í tjaldið. Svaf Júdít þar lágnættið. Undir dögun fór hún á fætur 6 og sendi Hólofernesi þessi boð: „Herra. Bjóð þú að ambátt þín fái að fara út til að biðjast fyrir.“ 7 Hólofernes skipaði lífvörðunum að hindra ekki för hennar. Júdít dvaldist í þrjá daga í herbúðunum en gekk jafnan á næturnar út í dalinn við Betúlúu og laugaði sig í herbúðunum við vatnslindina. 8 Er hún steig upp úr vatninu bað hún Drottin, Guð Ísraels, að greiða götu sína til þess að veita börnum þjóðar hans viðreisn. 9 Þegar hún hafði hreinsað sig sneri hún aftur og hélt sig í tjaldi sínu. Um kvöldið neytti hún matar síns.

Veisla Hólofernesar

10 Á fjórða degi hélt Hólofernes þjónum sínum einum drykkjuveislu en bauð engum af foringjum sínum. 11 Hann sagði við Bagóas gelding sem var settur yfir allt sem hann átti: „Far þú og fáðu hebresku konuna, sem hjá þér er, til að koma og eta og drekka með mér. 12 Það væri hneisa að láta þvílíka konu frá sér fara án þess að hafa lagst með henni. Geri ég það ekki hæðist hún að mér.“
13 Bagóas fór frá Hólofernesi, gekk til Júdítar og sagði: „Fagra, unga kona. Vertu ekki feimin. Komdu til húsbónda míns til þess að hljóta sæmd af honum og eiga ánægjulega stund með okkur að víndrykkju. Í dag skaltu verða eins og ein af assýrísku konunum sem þjóna í höll Nebúkadnesars.“ 14 Júdít svaraði honum: „Hver er ég þess að mótmæla herra mínum? Allt sem honum þóknast mun ég gera sem skjótast. Það skal verða mér til gleði allt til efstu stundar.“
15 Júdít stóð á fætur, bjó sig veisluklæðum og hvers kyns kvenlegu skarti. Ambátt hennar fór á undan henni og lagði lambskinn á jörðina fyrir framan Hólofernes, en þau hafði Júdít fengið hjá Bagóasi til að liggja á er hún mataðist daglega.
16 Þegar Júdít kom inn lagðist hún niður. Við það tók hjarta Hólofernesar að slá örar og hann að brenna af girnd og af löngun til að leggjast með henni. En allt frá því að hann leit hana fyrst hafði hann beðið færis að tæla hana. 17 Og Hólofernes sagði við hana: „Drekktu nú og fagnaðu með okkur.“ 18 „Gjarnan skal ég drekka, herra,“ svaraði Júdít, „því að þessi dagur er stórkostlegri en nokkur á ævi minni.“ 19 Hún drakk síðan og neytti hjá honum þess sem þerna hennar hafði tilreitt. 20 Hólofernes naut návistar hennar, drakk stórum og svalg meira vín en nokkru sinni á ævi sinni á einum og sama degi.