Sviksemi Ísraels frá upphafi

1 Á tíunda degi fimmta mánaðar sjöunda ársins komu nokkrir af öldungum Ísraels til að leita svara hjá Drottni og settust frammi fyrir mér. 2 Þá kom orð Drottins til mín: 3 Mannssonur, ávarpaðu öldunga Ísraels og segðu við þá: Svo segir Drottinn Guð: Eruð þið komnir til að leita svara hjá mér? Svo sannarlega sem ég lifi leyfi ég ykkur ekki að leita svara hjá mér, segir Drottinn Guð. 4 Vilt þú ekki heldur dæma þá? Mannssonur, vilt þú dæma þá? Leiddu þeim viðbjóðslega breytni feðra þeirra fyrir sjónir 5 og segðu við þá: Svo segir Drottinn Guð: Daginn, sem ég valdi Ísrael, hóf ég upp hönd mína og vann niðjum Jakobsættar eið. Ég opinberaði mig þeim í Egyptalandi, hóf upp hönd mína, sór og sagði: Ég er Drottinn Guð ykkar. 6 Þann dag hóf ég upp hönd mína og sór þeim að leiða þá út úr Egyptalandi til lands sem ég hafði valið þeim, lands sem flýtur í mjólk og hunangi og ber af öllum löndum. 7 Því næst sagði ég við þá: Sérhver ykkar fleygi þeim viðurstyggilegu skurðgoðum sem augu ykkar beinast að. Saurgið ykkur ekki á skurðgoðunum í Egyptalandi. Ég er Drottinn Guð ykkar. 8 En þeir risu gegn mér og vildu ekki hlusta á mig. Enginn fleygði viðurstyggilegum skurðgoðunum sem augu þeirra loddu við, og þeir sneru ekki baki við skurðgoðum Egyptalands.
Þá hugðist ég úthella reiði minni yfir þá og svala heift minni á þeim í Egyptalandi. 9 En sökum nafns míns gerði ég það ekki svo að það yrði ekki vanhelgað í augum þjóðanna sem þeir bjuggu á meðal. Ég hafði opinberað mig Ísraelsmönnum í augsýn þjóðanna til að leiða þá út úr Egyptalandi 10 og ég leiddi þá út úr Egyptalandi og fór með þá inn í eyðimörkina. 11 Ég gaf þeim lög mín og boðaði þeim reglur mínar. Hver sá maður, sem framfylgir þeim, lifir vegna þeirra. 12 Ég gaf þeim einnig hvíldardaga mína sem tákn um sáttmálann milli mín og þeirra svo að þeir skildu að ég, Drottinn, helga þá. 13 En Ísraelsmenn risu gegn mér í eyðimörkinni. Þeir fóru ekki að lögum mínum og höfnuðu reglum mínum þótt hver sá sem hlýðir þeim lifi vegna þeirra. Þeir vanhelguðu hvíldardaga mína stórum.
Þá hugðist ég úthella reiði minni yfir þá þarna í eyðimörkinni og tortíma þeim. 14 Vegna nafns míns greip ég til annars ráðs til þess að það vanhelgaðist ekki í augum þjóðanna þar sem ég hafði leitt Ísrael út fyrir augum þeirra. 15 Þá hóf ég upp hönd mína og sór þeim, þarna í eyðimörkinni, að fara ekki með þá til landsins sem ég hafði heitið að gefa þeim, landsins sem flýtur í mjólk og hunangi og af öllum löndum ber. 16 Þetta gerði ég af því að þeir höfðu hafnað reglum mínum og ekki fylgt lögum mínum og vanhelgað hvíldardaga mína því að hugur þeirra var bundinn skurðgoðum.
17 En ég leit til þeirra miskunnarauga og ég eyddi þeim ekki og ég gerði ekki út af við þá í eyðimörkinni. 18 Ég sagði því við syni þeirra í eyðimörkinni: Fylgið ekki lögum feðra ykkar og haldið ekki reglur þeirra og saurgið ykkur ekki á skurðgoðum þeirra. 19 Ég er Drottinn Guð ykkar. Farið að lögum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. 20 Haldið hvíldardaga mína heilaga svo að þeir verði tákn sáttmálans milli mín og ykkar og þið skiljið að ég er Drottinn Guð ykkar.
21 En synirnir risu upp gegn mér. Þeir fylgdu ekki lögum mínum og héldu ekki reglur mínar með því að framfylgja þeim, en hver sá sem hlýðir þeim lifir vegna þeirra. Þeir vanhelguðu hvíldardaga mína. Þá hugðist ég úthella reiði minni yfir þá og svala heift minni á þeim, þarna í eyðimörkinni. 22 En ég hélt aftur af mér vegna nafns míns og til þess að það yrði ekki vanhelgað í augum þjóðanna þar sem ég hafði leitt þá út fyrir augum þeirra.
23 Þá hóf ég upp hönd mína og sór þeim, þarna í eyðimörkinni, að tvístra þeim innan um framandi þjóðir og dreifa þeim um löndin 24 vegna þess að þeir höfðu ekki framfylgt reglum mínum, hafnað lögum mínum og vanhelgað hvíldardaga mína og augu þeirra mændu á eftir skurðgoðum feðra þeirra.
25 Þá gaf ég þeim einnig lög sem ekki voru góð og reglur sem ekki veittu þeim líf. 26 Ég saurgaði þá með fórnargjöfum þeirra þegar þeir sendu allt sem opnar móðurlíf gegnum eld. Ég ætlaði að ofbjóða þeim svo að þeir skildu að ég er Drottinn.
27 Ávarpaðu þá Ísraelsmenn, mannssonur, og segðu við þá: Svo segir Drottinn Guð: Feður ykkar smánuðu mig einnig með því að þeir sviku mig. 28 Þegar ég hafði flutt þá til landsins, sem ég sór með upplyftri hendi að gefa þeim, slátruðu þeir sláturfórnum sínum þar um leið og þeir sáu háan hól eða laufgað tré. Þar færðu þeir fram gjafir sínar sem vöktu reiði mína, létu þekkan ilm stíga þar upp og dreyptu þar dreypifórnum sínum. 29 Þá sagði ég við þá: „Til hvaða fórnarhæðar haldið þið?“ Þess vegna er slíkur staður nefndur fórnarhæð allt til þessa dags.
30 Segðu því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Ætlið þið að saurga ykkur á sama hátt og feður ykkar og hórast með viðurstyggilegum skurðgoðum þeirra? 31 Þegar þið berið fram fórnargjafir ykkar með því að láta syni ykkar ganga gegnum eld saurgið þið ykkur. Og allt fram á þennan dag saurgið þið ykkur á öllum skurðgoðum ykkar. Ætti ég þá að leyfa ykkur að leita svara hjá mér, Ísraelsmenn? Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, leyfi ég ykkur ekki að leita svara hjá mér. 32 Aldrei skal það verða sem kom ykkur í hug þegar þið sögðuð: Við viljum vera eins og aðrar þjóðir, eins og þjóðflokkarnir í öðrum löndum sem tilbiðja stokka og steina.

Guð hegnir og fyrirgefur

33 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, mun ég ríkja yfir ykkur með sterkri hendi, upphöfnum armi og fossandi heift. 34 Ég mun leiða ykkur frá framandi þjóðum og löndum og safna ykkur saman úr þeim löndum, sem ykkur var dreift til, með sterkri hendi, upphöfnum armi og fossandi heift. 35 Ég mun fara með ykkur inn í eyðimörk þjóðanna og þar held ég dóm yfir ykkur augliti til auglitis. 36 Ég held dóm yfir ykkur eins og ég hélt dóm yfir feðrum ykkar í eyðimörk Egyptalands, segir Drottinn Guð. 37 Ég mun láta ykkur renna undir hirðisstafinn og telja ykkur vandlega.[ 38 Uppreisnarseggi og þá sem voru mér mótsnúnir skil ég frá ykkur. Þótt ég leiði þá út úr landinu, sem þeir leituðu hælis í, munu þeir ekki komast inn í land Ísraels. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn.
39 En þið, Ísraelsmenn. Svo segir Drottinn Guð: Sérhver fleygi burt skurðgoðum sínum. En síðar munuð þið áreiðanlega hlusta á mig og ekki vanhelga mitt heilaga nafn framar með gjöfum ykkar og skurðgoðum. 40 Því að á mínu heilaga fjalli, á hinu háa fjalli Ísraels, segir Drottinn Guð, munu allir Ísraelsmenn, allir í landinu, þjóna mér. Þar mun ég taka náðarsamlega á móti þeim og þar mun ég áskilja mér afgjöld ykkar, frumgróðafórnir og allar helgigjafir ykkar. 41 Ég mun taka náðarsamlega á móti ykkur vegna hins þægilega fórnarilms.
Þegar ég leiði ykkur frá hinum framandi þjóðum og safna ykkur saman úr löndunum, sem ykkur var dreift um, mun ég opinbera heilagleika minn á ykkur í augsýn þjóðanna. 42 Og þið munuð skilja að ég er Drottinn þegar ég leiði ykkur inn í land Ísraels, inn í landið sem ég sór með uppréttum armi að gefa feðrum ykkar. 43 Þar munuð þið minnast breytni ykkar og allra verka ykkar sem þið hafið saurgað ykkur á. Þá mun ykkur bjóða við sjálfum ykkur vegna allra þeirra illu verka sem þið hafið framið. 44 Þið munuð skilja að ég er Drottinn þegar ég fer þannig með ykkur vegna nafns míns en ekki vegna illrar breytni ykkar og óhæfuverka, Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð.