Dýrð Guðs

1Sá sem lifir að eilífu skapaði allt í heimi.
2Drottinn einn er réttlátur.
Enginn er Guð nema hann einn.
3 Hann stjórnar veröldinni með hendi sinni
og allt verður að lúta vilja hans.
Hann ríkir í mætti sínum yfir öllu sem er
og greinir heilagt frá vanhelgu. [
4 Engum lét hann auðnast að útskýra verk sín,
hver getur rannsakað dásemdarverk hans til hlítar?
5 Hver má mæla hve máttur hans er mikill?
Hver getur lýst miskunnarverkum hans að fullu?
6 Hvorki verður úr þeim dregið né við þau bætt,
enginn kannar til hlítar dásemdir Drottins.
7 Þegar maðurinn ætlar sig hafa lokið því
þá er hann rétt að byrja,
þegar hann hættir veit hann vart sitt rjúkandi ráð.

Smæð manns

8Hvað er maðurinn og til hvers er hann nýtur?
Hið góða eða illa sem hann gerir, hvað er það?
9 Allir ævidagar mannsins
eru í hæsta lagi hundrað ár.
10 Líkt og dropi í hafið, sandkorn eitt,
eru þau fáu ár miðað við eilífð.
11 Þess vegna er Drottinn þolinmóður mönnum
og auðsýnir þeim miskunn.
12 Hann sér og veit að endalok þeirra eru ill,
því er hann fús að fyrirgefa mikið.
13 Miskunn manns nær til náunga hans
en miskunn Drottins til allra manna.
Hann leiðbeinir, agar og fræðir,
leiðir hjörð sína heim eins og hirðir.
14 Hann er miskunnsamur þeim sem hlýðir umvöndun
og þeim sem láta sér annt um boðorð hans.

Góðvild og kærleiksverk

15Barnið mitt, láttu ekki skammir fylgja góðverki,
særðu ei þann sem þiggur gjöf þína.
16 Eins og dögg svalar í sólarhita
taka vingjarnleg orð gjöfinni fram.
17 Er orð ekki betra en góð gjöf?
Hvort tveggja fylgist að hjá göfuglyndum manni.
18 Heimskur maður lastar um leið og hann gefur,
gjöf nirfils slekkur gleðiblik í auga.

Um sjálfsskoðun

19Afla þér þekkingar áður en þú talar,
hygg að heilsunni áður en þú veikist.
20 Rannsaka sjálfan þig áður en til dóms kemur,
þá mun þér fyrirgefið á vitjunartíma.
21 Auðmýk þig áður en heilsan bregst þér,
auðsýn iðrun um leið og þú syndgar.
22 Lát ekkert hindra þig í að halda heit þín í tíma,
fresta eigi til dánardægurs að uppfylla þau.
23 Áður en þú strengir heit skaltu hugsa þitt ráð,
ver eigi líkur þeim manni sem freistar Drottins.
24 Minnstu reiðinnar sem kemur við endi daga,
stund hegningarinnar er Drottinn snýr ásjónu sinni frá þér.
25 Minnstu hungursneyðar á nægtatíma,
fátæktar og skorts á auðsældardögum.
26 Margt getur breyst frá morgni til kvölds,
fyrir Drottni er allt á fleygiferð.
27 Vitur maður gætir varúðar í öllu
og forðast sekt á syndatíð.
28 Sérhver skynsamur maður getur þekkt spekina
og lofar þann sem finnur hana.
29 Þeir sem iðka fræðin verða sjálfir vitrir,
frá þeim streyma hnitmiðuð spakmæli.

Um sjálfsstjórn

30 Láttu ekki teymast af fýsnum þínum
og hafðu taumhald á girndum þínum.
31 Leyfir þú sál þinni að seðjast af nautnum
verður þú athlægi óvina þinna.
32 Leita ei gleði í óhófslífi,
það kann að leiða örbirgð yfir þig.
33 Gjör þig ei snauðan með veislum fyrir lánsfé
er þú sjálfur átt ekkert í pyngju þinni.