Konungur Egypta svíkur Alexander

1 Konungur Egyptalands safnaði að sér miklum flota og slíkum aragrúa herliðs að það var sem sandur á sjávarströnd. Ætlaði hann að ná ríki Alexanders undir sig með brögðum og auka því við ríki sitt. 2 Hélt hann til Sýrlands með friðmælum. Íbúar borganna luku þeim upp fyrir honum og tóku honum vel enda hafði Alexander konungur mælt svo fyrir þar sem hér var tengdafaðir hans á ferð. 3 En Ptólemeus skildi setulið eftir í hverri borg sem hann kom við í.
4 Þegar hann hafði náð til Asdód voru honum sýndar brunarústir Dagónhofsins og hvernig herinn hafði eytt Asdód og bæjunum umhverfis. Honum voru sýnd líkin sem lágu á dreif. Einnig var líkamsleifum þeirra sem brenndir voru inni í stríðinu staflað upp við veginn sem konungur fór um. 5 Til að sverta Jónatan var konungi skýrt frá því sem hann hafði gert en konungur þagði við.
6 Jónatan fór með viðhöfn til Joppe til fundar við konung. Þeir skiptust á kveðjum og tóku síðan á sig náðir. 7 Jónatan fylgdi konungi síðan allt að fljóti því sem kallast Elevterus en hvarf síðan aftur til Jerúsalem.
8 Ptólemeus konungur náði yfirráðum í borgunum við ströndina allt að Selevkíu við hafið og bruggaði Alexander illt. 9 Hann sendi fulltrúa til Demetríusar konungs með þessi boð: „Kom þú. Við skulum gera með okkur sáttmála. Ég skal gefa þér dóttur mína sem Alexander á og þú skalt verða konungur í ríki föður þíns. 10 Mig iðrar þess að hafa gefið Alexander hana því að hann hefur setið um líf mitt.“
11 Með þeim hætti sverti hann Alexander vegna þess að hann girntist ríki hans. 12 Tók hann dóttur sína frá honum og gaf hana Demetríusi og varð ekki aðeins fráhverfur Alexander heldur varð fjandskapur millum þeirra á allra vitorði.
13 Ptólemeus hélt síðan innreið sína í Antíokkíu og tók sér kórónu Asíu. Bar hann nú tvær kórónur, Egyptalands og Asíu.

Alexander Balas felldur

14 Alexander konungur var í Kilíkíu um þessar mundir vegna þess að íbúar þar höfðu risið gegn honum. 15 Þegar honum bárust fregnir af þessum atburðum fór hann með her sinn gegn Ptólemeusi. Hann hélt með mikinn herstyrk móti Alexander og hafði sigur. 16 Flýði Alexander til Arabíu og leitaði þar hælis en Ptólemeus var sigri hrósandi. 17 En Arabinn Sabdíel hjó höfuðið af Alexander og sendi það til Ptólemeusar.
18 Þrem dögum síðar dó Ptólemeus sjálfur. Drápu þá íbúar víggirtu borganna setuliðin þar. 19 Varð Demetríus þá konungur árið eitt hundrað sextíu og sjö.[

Jónatan vinnur hylli Demetríusar II

20 Um þetta leyti safnaði Jónatan Gyðingum til að ráðast á virkið í Jerúsalem og ná því á sitt vald. Reistu þeir margar umsátursvélar við það. 21 En nokkrir guðlausir menn, sem hötuðu þjóð sína, fóru til konungs og sögðu honum að Jónatan sæti um virkið. 22 Varð Demetríus reiður við og jafnskjótt og honum bárust þessi tíðindi bjó hann sig til farar og hélt til Ptólemais. Skrifaði hann Jónatan, bauð honum að létta umsátrinu og koma sem skjótast til Ptólemais til fundar við sig og viðræðna. 23 Þegar Jónatan heyrði þetta skipaði hann að umsátrinu skyldi haldið áfram. Hann kaus sér fylgdarlið úr hópi öldunga Ísraels og prestanna og gaf sig hættunni á vald. 24 Tók hann með sér silfur, gull og klæði og fjölda annarra gjafa, kom til konungs í Ptólemais og ávann sér velvild hans. 25 En nokkrir guðlausir landar hans níddu hann við konung. 26 Þó kom konungur fram við Jónatan eins og fyrirrennarar hans höfðu gert og auðsýndi honum virðingu í augsýn allra vina sinna. 27 Hann staðfesti æðstaprestdóm Jónatans og öll hans fyrri metorð önnur og ákvað að hann skyldi fylla hóp fremstu vina sinna.
28 Jónatan bað konung um að lýsa Júdeu, héruðin þrjú og Samaríu skattfrjáls. Hét hann konungi þrjú hundruð talentum í staðinn. 29 Konungur féllst á þetta. Gaf hann Jónatan skriflega staðfestingu á því sem er á þessa leið:
30 „Demetríus konungur sendir bróður sínum Jónatan og Gyðingaþjóðinni kveðju. 31 Afrit af bréfi því sem vér rituðum Lastenesi frænda vorum um mál ykkar sendum vér ykkur hér með til kynningar: 32 Demetríus konungur sendir Lastenesi föður sínum kveðju. 33 Vér höfum afráðið að launa þjóð Gyðinga fyrir velvild í vorn garð en hún hefur reynst vinur vor og staðið við allar skuldbindingar við oss. 34 Vér staðfestum hér með yfirráð Gyðinga á landsvæði Júdeu og héruðunum þremur, Aferema, Lyddu og Ramataím, sem hafa verið lögð undir Júdeu frá Samaríu ásamt öllu sem þeim fylgir. Öllum sem færa fórnir í Jerúsalem skal gefinn eftir skattur af korni og ávöxtum sem konungur gerði áður kröfu til árlega. 35 Sama skal gilda um allar tekjur aðrar sem vér eigum framvegis rétt á af tíundum og tollum sem oss ber, einnig salttoll og kórónuskatt. Allt þetta skal þeim eftirgefið. 36 Ekkert þessara ákvæða má afturkalla og skulu þau gilda frá og með deginum í dag og um alla framtíð. 37 Nú ber ykkur að sjá um að taka afrit af bréfi þessu og fá Jónatan það. Skal því komið fyrir á áberandi stað á fjallinu helga.“

Jónatan hjálpar Demetríusi II

38 Demetríus konungur sá að kyrrð var komin á í landi hans og engin andspyrna var gegn honum. Hann lét þá allan herafla sinn frá sér fara og hélt hver til síns heima að frátöldu útlenda herliðinu sem hann hafði dregið að sér frá eyjum heiðingjanna. Það setti alla hermennina sem verið höfðu í þjónustu fyrirrennara hans upp á móti honum.
39 Einn þeirra sem verið höfðu í þjónustu Alexanders var Trýfon. Hann sá að allar hersveitirnar gerðu kurr gegn Demetríusi. Fór hann þá til Arabans Jamlíku sem fóstraði Antíokkus, barnungan son Alexanders. 40 Hann lagði hart að honum að fá drenginn afhentan til að hann yrði konungur í stað föður síns. Greindi hann Jamlíku frá öllum ráðstöfunum Demetríusar og fjandskap hersveitanna í hans garð. Dvaldist Trýfon þar langa hríð.
41 Jónatan sendi boð til Demetríusar konungs og bað hann að reka setuliðið úr virkinu í Jerúsalem og öðrum virkjum því að þau ólu stöðugt á ófriði við Ísraelsmenn. 42 Demetríus sendi Jónatan svohljóðandi svar: „Ekki skal ég gera þetta eitt fyrir þig og þjóð þína heldur skal ég einnig auðsýna þér og þjóð þinni hina mestu sæmd fái ég tækifæri til. 43 En vel gerðir þú ef þú sendir mér hermenn til liðveislu því að allar hersveitir mínar hafa brugðist mér.“
44 Jónatan sendi þrjú þúsund vaska hermenn til konungs í Antíokkíu. Varð Demetríus feginn komu þeirra. 45 En nær eitt hundrað og tuttugu þúsundir borgarbúa söfnuðust í miðborginni og ætluðu að taka konung af lífi. 46 Konungur flýði inn í höllina en borgarbúar náðu aðalgötum borgarinnar á sitt vald og hófu áhlaup. 47 Konungur kallaði á Gyðingana til hjálpar og þyrptust þeir allir til hans. Dreifðu þeir sér síðan um borgina og felldu þann daginn um eitt hundrað þúsund manns. 48 Þeir kveiktu einnig í borginni, tóku mikið herfang þá um daginn og björguðu konungi. 49 Þegar íbúarnir sáu að Gyðingar höfðu náð yfirtökum og gátu farið sínu fram í borginni féllst þeim hugur, þeir hrópuðu til konungs og báðu: 50 „Sæstu við okkur og láttu Gyðingana hætta að herja á okkur og borgina.“ 51 Þeir vörpuðu frá sér vopnum sínum og friður var saminn.
Gyðingar uxu stórum í áliti hjá konungi. Jókst hróður þeirra mjög og orðstír þeirra barst um ríki konungs. Sneru þeir aftur til Jerúsalem og höfðu með sér mikið herfang. 52 Demetríus settist í hásæti ríkis síns og var allt með kyrrum kjörum í landi hans. 53 En hann sveik öll sín loforð og gerðist fráhverfur Jónatan. Endurgalt hann honum í engu þá velvild sem Jónatan hafði auðsýnt honum heldur þrengdi mjög að honum.

Jónatan styður Antíokkus VI

54 Nokkru síðar kom Trýfon aftur með snáðann Antíokkus. Tók Antíokkus við konungdómi og var krýndur. 55 Söfnuðust um hann allar hersveitirnar sem Demetríus hafði hrakið frá sér. Þær réðust á Demetríus sem beið ósigur og flýði. 56 Trýfon tók fílana og náði Antíokkíu á sitt vald.
57 Antíokkus ungi skrifaði Jónatan sem hér segir: „Ég staðfesti æðstaprestdóm þinn og yfirráð yfir héruðunum fjórum og að þú sért einn af vinum konungs.“ 58 Hann sendi Jónatan borðbúnað úr gulli og heimilaði honum að drekka úr gullbikar, klæðast purpura og bera gullsylgju. 59 Símon, bróður Jónatans, gerði Antíokkus að hershöfðingja á svæðinu frá Týrusarstiga að landamærum Egyptalands.
60 Jónatan tók sig upp og fór um landið handan fljóts og borgirnar þar og allar hersveitir Sýrlands söfnuðust að honum til að veita honum lið. Þegar hann kom til Askalon tóku íbúarnir á móti honum með viðhöfn. 61 Þaðan fór Jónatan til Gasa en borgarbúar meinuðu honum aðgang að borginni. Settist hann um Gasa, brenndi borgirnar umhverfis hana og rændi þær. 62 Leituðu borgarbúar þá eftir friði við Jónatan og varð hann við óskum þeirra. En hann tók syni fremstu manna borgarinnar í gíslingu og sendi þá til Jerúsalem. Hann fór síðan um landið alla leið til Damaskus. 63 Þá barst honum til eyrna að hershöfðingjar Demetríusar væru komnir til Kades í Galíleu með mikinn her til að stemma stigu við fyrirætlunum hans. 64 Fór Jónatan á móti þeim en skildi Símon bróður sinn eftir í Júdeu. 65 Símon setti upp herbúðir gegnt Bet Súr, umkringdi borgina og herjaði á hana langa hríð. 66 Borgarbúar leituðu eftir friði við hann sem Jónatan féllst á en hrakti þá úr borginni, tók sjálfur völdin og kom þar fyrir setuliði.
67 Jónatan og her hans sló upp herbúðum við Genesaretvatnið og hélt árla morguns út á Asórsléttuna. 68 Kom þá meginherstyrkur útlendinganna gegn honum út á sléttuna og réðst að honum en nokkrum hluta hersins höfðu útlendingarnir komið fyrir í fjöllunum að baki liði Jónatans. 69 Þegar það lið kom fram úr leyni sínu og réðst á þá 70 flýðu allir menn Jónatans. Enginn þeirra varð um kyrrt nema herforingjarnir Mattatías Absalonsson og Júdas Kalfeisson. 71 Þá reif Jónatan klæði sín, jós mold yfir höfuð sér og baðst fyrir. 72 Síðan lagði hann til orrustu við óvinina og rak þá á flótta. 73 Þegar flóttamennirnir úr liði hans sáu þetta komu þeir aftur til hans og tóku þátt í eftirförinni að herbúðum óvinanna við Kades. Þar reistu þeir sjálfir herbúðir. 74 Daginn þann féllu um þrjú þúsund manns af liði útlendinganna. Jónatan sneri síðan aftur til Jerúsalem.