Drottinn hjálpar

1Vei þeim sem fara til Egyptalands í liðsbón,
sem reiða sig á hesta
og treysta á hervagna af því að þeir eru margir
og á riddara af því að þeir eru fjölmargir
en líta ekki til Hins heilaga í Ísrael
og leita ekki svara hjá Drottni.
2En einnig hann er vitur,
lét ógæfu henda
og tók ekki orð sín aftur.
Hann reis gegn ætt illmenna
og gegn hjálp illvirkja.
3Egyptar eru menn en enginn Guð,
hestar þeirra eru hold en ekki andi.
Þegar Drottinn réttir út hönd sína
hrasar sá sem hjálpar og fellur sá sem hjálpa skal
svo að þeir farast báðir, hvor með öðrum.
4Því að svo segir Drottinn við mig:
Eins og ljón eða ljónshvolpur urrar yfir bráð sinni
og óttast ekki hóp fjárhirða sem stefnt er gegn honum,
skelfist hvorki hróp þeirra
né guggnar fyrir háreysti þeirra,
eins mun Drottinn allsherjar stíga niður
til að herja á Síonarfjall og Síonarhæð.
5Eins og fuglar sem sveima yfir
mun Drottinn allsherjar vernda Jerúsalem,
hann mun vernda hana og frelsa,
verja og bjarga.
6Hverfið aftur til hans
sem Ísraelsmenn hafa fallið svo djúpt frá
7því að á þeim degi mun hver og einn
hafna skurðgoðum sínum úr silfri og gulli
sem þér gerðuð með syndugum höndum.
8Assúr mun falla fyrir sverði, þó ekki sverði manns,
sverðið mun eyða honum, þó ekki sverð manns.
Assúr mun flýja undan sverði
en æskumenn hans verða hnepptir í ánauð.
9Bjarg hans mun farast af ótta
og höfðingjar hans hlaupast undan merkjum,
segir Drottinn sem á eld á Síon
og eldstæði í Jerúsalem.