1 Asafssálmur.
Guð, heiðingjar hafa ruðst inn í erfðaland þitt,
þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri,
lagt Jerúsalem í rúst.
2Þeir hafa gefið fuglum himinsins lík þjóna þinna að æti
og dýrum merkurinnar hold þeirra sem treystu þér.
3Þeir hafa úthellt blóði þeirra eins og vatni umhverfis Jerúsalem
og enginn greftraði þá.
4Vér vorum smánaðir af grönnum vorum,
hafðir að háði og spotti af þeim sem bjuggu umhverfis oss.
5Hversu lengi, Drottinn, á reiði þín að vara,
á vandlæti þitt að loga sem eldur um alla framtíð?
6Úthell reiði þinni yfir heiðingjana
sem ekki þekkja þig
og konungsríki sem ekki ákalla nafn þitt
7því að þau hafa gleypt Jakob
og lagt bústað hans í eyði.
8Lát oss ekki gjalda misgjörða forfeðranna.
Miskunn þín komi skjótt til móts við oss
því að vér erum örmagna.
9Hjálpa oss, Guð, frelsari vor,
sakir þíns dýrlega nafns.
Frelsa oss og fyrirgef syndir vorar
sakir nafns þíns.
10Hvers vegna ættu heiðingjarnir að segja:
„Hvar er Guð þeirra?“
Gerðu kunnugt meðal þjóðanna frammi fyrir augum vorum
að þú hefnir fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig,
varðveit líf hinna dauðadæmdu
með þínum máttuga armi.
12Gjald grönnum vorum sjöfalt
háðungina sem þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13En vér, lýður þinn og gæsluhjörð,
munum þakka þér um aldur og ævi,
syngja þér lof frá kyni til kyns.