1 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2Drottinn, yfir mætti þínum gleðst konungurinn,
hve mjög fagnar hann yfir hjálp þinni.
3Þú gafst honum það sem hjarta hans þráði
og neitaðir honum eigi um það sem varir hans báðu um. (Sela)
4Þú komst á móti honum með góðar gjafir,
settir gullkórónu á höfuð honum.
5Um líf bað hann þig, það veittir þú honum,
fjöld lífdaga um aldur og ævi.
6Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp,
tign og vegsemd veittir þú honum.
7Þú lést hann verða til ævarandi blessunar,
veittir honum fögnuð fyrir augliti þínu.
8Konungurinn treystir Drottni
og skelfur ekki vegna náðar Hins hæsta.
9Hönd þín nær til allra óvina þinna,
hægri hönd þín nær til hatursmanna þinna.
10Þú gerir þá sem glóandi ofn
þegar þú lítur á þá, Drottinn.
Drottinn eyðir þeim í reiði sinni,
eldur gleypir þá.
11Afkvæmi þeirra afmáir þú af jörðinni,
niðja þeirra úr mannheimi.
12Þeir höfðu illt í hyggju gegn þér,
brugguðu vélráð sem þó urðu til einskis.
13Því að þú rekur þá á flótta
þegar þú beinir boga þínum að augliti þeirra.
14Drottinn, rís upp í veldi þínu,
vér munum syngja og kveða um máttarverk þín.