Morðið á Gyðingum í Joppe

1 Þegar nú samkomulag þetta hafði verið gert fór Lýsías aftur til konungsins og Gyðingar tóku til við jarðyrkju sína. 2 En nokkrir af herstjórunum í héruðunum, svo sem Tímóteus og Appollóníus Genneusson, Híeronýmus og Demofón og auk þeirra Níkanor, sem var foringi liðs Kýpurmanna, unnu þeim ekki friðar.
3 Í Joppe frömdu íbúarnir hræðilegt ódæði. Þeir buðu Gyðingum, sem þar bjuggu, ásamt konum sínum og börnum, út á skip sem þeir lögðu til. Létu þeir sem þetta væri vinarbragð 4 og væru allir borgarbúar einhuga í þessu. Gyðingar þekktust boðið alls ugglausir og í þeirri trú að hinir vildu stuðla að friði. En er komið var á haf út vörpuðu Joppebúar Gyðingunum fyrir borð og drekktu þeim, fyllilega tvö hundruð manns.
5 Þegar Júdas frétti um þetta grimmdarverk á löndum sínum kallaði hann menn sína saman, 6 ákallaði Guð, hinn réttláta dómara, og réðst síðan á morðingja bræðra sinna. Hann lagði eld að höfninni í Joppe að næturþeli, brenndi skip Joppebúa og felldi þá sem þangað höfðu flúið.
7 En þar sem borgin var rammlega lokuð hvarf hann frá en ætlaði sér að snúa aftur og gereyða öllum Joppebúum. 8 Þegar hann svo frétti að íbúar Jabne ætluðu sér að fara eins með þá Gyðinga sem þar höfðu sest að 9 gerði hann árás á íbúa Jabne í skjóli náttmyrkurs, kveikti í höfninni og skipaflotanum og sást bjarminn af eldinum alla leið til Jerúsalem sem er tvö hundruð og fjörutíu skeiðrúm þaðan.

Sigurför Júdasar um byggðir Gíleaðs

10 Þegar Júdas og menn hans voru komnir um níu skeiðrúm þaðan á leið til bardaga við Tímóteus réðust meira en fimm þúsund Arabar á þá ásamt fimm hundruð riddurum. 11 Tókst með þeim snörp orrusta en með hjálp Guðs veitti Júdasi og mönnum hans betur og sigruðu þeir hirðingjana sem báðu Júdas um frið. Hétu þeir því að gefa þeim bæði búfé og liðsinna þeim á annan hátt. 12 Samdi Júdas frið við þá enda taldi hann að þeir gætu orðið að gagni á margan hátt. Eftir að þetta var bundið fastmælum héldu þeir aftur til tjalda sinna.
13 Júdas réðst einnig á borg sem kallast Kaspín. Var hún víggirt rammgerum múrum og bjuggu þar menn af ýmsu þjóðerni. 14 Íbúarnir báru slíkt traust til styrks múranna og þess að þeir hefðu nógar vistir að þeir ögruðu liðsmönnum Júdasar, gerðu gys að þeim, létu svívirðingar dynja og guðlöstuðu. 15 En Júdas og menn hans ákölluðu hinn mikla Drottin veraldar sem felldi múra Jeríkó á tímum Jósúa án múrbrjóta og vígvéla. Gerðu þeir síðan ákaft áhlaup á virkisvegginn. 16 Að vilja Guðs náðu þeir borginni á sitt vald. Þeir ollu slíku blóðbaði að stöðuvatn í grenndinni, sem var um tvö skeiðrúm á breidd, var að sjá sem fyllt af því blóði sem út í það rann.

Júdas vinnur sigur á her Tímóteusar

17 Þaðan héldu þeir sjö hundruð og fimmtíu skeiðrúma leið og komu til Karax, til Gyðinga sem kallaðir eru Tóbíanar. 18 Þeir rákust ekki á Tímóteus á þeim slóðum því að hann var farinn þaðan og hafði ekki haft erindi sem erfiði. En vel búið setulið hafði hann skilið eftir á stað nokkrum.
19 Tveir af foringjum Makkabeusar, Dósíþeus og Sósípater, réðust á virkið og felldu alla sem Tímóteus hafði skilið eftir, meira en tíu þúsund.
20 Eftir þetta skipti Makkabeus liði sínu í herflokka, setti þeim fyrirliða og fór gegn Tímóteusi sem hafði á að skipa hundrað og tuttugu þúsund fótgönguliðum og tvö þúsund og fimm hundruð riddurum.
21 Er Tímóteus frétti að Júdas nálgaðist sendi hann konur, börn og farangur til borgar sem nefnist Karníon. Sá staður er mjög erfiður aðkomu og nær ógerlegt að sitja um hann vegna þess hve þröng gljúfur liggja að honum. 22 Óðara en fyrsta herdeild Júdasar kom í ljós greip ótti og ofboð óvinina vegna vitrunar frá alskyggnum Guði. Í skelfingu flýðu þeir hver um annan þveran svo að margir urðu sárir af vopnum félaga sinna og hlutu svöðusár hver af annars sverðsoddum.
23 Júdas rak flóttann af mikilli ákefð og felldi þessa illvirkja, hartnær þrjátíu þúsundir manna. 24 Tímóteus sjálfur féll í hendur manna Dósíþeusar og Sósípaters en tókst með lævísum fortölum að sleppa heill á húfi. Hann kvaðst hafa foreldra og bræður margra þeirra á valdi sínu og yrði þeim ekki þyrmt ef illa færi fyrir sér. 25 Þegar hann hafði sannfært þá með miklum fortölum sínum og heitið að senda ættingja þeirra heim, heila á húfi, létu þeir hann lausan til að tryggja öryggi bræðra sinna.

Aðrir sigrar Júdasar

26 Síðan réðst Júdas á Karníon og Atergatishofið og felldi tuttugu og fimm þúsund manns. 27 Þegar hann hafði unnið þessa staði og eytt þeim hélt hann til virkisbæjarins Efron þar sem margt fólk af ýmsu þjóðerni bjó. Vaskir ungir menn tóku sér stöðu við virkisveggina og vörðust hetjulega. Auk þess var þar inni fyrir mikið af vígvélum og kastvopnum.
28 Þegar Júdas og menn hans höfðu ákallað Hinn máttuga, sem mylur herstyrk óvina með krafti sínum, náðu þeir borginni og felldu þar um tuttugu og fimm þúsund manns.
29 Þaðan héldu þeir og réðust á Skýtópólis sem er sex hundruð skeiðrúm frá Jerúsalem. 30 Gyðingar, sem þar bjuggu, báru hins vegar að íbúar borgarinnar hefðu komið vel fram við þá og auðsýnt þeim velvilja þegar að þeim kreppti. 31 Þökkuðu liðsmenn Júdasar þeim fyrir þetta og hvöttu þá til að sýna þjóð þeirra áfram vinsemd. Sneru þeir síðan aftur til Jerúsalem en komið var að viknahátíðinni.

Júdas sigrar Gorgías

32 Eftir hvítasunnu, en svo kallast hátíðin, héldu þeir gegn Gorgíasi herstjóra í Ídúmeu. 33 Hann fór í gegn þeim með þrjú þúsund fótgönguliða og fjögur hundruð riddara. 34 Í bardaganum féllu fáeinir Gyðingar.
35 Dósíþeus nokkur, sem var hraustur riddari í liði Bakenors, náði taki á skikkju Gorgíasar og dró hann með sér af öllum kröftum því að hann ætlaði að ná mannhundinum lifandi. En einn af þrakísku riddurunum þeysti að honum og hjó handlegginn af honum svo að Gorgías komst undan til Marísa.
36 Menn Esdríasar höfðu lengi barist og voru orðnir örmagna. Júdas ákallaði því Drottin og bað hann að birtast sem bandamaður þeirra og leiðtogi í stríðinu. 37 Hann hóf síðan upp herópið með því að syngja lofsöngva á móðurmálinu, réðst fyrirvaralaust á menn Gorgíasar og hrakti þá á flótta.

Bæn fyrir föllnum í orrustu

38 Júdas leiddi herinn þaðan til Adúllamborgar en þar sem sjöundi dagurinn fór í hönd helguðu þeir sig að venju og héldu þar hvíldardaginn heilagan. 39 Daginn eftir, þegar brýnt var orðið að annast um fallna og búa þeim leg hjá ættingjum sínum í gröfum feðranna, héldu Júdas og menn hans út til að gera þetta. 40 Þá fundu þeir innan klæða á öllum líkunum helgigripi, tengda skurðgoðunum í Jabne, sem lögmálið bannar Gyðingum að hafa á sér. Varð öllum ljóst að þetta var ástæða þess að þeir féllu. 41 Lofuðu þeir allir Drottin, sem er réttlátur dómari og leiðir hið hulda í ljós, 42 og báðu hann að fyrirgefa þessa synd algjörlega. Og göfugmennið Júdas áminnti fólkið um að halda sig frá syndum þegar það sæi nú með eigin augum til hvers synd hinna föllnu hafði leitt.
43 Hann lét alla sína menn skjóta saman. Urðu það tvö þúsund drökmur silfurs sem Júdas sendi til Jerúsalem til að kosta syndafórn. Þetta gerði hann vel og skynsamlega því að hann hafði upprisuna í huga. 44 Ef hann hefði eigi vænst þess að hinir föllnu risu upp hefði það verið óþarfi og heimska að biðja fyrir látnum. 45 Auk þess leit hann svo á að dýrleg umbun biði þeirra sem sofna í trú. Heilög og fróm hugsun er það. Þess vegna lét hann færa sáttarfórn fyrir hina látnu til að þeir leystust frá syndum sínum.