1 Davíðssálmur.
Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig,
berst þú við þá er berjast við mig.
2Gríp skjöld og brynju
og rís upp mér til hjálpar.
3Reið upp spjót og öxi
til að mæta þeim sem ofsækja mig
og segðu við mig: Ég er hjálp þín.
4Lát þá er sitja um líf mitt
hljóta smán og svívirðing,
lát þá hverfa aftur með skömm
er hyggja á illt gegn mér.
5Lát þá verða sem hismi í vindi
þegar engill Drottins feykir þeim burt,
6lát veg þeirra verða myrkan og hálan
þegar engill Drottins eltir þá.
7Því að án ástæðu lögðu þeir net fyrir mig,
án tilefnis grófu þeir mér gryfju.
8Leið eyðingu yfir þá er minnst varir
og lát netið, sem þeir lögðu, veiða þá sjálfa.
Lát þá falla í eigin gryfju.
9En ég mun fagna yfir Drottni,
gleðjast yfir hjálp hans,
10öll bein mín skulu segja:
„Drottinn, hver er sem þú?
Þú bjargar umkomulausum
frá þeim sem er ofjarl hans,
hinum þurfandi og fátæka frá þeim sem vill ræna hann.“
11Ljúgvitni ganga fram,
spyrja mig um það sem ég veit ekki,
12launa mér gott með illu,
ég er einn og yfirgefinn.
13Þegar þeir voru sjúkir klæddist ég hærusekk,
þjáði mig með föstu,
laut höfði og bað
14eins og vinur eða bróðir ætti í hlut.
Eins og sá sem syrgir móður sína
gekk ég um beygður í sorgarklæðum.
15Þegar ég hrasa fagna þeir og safnast saman,
hópast saman gegn mér
til að slá mig að óvörum
og rífa og slíta án afláts.
16Þeir spotta mig af ósvífni,
gnísta tönnum gegn mér.
17Drottinn, hversu lengi ætlar þú að horfa á?
Bjarga lífi mínu frá villidýrunum,
aleigu minni frá ljónunum.
18Þá vil ég lofa þig í stórum söfnuði,
vegsama þig í fjölmenni.
19Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir hlakka yfir mér,
lát þá sem hata mig að tilefnislausu ekki horfa háðslega til mín,
20því að þeir mæla ekki friðarorð,
þeir brugga launráð gegn hinum kyrrlátu í landinu.
21Þeir glenna upp ginið gegn mér,
hrópa að mér háðsyrði og segja:
„Vér sáum það með eigin augum.“
22 Þú hefur séð þetta, Drottinn, ver eigi hljóður,
Drottinn, ver eigi fjarri mér.
23 Vakna, rís upp, lát mig ná rétti mínum,
Guð minn og Drottinn, flyt þú mál mitt.
24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn,
svo að þeir hlakki ekki yfir mér.
25 Þeir skulu hvorki hugsa:
„Þetta fór eins og vér vildum,“
né „vér höfum gert út af við hann.“
26 Lát þá sem hlakka yfir ógæfu minni
verða til skammar og hljóta kinnroða,
lát þá klæðast skömm og svívirðing
sem hreykja sér gegn mér.
27 En lát þá sem unna mér réttar
fagna og gleðjast,
lát þá ætíð segja: „Mikill er Drottinn,
sem ann þjóni sínum heilla.“
28 Tunga mín skal boða réttlæti þitt,
lofstír þinn liðlangan daginn.