Starf Páls í Þessaloníku

1 Sjálf vitið þið, bræður og systur,[ að koma mín til ykkar varð ekki árangurslaus. 2 Ykkur er kunnugt að ég hafði áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí en Guð minn gaf mér djörfung til að tala til ykkar fagnaðarerindi Guðs þótt baráttan væri mikil. 3 Boðun mín er ekki sprottin af villu eða af óhreinum hvötum og ég reyni ekki að blekkja neinn. 4 En Guð hefur talið mig maklegan þess að trúa mér fyrir fagnaðarerindinu. Þannig hef ég líka talað, ekki til þess að þóknast mönnum heldur Guði sem rannsakar hjörtu okkar. 5 Aldrei hafði ég nein smjaðuryrði á vörum, það vitið þið. Og ekki bjó þar ásælni að baki – Guð er vottur þess. 6 Ekki leitaði ég vegsemdar af mönnum, hvorki ykkur né öðrum, 7 þótt ég hefði getað beitt myndugleika sem postuli Krists. Nei, ég var mildur á meðal ykkar, eins og móðir[ sem hlúir að börnum sínum. 8 Ég bar slíkt kærleiksþel til ykkar að glaður hefði ég ekki einungis gefið ykkur fagnaðarerindi Guðs heldur og mitt eigið líf, svo ástfólgin voruð þið orðin mér. 9 Þið munið, bræður og systur,[ eftir erfiði mínu og striti: Ég vann nótt og dag til þess að vera ekki neinu ykkar til þyngsla um leið og ég prédikaði fyrir ykkur fagnaðarerindi Guðs.
10 Þið eruð vottar þess með Guði að framkoma mín við ykkur sem trúið var hrein, réttvís og óaðfinnanleg. 11 Þið vitið hvernig ég lagði að ykkur og hvatti og grátbændi hvert og eitt ykkar eins og faðir börn sín 12 að þið skylduð breyta eins og samboðið er Guði sem kallar ykkur til ríkis síns og dýrðar.
13 Og þess vegna þakka ég líka Guði án afláts því að þegar þið veittuð viðtöku orði Guðs, sem ég boðaði, þá tókuð þið ekki við því sem manna orði heldur sem Guðs orði – eins og það í sannleika er og það sýnir kraft sinn í ykkur sem trúið. 14 Þið hafið, systkin,[ tekið ykkur til fyrirmyndar söfnuði Guðs í Júdeu sem eru í Kristi Jesú. Því að þið hafið þolað hið sama af löndum ykkar sem þeir urðu að þola af Gyðingum 15 er bæði líflétu Drottin Jesú og spámennina og hafa ofsótt okkur. Þeir eru Guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir. 16 Þeir vilja meina mér að tala til heiðingjanna til þess að þeir megi verða hólpnir. Þannig fylla þeir stöðugt mæli synda sinna. En reiðin er þá líka yfir þá komin um síðir.

Ég hef þráð að sjá ykkur

17 En ég, bræður og systur,[ sem um stundarsakir hef verið skilinn frá ykkur að líkamanum til en ekki huganum, hef þráð ykkur mjög og gert mér allt far um að fá að sjá ykkur aftur. 18 Þess vegna ætlaði ég að koma til ykkar, ég, Páll, oftar en einu sinni en Satan hefur hamlað því. 19 Hver er von mín eða gleði eða sigursveigurinn sem ég miklast af? Eruð það ekki einmitt þið, frammi fyrir Drottni vorum Jesú við komu hans? 20 Já, þið eruð vegsemd mín og gleði.