Naomí og Rut

1 Á stjórnartíð dómaranna varð einhverju sinni hungursneyð í landinu. Fór þá maður nokkur ásamt konu sinni og tveimur sonum frá Betlehem í Júda til að leita hælis sem aðkomumaður á Móabssléttu. 2 Maður þessi hét Elímelek. Kona hans hét Naomí og synir hans Mahlón og Kiljón. Þau voru af Efrata ætt frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabssléttu og settust þar að.
3 Elímelek, maður Naomí, lést en hún lifði mann sinn og báðir synir hennar. 4 Þeir tóku sér móabískar konur og hét önnur Orpa en hin Rut. Er þau höfðu búið þar í nærri því tíu ár 5 létust einnig Mahlón og Kiljón en Naomí lifði syni sína og mann sinn.

Haldið til Betlehem

6 Hún bjóst þá til ferðar ásamt tengdadætrum sínum og hélt frá Móabssléttu því að þar hafði hún frétt að Drottinn hefði komið þjóð sinni til hjálpar og séð henni fyrir fæðu. 7 Hún og tengdadætur hennar lögðu af stað þaðan og héldu áleiðis til Júda. 8 Þá sagði Naomí við tengdadætur sínar:
„Snúið nú báðar við og farið til móðurfólks ykkar. Drottinn launi ykkur þær velgjörðir sem þið auðsýnduð hinum látnu og mér. 9 Drottinn gefi ykkur báðum traust heimili með nýjum eiginmanni.“
Síðan kyssti hún þær í kveðjuskyni en þær fóru að gráta 10 og sögðu við hana:
„Nei, við ætlum að fara með þér til ættmenna þinna.“
11 En Naomí svaraði: „Snúið við, dætur mínar. Hvers vegna viljið þið koma með mér? Haldið þið að ég gangi með syni sem þið gætuð gifst? 12 Snúið við, dætur mínar, og farið. Ég er orðin of gömul til þess að giftast aftur. Jafnvel þótt ég teldi mig eiga von og þótt ég giftist strax í kvöld og eignaðist syni, 13 munduð þið þá bíða þess að þeir yrðu fullorðnir? Ættuð þið þá að loka ykkur inni og giftast ekki? Nei, dætur mínar. Mig tekur mjög sárt til ykkar en hönd Drottins hefur lagst þungt á mig.“
14 Þær brustu aftur í grát. Orpa kvaddi tengdamóður sína með kossi en Rut var kyrr hjá henni.
15 Þá sagði Naomí: „Mágkona þín er farin aftur til fólks síns og guðs síns. Snúðu við með henni.“
16 En Rut svaraði: „Reyndu ekki að telja mig á að yfirgefa þig og hverfa frá þér því að hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. 17 Þar sem þú deyrð þar dey ég og þar vil ég verða grafin. Drottinn gjaldi mér nú og framvegis ef annað en dauðinn aðskilur okkur.“
18 Er Naomí sá að hún var staðráðin í að fylgja sér hætti hún að reyna að tala um fyrir henni 19 og urðu þær samferða til Betlehem. Er þær komu þangað varð mikið uppnám í borginni vegna þeirra og konurnar spurðu: „Er þetta Naomí?“
20 En hún svaraði: „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara[ því að Hinn almáttugi hefur búið mér beiska harma. 21 Rík fór ég héðan en tómhenta hefur Drottinn sent mig heim. Hvers vegna kallið þið mig Naomí úr því að Drottinn hefur niðurlægt mig og Hinn almáttugi hrellt mig?“
22 Þannig sneri Naomí heim aftur og Rut með henni, hin móabíska tengdadóttir hennar sem kom frá Móabssléttu. Þær komu til Betlehem í byrjun bygguppskerunnar.