Hlutur niðja Manasse

1 Ættbálkur Manasse fékk með hlutkesti land í sinn hlut en Manasse var frumburður Jósefs. Makír, frumburður Manasse og faðir Gíleaðs, sem var reyndur hermaður, hlaut Gíleað og Basan. 2 Aðrir niðjar Manasse hlutu einnig erfðahluti, hver ætt fyrir sig, synir Abíesers, synir Heleks, synir Asríels, synir Sekems, synir Hefers og synir Semída. Þessir karlmenn voru niðjar Manasse Jósefssonar, hver af sinni ætt.
3 En Selofhað Hefersson, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, átti enga syni, aðeins dætur sem hétu: Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. 4 Þær gengu fyrir Eleasar prest og Jósúa Núnsson og ættarhöfðingjana og sögðu: „Drottinn lagði fyrir Móse að fá okkur erfðaland á meðal bræðra okkar.“ Jósúa fékk þeim þá erfðaland meðal föðurbræðra þeirra samkvæmt boði Drottins. 5 Þannig hlaut Manasse tíu erfðahluti með hlutkesti, auk Gíleaðs og Basans, handan Jórdanar, 6 því að dætur Manasse hlutu erfðaland meðal sona hans. Gíleað varð eign annarra sona Manasse.
7 Land Manasse náði frá Asser til Mikmetat sem er gegnt Síkem. Þaðan lágu landamærin í suður og í boga til uppsprettunnar við En Tappúa. 8 Manasse hlaut landið umhverfis Tappúa en Tappúa sjálfa, sem liggur að landi Manasse, hlutu Efraímítar. 9 Þaðan lágu landamærin niður að Kanagili en sunnan þess voru borgir í eigu Efraíms innan um borgir Manasse. Landamæri Manasse voru norðan við gilið og lágu til hafs.
10 Landið sunnan þess var eign Efraíms en landið norðan megin eign Manasse og réð hafið mörkum.
11 Í Íssakar og Asser hlaut Manasse Bet Sean og þær borgir sem heyrðu henni til og Jibleam og borgirnar sem heyrðu henni til og íbúa Dór, 12 Endór og Taanak og borgirnar sem heyrðu þeim til auk íbúa Megiddó og borgirnar sem heyrðu henni til, það er hæðirnar þrjár. En niðjum Manasse tókst ekki að leggja þessar borgir undir sig, því gátu Kanverjar búið áfram í landinu. 13 Þegar Ísraelsmenn efldust lögðu þeir kvaðavinnu á Kanverja en ekki gátu þeir hrakið þá með öllu á brott.

Mótmæli niðja Jósefs

14 Niðjar Jósefs báru sig upp við Jósúa og sögðu: „Hvers vegna fékkstu okkur aðeins einn erfðahlut og eitt landsvæði? Þó erum við fjölmenn þjóð því að Drottinn hefur blessað okkur hingað til.“
15 Jósúa svaraði: „Fyrst þið eruð svona fjölmenn þjóð og of þröngt um ykkur í fjalllendi Efraíms, farið þá upp í skóglendið og ryðjið þar land fyrir ykkur í landi Peresíta og Refaíta.“
16 Niðjar Jósefs svöruðu: „Fjalllendið nægir okkur ekki og allir Kanverjarnir, sem búa á sléttlendinu, eiga hervagna úr járni, bæði þeir sem búa í Bet Sean og borgunum sem teljast til hennar og þeir sem búa á Jesreelsléttunni.“
17 Þá svaraði Jósúa ætt Jósefs, Efraím og Manasse: „Þú ert fjölmenn þjóð og máttug. Þú skalt ekki aðeins hljóta einn erfðahlut 18 heldur skal fjalllendið einnig verða þín eign. Það er skógi vaxið og þú skalt ryðja það. Landið sem þú eignast á þennan hátt skal verða þitt. Þótt Kanverjarnir eigi hervagna úr járni og séu öflugir skaltu hrekja þá í burtu.“[