Ýmis hollráð

1Gjör ekkert illt, þá mun illt ei henda þig.
2 Forðastu ranglæti og það mun víkja fyrir þér.
3 Sáðu eigi í plógför ranglætis,
ella uppskerðu sjöfalt af slíku.
4 Bið Guð ekki um völd
né konung um tignarstöðu.
5 Þú skalt eigi réttlátur þykjast fyrir Drottni
né hygginn frammi fyrir konungi.
6 Sækstu eigi eftir dómarastöðu,
þig kann að bresta bolmagn til að uppræta illt
og kynnir að beygja þig fyrir vilja valdsmanns
og flekkur félli á hreinan skjöld þinn.
7 Vinn þér eigi til sakar hjá borgarbúum
og vertu þér ekki til skammar í mannfjölda.
8 Drýgðu ekki synd á synd ofan
því að einnar mun ei óhegnt látið.
9 Segðu ekki: „Drottinn mun meta mínar mörgu gjafir,
Hinn hæsti Guð mun veita fórn minni viðtöku.“
10 Þreystu ekki á að biðja,
set þig ekki úr færi að gera góðverk.
11 Hæð þú engan sem aðþrengdur er,
einn er sá sem bæði niðurlægir og upphefur.
12 Breið eigi út lygar um bróður þinn,
gjör ei slíkt heldur vini þínum.
13 Leyfðu þér aldrei að segja ósatt,
hneigð til þess leiðir til ills eins.
14 Forðastu mælgi á fundi öldunga
og vertu ei staglsamur í bænum þínum.
15 Hafðu ei óbeit á erfiðisvinnu
eða á að erja jörðina. Það er boð Hins hæsta.
16 Fylltu ekki flokk syndara,
minnstu þess að hegningin lætur ekki eftir sér bíða.
17 Auðmýktu þig sífellt meir
því að hegning guðlausra er eldur og ormar.

Auðsýndu öllum umhyggju

18Sel eigi góðvin fyrir gull
né sannan bróður fyrir Ófírgull.
19 Varpa ekki frá þér viturri konu og góðri,
þokki slíkrar er gulli dýrmætari.
20 Leik eigi þræl illa sem vinnur þér vel
né daglaunamann sem leggur sig fram.
21 Elska vitran þræl af öllu hjarta,
varna honum ekki frelsis.
22 Eigir þú búfé þá skaltu hirða það vel,
sé það þér til nytja þá haltu því.
23 Eigir þú börn þá skaltu uppfræða þau
og láta þau hlýða allt frá bernsku.
24 Eigir þú dætur, gæt þá dygðar þeirra
og vertu þeim eigi of eftirlátur.
25 Miklu verki er lokið er þú gefur dóttur manni
en gefðu hana hyggnum manni.
26 Eigir þú konu þér geðfellda skaltu ekki skilja við hana
en treystu eigi þeirri sem þér geðjast illa.
27 Heiðra föður þinn af öllu hjarta,
gleym ekki nauð móður þinnar er hún ól þig.
28 Minnstu þess að þú ert af þeim kominn,
hvernig máttu launa þeim allt sem þau gerðu fyrir þig?
29 Sýn Drottni lotningu af allri sálu
og sýndu prestum hans virðingu.
30 Elska skapara þinn af öllum mætti
og styddu þá sem honum þjóna.
31 Óttastu Drottin, heiðra prestinn,
veit honum hlutdeild sína svo sem þér er boðið:
frumgróða, sektarfórn, hlut af bringu,
helgunarfórn og það sem fyrst er helgað.
32 Réttu fátækum einnig hjálparhönd
og þú munt hljóta fullkomna blessun.
33 Vertu öllum sem lifa mildur á gjafir
og synja ekki heldur látnum um lið.
34 Sneiddu eigi hjá þeim sem gráta
og syrgðu með syrgjendum.
35 Vertu ekki tregur að vitja sjúkra
því að vinsældir muntu af því hljóta.
36 Minnstu banadægurs í breytni allri,
þá muntu aldrei illt fremja.