Blessun og bölvun

Krafa Drottins

1 Þið skuluð ekki gera ykkur hjáguði og hvorki reisa upp skurðgoð né merkisteina. Þið megið ekki koma fyrir neinum steinum með höggnum myndum í landi ykkar til þess að falla fram fyrir þeim. Ég er Drottinn, Guð ykkar. 2 Þið eigið að halda hvíldardaga mína og sýna helgidómi mínum lotningu. Ég er Drottinn.

Blessanir

3 Ef þið fylgið lögum mínum og haldið reglur mínar og breytið eftir þeim 4 mun ég gefa ykkur regn á réttum tíma svo að jörðin gefi af sér afurðir sínar og trén úti á völlunum beri ávöxt. 5 Þá skal þresking ná saman við vínberjatekju og vínberjatekja við sáningu. Þið munuð eta ykkur sadda af eigin brauði og búa óhultir í eigin landi.
6 Ég mun veita ykkur frið í landinu svo að þið getið lagst til hvíldar án þess að nokkur fæli ykkur á fætur. Ég mun eyða rándýrum úr landinu og sverð mun ekki herja á landið. 7 Þið munuð stökkva fjandmönnum ykkar á flótta og þeir munu falla fyrir sverði frammi fyrir ykkur. 8 Þá munu fimm ykkar reka hundrað á flótta og hundrað ykkar reka tíu þúsund á flótta og fjandmenn ykkar munu falla fyrir sverði frammi fyrir ykkur.
9 Ég mun snúa mér að ykkur, gera ykkur frjósama og fjölga ykkur. Ég mun gera sáttmála minn við ykkur. 10 Þá munuð þið neyta uppskeru frá fyrra ári, fyrningar fyrri ára og þið munuð þurfa að bera gamla kornið út til að rýma fyrir nýrri uppskeru. 11 Ég mun reisa bústað minn mitt á meðal ykkar og ekki hafa neina óbeit á ykkur. 12 Ég mun ganga um mitt á meðal ykkar, vera Guð ykkar og þið verðið þjóð mín. 13 Ég er Drottinn, Guð ykkar sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi svo að þið þyrftuð ekki að vera þrælar þeirra. Ég braut ok ykkar í sundur og lét ykkur ganga upprétta.

Bölvanir

14 Ef þið hlustið ekki á mig og breytið ekki eftir öllum þessum boðum 15 en hafnið lögum mínum og fyrirlítið reglur mínar, breytið ekki eftir boðum mínum og rjúfið sáttmála minn, 16 mun ég gera ykkur þetta:
Ég mun senda yfir ykkur skelfingu, tæringu og hitasótt sem slekkur ljós augnanna og lætur lífið fjara út. Þá munuð þið sá útsæði ykkar til einskis því að fjandmenn ykkar munu eta það. 17 Ég mun snúa augliti mínu gegn ykkur svo að þið bíðið ósigur fyrir fjandmönnum ykkar. Andstæðingar ykkar munu traðka á ykkur og þið munuð flýja þó að enginn reki flóttann.
18 Ef þið hafið enn ekki hlýtt á mig held ég áfram með því að refsa ykkur sjö sinnum fyrir syndir ykkar. 19 Ég mun brjóta niður hroka ykkar og afl og gera himininn yfir ykkur eins og járn og jörðina eins og eir. 20 Þið munuð erfiða til ónýtis því að land ykkar mun ekki gefa af sér afurðir og trén í landinu munu ekki bera ávöxt.
21 Ef þið fjandskapist og hlýðið ekki á mig hegni ég ykkur sjöfalt eins og syndir ykkar gefa tilefni til. 22 Þá sendi ég gegn ykkur óargadýr sem munu gera ykkur barnlaus, tortíma búfénaði ykkar og fækka ykkur sjálfum verulega svo að vegir ykkar verða auðir.
23 Ef þið látið ekki skipast við þessar áminningar en fjandskapist við mig 24 mun ég fjandskapast við ykkur og þá mun ég einnig hegna ykkur sjöfalt fyrir syndir ykkar. 25 Þá mun ég senda gegn ykkur sverð sem mun hefna fyrir sáttmálsrofið. Ef þið þá hörfið inn í borgir ykkar mun ég senda drepsótt gegn ykkur og þið verðið seldir fjandmönnum ykkar í hendur. 26 Þegar ég svipti ykkur öllum matarforða ykkar munu tíu konur baka brauð handa ykkur í einum ofni og fá ykkur brauð ykkar eftir vigt og þið munuð eta en ekki verða saddir.
27 Ef þið hlýðið ekki á mig þrátt fyrir þetta en fjandskapist við mig 28 mun ég fjandskapast við ykkur og hegna ykkur sjöfalt fyrir syndir ykkar. 29 Þá munuð þið eta hold sona ykkar og dætra. 30 Ég mun eyða fórnarhæðum ykkar og brjóta reykelsisölturu ykkar. Ég mun fleygja líkum ykkar ofan á lífvana skurðgoð ykkar og mér mun bjóða við ykkur. 31 Ég mun leggja borgir ykkar í rúst og eyða helgidómum ykkar og ég mun ekki anda að mér þekkum ilmi fórna ykkar. 32 Ég mun sjálfur gera land ykkar að eyðimörk, fjandmenn ykkar, sem setjast þar að, mun hrylla við því. 33 En ykkur mun ég dreifa á meðal framandi þjóða og hrekja ykkur burt með brugðnum brandi. Land ykkar verður auðn og borgirnar rústir. 34 Landið mun fá hvíldarár sín endurgoldin allan þann tíma sem það er í eyði. Á meðan þið eruð í landi fjandmanna ykkar hvílist landið og fær hvíldarár sín endurgoldin. 35 Það mun hvílast allan þann tíma sem það er í eyði því að það naut engrar hvíldar þegar þið hélduð hvíldardaga ykkar meðan þið bjugguð í því.
36 Þá sem eftir eru í löndum fjandmanna ykkar mun ég gera kjarklausa. Jafnvel skrjáfið í visnuðu laufi mun reka þá á flótta og þeir munu flýja eins og þeir sem flýja undan sverði þó að enginn reki flóttann. 37 Þeir munu hnjóta hver um annan eins og þeir flýðu undan sverði þó að enginn elti þá. Þið munuð ekki fá staðist fyrir fjandmönnum ykkar. 38 Þið munuð farast á meðal framandi þjóða, land fjandmanna ykkar mun gleypa ykkur.

Fyrirheit

39 Þeir ykkar sem þá eru eftir munu veslast upp í löndum fjandmanna ykkar vegna synda ykkar og synda feðra ykkar sem munu veslast upp ásamt ykkur. 40 Þá munu þeir játa syndir sínar og feðra sinna sem þeir drýgðu með því að svíkja mig. Þeir snerust meira að segja gegn mér 41 svo að ég snerist gegn þeim og sendi þá til lands fjandmanna þeirra. Þá verður óumskorið hjarta þeirra auðmýkt og þeir bæta fyrir syndir sínar.
42 Þá mun ég minnast sáttmála míns við Jakob, einnig sáttmála míns við Ísak og sáttmála míns við Abraham. Og ég mun minnast landsins. 43 Landið mun losna við íbúa sína og njóta hvíldarára sinna á meðan það er laust við þá. En þeir verða að bæta að fullu fyrir brot sitt því að þeir höfnuðu réttarreglum mínum og þeim bauð við lögum mínum.
44 En ég mun ekki hafna þeim, jafnvel ekki á meðan þeir dveljast í landi fjandmanna sinna. Ég mun ekki hafa óbeit á þeim svo að ég geri út af við þá og rjúfi sáttmála minn við þá því að ég er Drottinn, Guð þeirra. 45 Þeim til heilla mun ég minnast sáttmálans við forfeður þeirra sem ég leiddi út úr Egyptalandi fyrir augum þjóðanna til þess að verða Guð þeirra. Ég er Drottinn.“
46 Þetta eru þau lög, reglur og fyrirmæli sem Drottinn setti milli sín og Ísraelsmanna fyrir munn Móse á Sínaífjalli.