1 Á fyrsta degi sjöunda mánaðarins skuluð þið halda helga samkomu og þá megið þið ekki vinna nein störf. Þann dag skulu hornin þeytt. 2 Þið skuluð færa brennifórn, þekkan ilm handa Drottni, eitt naut, einn hrút og sjö veturgömul, lýtalaus lömb, 3 ásamt fínu mjöli, blönduðu olíu, og í kornfórn með þeim þrjá tíundu hluta úr efu með hverju nauti, tvo tíundu með hverjum hrút 4 og einn tíunda með hverju lambanna sjö, 5 enn fremur einn geithafur í syndafórn til að friðþægja fyrir ykkur. 6 Þetta er eldfórn, þekkur ilmur handa Drottni auk brennifórnar við nýtt tungl með kornfórn sem henni heyrir til og hinnar daglegu brennifórnar með kornfórn sem henni heyrir til og þeim dreypifórnum sem þeim heyra til, samkvæmt reglunum um þær.
7 Á tíunda degi þessa sama sjöunda mánaðar skuluð þið halda helga samkomu. Þá skuluð þið aga líkama ykkar og ekkert starfa. [ 8 Þið skuluð færa Drottni brennifórn, þekkan ilm, eitt naut, einn hrút og sjö veturgömul lömb. Fórnardýrin skulu vera lýtalaus. 9 Þið skuluð færa fínt mjöl, blandað olíu, í þá kornfórn sem heyrir til, þrjá tíundu hluta úr efu með hverju nauti, tvo tíundu með hverjum hrút 10 og einn tíunda með hverju hinna sjö lamba, 11 enn fremur einn geithafur í syndafórn auk syndafórnar til friðþægingar og hinnar reglulegu brennifórnar ásamt þeirri kornfórn sem heyrir til.
12 Á fimmtánda degi sjöunda mánaðar skuluð þið halda helga samkomu. Þann dag skuluð þið ekki vinna nein dagleg störf. Þið skuluð halda Drottni hátíð í sjö daga. 13 Þið skuluð færa í brennifórn, í eldfórn til þægilegs ilms handa Drottni, þrettán naut, tvo hrúta og fjórtán veturgömul lömb. Fórnardýrin skulu vera lýtalaus. 14 Í kornfórn, sem heyrir til, skal færa fínt mjöl, blandað olíu, þrjá tíundu úr efu með hverju nauti, tvo tíundu með hverjum hrút 15 og einn tíunda með hverju hinna fjórtán lamba, 16 enn fremur geithafur í syndafórn. Þetta skal færa í fórn auk hinnar reglulegu brennifórnar með þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir til.
17 Annan daginn skal færa í fórn tólf naut, tvo hrúta og fjórtán veturgömul lömb, lýtalaus dýr, 18 einnig þær kornfórnir og dreypifórnir sem heyra til eftir fjölda nautanna, hrútanna og lambanna samkvæmt reglunum, 19 enn fremur einn geithafur í syndafórn. Þetta skal færa í fórn auk hinnar reglulegu brennifórnar með þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir henni til.
20 Þriðja daginn skal færa í fórn ellefu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgömul lömb, lýtalaus dýr, 21 einnig þær kornfórnir og dreypifórnir sem heyra til eftir fjölda nautanna, hrútanna og lambanna samkvæmt reglunum, 22 enn fremur einn geithafur í syndafórn. Þetta skal færa í fórn auk hinnar reglulegu brennifórnar með þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir henni til.
23 Fjórða daginn skal færa í fórn tíu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgömul lömb, lýtalaus dýr, 24 einnig þær kornfórnir og dreypifórnir sem heyra til eftir fjölda nautanna, hrútanna og lambanna samkvæmt reglunum, 25 enn fremur einn geithafur í syndafórn. Þetta skal færa í fórn auk hinnar reglulegu brennifórnar með þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir henni til.
26 Fimmta daginn skal færa í fórn níu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgömul lömb, lýtalaus dýr, 27 einnig þær kornfórnir og dreypifórnir sem heyra til eftir fjölda nautanna, hrútanna og lambanna samkvæmt reglunum, 28 enn fremur einn geithafur í syndafórn. Þetta skal færa í fórn auk hinnar reglulegu brennifórnar með þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir henni til.
29 Sjötta daginn skal færa í fórn átta naut, tvo hrúta og fjórtán veturgömul lömb, lýtalaus dýr, 30 einnig þær kornfórnir og dreypifórnir sem heyra til eftir fjölda nautanna, hrútanna og lambanna samkvæmt reglunum, 31 enn fremur einn geithafur í syndafórn. Þetta skal færa í fórn auk hinnar reglulegu brennifórnar með þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir henni til.
32 Sjöunda daginn skal færa í fórn sjö naut, tvo hrúta og fjórtán veturgömul lömb, lýtalaus dýr, 33 einnig þær kornfórnir og dreypifórnir sem heyra til eftir fjölda nautanna, hrútanna og lambanna samkvæmt reglunum, 34 enn fremur einn geithafur í syndafórn. Þetta skal færa í fórn auk hinnar reglulegu brennifórnar með þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir henni til.
35 Áttunda daginn skuluð þið halda hátíðarsamkomu. Þá skuluð þið ekki vinna dagleg störf. 36 Þið skuluð færa í brennifórn, í eldfórn til þekks ilms handa Drottni, eitt naut, einn hrút og sjö veturgömul lömb, lýtalaus dýr, 37 einnig þær kornfórnir og dreypifórnir sem heyra til eftir fjölda nautanna, hrútanna og lambanna samkvæmt reglunum, 38 enn fremur einn geithafur í syndafórn. Þetta skal færa í fórn auk hinnar reglulegu brennifórnar með þeirri kornfórn og dreypifórn sem heyrir henni til.
39 Þessu skuluð þið fórna Drottni á hátíðum ykkar auk heitgjafa ykkar og sjálfviljafórna, hvort sem það eru brennifórnir, kornfórnir, dreypifórnir eða heillafórnir.“