Sýnir Daníels

Fyrsta sýn: Dýrin fjögur

1 Á fyrsta stjórnarári Belsassars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum í rekkju sinni og sá sýnir. Hann skráði síðan drauminn og í upphafi frásagnarinnar 2 greinir Daníel svo frá:
Í nætursýn minni sá ég hvernig himinvindarnir fjórir ýfðu hafið mikla. 3 Og fjögur stór dýr komu upp úr hafinu, hvert öðru ólíkt. 4 Fyrsta dýrið var eins og ljón en hafði arnarvængi. Meðan ég horfði á það tættust vængir þess af því, því var lyft upp og það reist á fætur eins og maður væri og því var fengið mannshjarta.
5 Og annað dýr sá ég og annars háttar. Það var eins og bjarndýr, reis upp á aðra hlið og bar þrjú rifbein í kjafti sér milli tannanna.[ Og því var skipað: „Stattu upp og éttu firn af kjöti.“
6 Eftir þetta sá ég enn eitt dýr, áþekkt hlébarða, en á síðum þess voru fjórir fuglsvængir. Þetta dýr hafði fjögur höfuð og því voru fengin völd.
7 Og enn sá ég í nætursýn minni fjórða dýrið, hræðilegt, ógnvekjandi og afar máttugt. Það hafði járntennur, hámaði í sig og bruddi og traðkaði undir fótum það sem það leifði. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og var með tíu horn.
8 Þegar ég virti fyrir mér hornin sá ég annað horn og smærra spretta fram meðal þeirra og voru þrjú af fyrri hornunum rifin upp til að rýma fyrir því. Á þessu horni voru augu, lík mannsaugum, og munnur sem mælti gífuryrði.
9Meðan ég horfði á
var hásætum komið fyrir
og Hinn aldni tók sér sæti.
Klæði hans voru mjallahvít
og höfuðhár hans sem hrein ull.
Hásæti hans var eldslogi
og hjólin undir því logandi bál.
10Eldur streymdi frá honum,
þúsundir þúsunda þjónuðu honum,
tugþúsundir tugþúsunda stóðu frammi fyrir honum.
Réttur var settur
og bókum flett upp.

11 Enn horfði ég á vegna gífuryrðanna háværu sem hornið mælti og var dýrið drepið að mér ásjáandi, líkama þess eytt og því varpað á eld.
12 Hin dýrin voru einnig svipt valdi sínu en lífi þeirra var enn þyrmt til ákveðins tíma og stundar.
13Ég horfði á í nætursýnum
og sá þá einhvern koma á skýjum himins,
áþekkan mannssyni.
Hann kom til Hins aldna
og var leiddur fyrir hann.
14Honum var falið valdið,
tignin og konungdæmið
og allir menn, þjóðir og tungur
skyldu lúta honum.
Veldi hans er eilíft
og líður aldrei undir lok,
á konungdæmi hans verður enginn endir.

Túlkun sýnarinnar

15 Mér, Daníel, var mjög brugðið við þetta og stóð ógn af sýnunum sem fyrir mig bar. 16 Ég gekk þá til eins þeirra sem þarna stóðu og spurði hvað allt þetta merkti í raun. Hann svaraði og útskýrði þessa hluti þannig fyrir mér:
17 „Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja fjögur konungdæmi sem koma munu fram á jörðinni 18 en síðan munu hinir heilögu Hins æðsta hljóta konungsvaldið og halda konungdæminu að eilífu og um aldir alda.“
19 Síðan óskaði ég gleggri vitneskju um fjórða dýrið sem ólíkt var hinum dýrunum, ógnþrungið með járntennur og eirklær og át og bruddi og traðkaði undir fótum það sem það leifði, 20 og eins um hornin tíu á höfði þess; um nýja hornið sem spratt fram og hin þrjú sem féllu af til að rýma fyrir því, hornið sem hafði augu og munn, mælti gífuryrði og var meira ásýndum en hin. 21 Ég sá hvernig þetta horn háði stríð við hina heilögu og hafði betur 22 uns Hinn aldni kom og dómur féll í hag hinum heilögu Hins æðsta og sá tími kom að hinir heilögu hlutu konungdæmið.
23 Þessu svaraði hann: „Fjórða dýrið merkir að fjórða konungsríkið mun koma fram á jörðinni og mun það verða ólíkt öllum fyrri konungsríkjunum. Það mun svelgja í sig öll lönd, traðka á þeim og troða þau sundur. 24 Hornin tíu merkja að í þessu ríki munu koma fram tíu konungar en annar konungur mun hefjast til valda eftir þá. Hann verður ólíkur hinum fyrri og mun steypa þremur konungum úr sessi. 25 Hann mun snúa orðum sínum gegn Hinum æðsta, kúga hina heilögu Hins æðsta, ráðgera að breyta helgitíðum og lögum og þeir verða seldir í hendur honum um eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð.[ 26 En réttur verður settur og frá honum tekin völdin, afmáð og að engu gerð. 27 En konungsveldi, vald og tign allra konungsríkja undir himninum verður fengið hinum heilögu Hins æðsta. Konungdæmi þeirra verður eilíft konungdæmi og því munu öll ríki þjóna og hlýða.“
28 Hér lýkur frásögninni. Mér, Daníel, varð afar órótt í huga og ég brá litum, en varðveitti þetta í hjarta mínu.