Ýmsar fórnir

1 Syndgi einhver með því að heyra formælingu og geti borið vitni um það, hvort sem hann hefur séð eitthvað eða heyrt um það, en segir ekki frá því, bakar hann sér sekt.
2 Snerti einhver eitthvað óhreint, hvort heldur það er hræ af óhreinu villidýri, hræ af óhreinum fénaði eða hræ af óhreinu skriðdýri og hann veit ekki af því, verður hann óhreinn og hann verður sekur.
3 Snerti einhver óhreinan mann, hver svo sem óhreinleikinn kann að vera, og hann veit ekki af því en kemst að því síðar, þá verður hann óhreinn og hann verður sekur.
4 Vinni einhver eið að því að gera eitthvað, gott eða illt, án þess að hugur fylgi máli, hvað svo sem maður kann að sverja í hugsunarleysi og veit ekki af því en kemst að því síðar, verður hann sekur.
5 Verði einhver sekur í slíku tilviki skal hann játa með hvaða hætti hann hefur syndgað. 6 Hann skal færa Drottni sektarfórn fyrir þá synd sem hann hefur drýgt. Skal það vera kvendýr úr fjárhjörðinni, annaðhvort ær eða geit, í syndafórn.
Þannig friðþægir presturinn fyrir syndir hans.
7 Hafi hann ekki efni á að kaupa kind skal hann færa Drottni tvær turtildúfur eða tvær dúfur í sektarfórn fyrir þá synd sem hann hefur drýgt, aðra í syndafórn, hina í brennifórn, 8 og færa þær prestinum.
Hann skal fyrst bera fram þá sem ætluð er í syndafórn. Hann skal snúa af höfuðið þétt við hálsbeinið án þess að skilja það frá. 9 Því næst skal hann dreypa nokkru af blóði syndafórnardýrsins á hlið altarisins en það sem eftir er af blóðinu skal hann kreista á fótstall altarisins.
Þetta er syndafórn.
10 Hina dúfuna skal hann færa í brennifórn eftir reglunum.
Þannig friðþægir presturinn fyrir hann vegna syndarinnar sem hann drýgði og honum verður fyrirgefið.
11 Eigi hann ekki fyrir tveimur turtildúfum eða tveimur öðrum dúfum skal hann færa tíunda hluta úr efu af fínu mjöli í syndafórn fyrir synd sína. Hvorki má hella yfir það olíu né leggja á það reykelsi af því að þetta er syndafórn. 12 Hann skal færa það prestinum. Presturinn skal taka handfylli af því sem minningarhluta og láta líða upp í reyk af altarinu ofan á eldfórnum Drottins.
Þetta er syndafórn.
13 Þannig friðþægir presturinn fyrir syndina sem hann hefur drýgt í einhverju fyrrnefndra tilvika og honum verður fyrirgefið.
Afganginn fær presturinn eins og þegar kornfórn er færð.“

Sektarfórn

14 Drottinn talaði við Móse og sagði:
15 „Bregðist einhver trúnaði og syndgi af vangá við meðferð á helgigjöfum Drottins skal hann færa Drottni sektarfórn sína. Þá skal hann færa Drottni í sektarfórn lýtalausan hrút úr hjörðinni, nokkurra silfursikla virði, miðað við sikil helgidómsins. 16 Hann skal bæta að fullu þann skaða sem hann hefur valdið á helgigjöfunum með synd sinni, bæta fimmtungi við og færa það prestinum.
Presturinn skal þá friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum og honum verður fyrirgefið.
17 Syndgi einhver og fremji eitthvað, sem Drottinn hefur bannað í einhverju boða sinna, án þess að hann geri sér það ljóst, verður hann sekur og bakar sér sekt. 18 Hann skal færa prestinum lýtalausan hrút úr hjörðinni sem er metinn eins og sektarfórnardýr.
Presturinn friðþægir fyrir hann vegna þess sem honum varð á af vangá án þess að gera sér það ljóst og honum verður fyrirgefið.
19 Þetta er sektarfórn, hann hefur sannarlega orðið sekur við Drottin.“
20 Drottinn talaði við Móse og sagði:
21 „Syndgi einhver og bregðist Drottni með því að svíkja landa sinn um eitthvað sem honum hefur verið trúað fyrir eða lánað eða hann hefur stolið eða hann hefur okrað á landa sínum 22 eða hann hefur fundið eitthvað sem var týnt og þrætir fyrir það eða hann hefur svarið meinsæri vegna einhverrar syndar sem menn gætu drýgt, 23 verður hann sekur syndgi hann á þennan hátt.
Honum ber þá að skila þýfinu eða hagnaðinum af okrinu eða því sem honum var trúað fyrir eða því sem var týnt og hann hefur fundið 24 eða bæta að fullu þann skaða sem hann hefur valdið með meinsæri. Í hverju tilviki skal hann bæta eigandanum að fullu og fimmtung að auki, daginn sem hann færir sektarfórn sína.
25 Því næst skal hann færa Drottni sektarfórn sína: Hann skal taka lýtalausan hrút úr hjörðinni, sem talinn er gildur sem sektarfórn, og færa hann prestinum. 26 Þannig friðþægir presturinn fyrir hann frammi fyrir augliti Drottins og honum verður fyrirgefið allt það sem hann hefur orðið sekur um.“