Varað við að gleyma Guði

1 Öll þau fyrirmæli sem ég set þér í dag skuluð þið halda svo að þið megið lifa og ykkur fjölgi og þið komist inn í og sláið eign ykkar á landið sem Drottinn hét feðrum ykkar. 2 Hafðu hugfast hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni. Hann gerði það til að beygja þig og reyna þig, til þess að komast að raun um hvað þú hafðir í huga, hvort þú hygðist halda boðorð hans. 3 Hann auðmýkti þig með hungri en gaf þér síðan manna að eta sem hvorki þú né forfeður þínir þekktu. Hann vildi gera þér ljóst að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði heldur hverju því sem fram gengur af munni Drottins.
4 Hvorki slitnuðu klæði þín utan af þér né heldur þrútnuðu fætur þínir þessi fjörutíu ár. 5 Af því geturðu lært að Drottinn, Guð þinn, elur þig upp eins og maður elur upp son sinn. 6 Haltu því ákvæði Drottins, Guðs þíns, gakktu á hans vegum og óttastu hann.
7 Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, 8 inn í land þar sem nóg er af hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám, inn í land með olíuviði og hunangi, 9 inn í land þar sem þú þarft ekki að neyta matar í fátækt og þar sem þig mun ekkert skorta og þar sem steinarnir eru járn og þú getur brotið eir úr fjöllunum.
10 Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. 11 Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans, ákvæðum og lögum sem ég set þér í dag.
12 Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur og hefur reist glæsileg hús og hefur komið þér fyrir 13 og þegar nautpeningi þínum og sauðfé fjölgar og þér græðist gull og silfur og allar eigur þínar margfaldast, 14 gæt þess þá að fyllast ekki ofmetnaði og gleyma Drottni, Guði þínum, sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 15 Hann leiddi þig yfir hina miklu og ógnvekjandi eyðimörk þar sem eitursnákar og sporðdrekar voru, gegnum skrælnað land þar sem ekki fannst vatnsdropi en handa þér lét hann vatn streyma úr tinnuhörðum kletti. 16 Í eyðimörkinni gaf hann þér manna að eta sem feður ykkar þekktu ekki svo að hann gæti auðmýkt þig og reynt þig og síðan gert vel við þig.
17 Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ 18 Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag.
19 En ef þú gleymir Drottni, Guði þínum, fylgir öðrum guðum, þjónar þeim og tilbiður, þá votta ég í dag að ykkur mun gereytt 20 eins og þjóðunum sem Drottinn eyddi fyrir ykkur. Þannig verður ykkur eytt vegna þess að þið hlýdduð ekki rödd Drottins, Guðs ykkar.