Hiskía leitar til Jesaja spámanns

1 Þegar Hiskía konungur heyrði þetta reif hann klæði sín, klæddist hærusekk og gekk í musteri Drottins. 2 Síðan sendi hann Eljakím hirðstjóra, Sebna ríkisritara og öldunga prestanna klædda hærusekkjum til Jesaja Amotssonar spámanns 3 og skyldu þeir segja við hann: „Svo segir Hiskía: Í dag er dagur neyðar, hirtingar og háðungar. Barnið er komið í burðarliðinn en krafturinn enginn til að fæða. 4 Ef til vill hefur Drottinn, Guð þinn, heyrt öll orð konungsfulltrúans sem Assýríukonungur, húsbóndi hans, lét hann segja til að smána hinn lifandi Guð. Ef til vill mun Drottinn, Guð þinn, senda refsingu fyrir það sem hann heyrði. En bið þú fyrir þeim sem af komast.“
5 Þjónar Hiskía konungs komu nú til Jesaja 6 og hann sagði við þá: „Segið húsbónda ykkar: Svo segir Drottinn: Þú skalt ekki óttast smánaryrðin sem þjónar Assýríukonungs svívirtu mig með. 7 Ég mun senda í hann anda og hann mun heyra orðróm nokkurn og snúa aftur til lands síns. Síðan læt ég hann falla fyrir sverði í sínu eigin landi.“
8 Marskálkurinn sneri aftur er hann frétti að Assýríukonungur væri farinn frá Lakís og fann hann þar sem hann herjaði á Líbna. 9 Er Assýríukonungur frétti að Tírhaka, konungur Kúss, væri lagður af stað í hernað gegn honum gerði hann menn á fund Hiskía með þessi boð: 10 „Svo skuluð þið segja við Hiskía Júdakonung: Láttu ekki þennan guð þinn, sem þú treystir á, blekkja þig svo að þú haldir að Jerúsalem verði ekki látin í hendur Assýríukonungi. 11 Þú hlýtur að hafa heyrt hvernig Assýríukonungar hafa farið með öll önnur lönd. Þeir hafa gereytt þau. Heldur þú að þú bjargist? 12 Björguðu guðirnir þjóðunum sem forfeður mínir gereyddu? Björguðu þeir Gósan og Haran, Resef og Edensmönnum sem bjuggu í Telassar? 13 Hvar er konungur Hamats, hvar er konungur Arpads eða konungarnir í Laír, Sefarvaím, Hena og Íva?“

Bæn Hiskía

14 Hiskía tók við bréfinu af sendiboðunum, las það, gekk í musteri Drottins og breiddi úr því frammi fyrir augliti Drottins. 15 Síðan flutti Hiskía bæn fyrir augliti Drottins og sagði:
„Drottinn, Guð Ísraels, þú sem situr í hásæti yfir kerúbunum, þú einn ert Guð allra konungsríkja veraldar. Það ert þú sem hefur gert himin og jörð. 16 Leggðu við eyru og heyr. Ljúktu upp augum, Drottinn, og líttu á. Hlýddu á skilaboð Sanheríbs sem hann sendi til þess að smána hinn lifandi Guð. 17 Satt er það, Drottinn, að konungar Assýríu hafa eytt þjóðum og löndum þeirra 18 og varpað guðum þeirra á eld. En þeir voru engir guðir heldur verk manna úr tré og steini. Þess vegna gátu þeir eytt þeim. 19 Drottinn, Guð okkar, bjargaðu okkur nú úr greipum hans svo að öll konungsríki veraldar komist að raun um að þú, Drottinn, þú einn ert Guð.“

Háðkvæði um Assýríukonung

20 Jesaja Amotsson sendi þessi boð til Hiskía: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Þú hefur beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi og ég hef bænheyrt þig. 21 Þetta er orðið sem Drottinn hefur talað gegn honum:
Hún fyrirlítur þig, hún hæðist að þér,
mærin, dóttirin Síon.
Hún hristir höfuðið yfir þér,
dóttirin Jerúsalem.
22 Hvern hefur þú smánað og hvern spottað?
Gegn hverjum hefur þú brýnt raustina,
gegn hverjum hvesst augun?
Gegn Hinum heilaga í Ísrael!
23 Þú hæddir Drottin af munni sendiboða þinna
og sagðir: „Ég hef farið upp á hæstu fjöllin,
á efsta tind Líbanons
með fjölmarga stríðsvagna.
Ég hef höggvið hæstu sedrustrén
og voldugustu kýprustrén.
Ég hef komið inn í innstu fylgsnin
í þéttasta þykkninu.
24 Ég hef grafið brunna
og drukkið útlent vatn.
Ég hef þurrkað upp allar ár Egyptalands
undir iljum fóta minna.“
25 Hefur þú ekki heyrt?
Fyrir löngu kom ég þessu til leiðar,
frá öndverðu ráðgerði ég þetta.
Nú hef ég látið það verða:
Þú gerðir víggirtar borgir
að rústum og grjóthrúgum
26 svo að íbúum þeirra féllust hendur
og þeir voru niðurlægðir og auðmýktir.
Þeir voru eins og reyr á engi,
eins og nýsprottið grængresið.
Þeir voru líkir grasi á þaki
sem sviðnaði í glóðheitum austanvindinum.
27 Hvort sem þú situr kyrr,
gengur út eða inn,
þá veit ég það.
28 Þar sem þú hefur hamast gegn mér
og öskur þitt hefur borist mér til eyrna
set ég hring í nasir þér og beisli í munn þér:
Ég mun teyma þig aftur
sama veg og þú komst.

Fyrirheit um björgun Jerúsalem

29 Þetta skal vera þér [ tákn:
Á þessu ári skuluð þér
nærast á sjálfsánu korni,
næsta ár á villtu korni
en þriðja árið skuluð þér sá og uppskera,
planta víngarða
og neyta ávaxta þeirra.
30 Þeir sem skildir verða eftir af Júdaættkvísl
og komast af
munu aftur skjóta rótum í jörðu
og bera ávöxt hið efra.
31 Frá Jerúsalem koma þeir sem eftir verða
og frá Síonarfjalli þeir sem frelsast.
Brennandi ákafi Drottins mun koma þessu til leiðar.
32 Þess vegna segir Drottinn um Assýríukonung:
Hann kemur ekki inn í þessa borg,
skýtur ekki einni ör þangað.
Hann ber hvorki skjöld gegn henni
né hleður að henni virkisvegg.
33 Hann mun snúa aftur sama veg og hann kom,
inn í þessa borg kemur hann ekki, segir Drottinn.
34 Ég vil vernda þessa borg og frelsa hana,
vegna sjálfs mín og vegna Davíðs, þjóns míns.

Jerúsalem bjargað

35 Þessa sömu nótt fór engill Drottins út og deyddi hundrað áttatíu og fimm þúsund menn í herbúðum Assýringa. Um fótaferð morguninn eftir voru þeir allir liðin lík. 36 Sanheríb Assýríukonungur lagði þá af stað, sneri aftur til Níníve og hélt þar kyrru fyrir. 37 En svo bar við einhverju sinni þegar hann baðst fyrir í húsi Nísroks, guðs síns, að Adrammelek og Sareser, synir hans, hjuggu hann til bana með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands. Asarhaddon, sonur Sanheríbs, varð konungur eftir hann.