Gegn Móab

1 Boðskapur um Móab:
Um nótt var ráðist á Ar í Móab,
henni var eytt.
Um nótt var ráðist á Kír í Móab,
henni var eytt.
2Dóttirin Díbon fór upp á fórnarhæðirnar
til að syrgja,
Móab kveinar á Nebó og Medeba,
hver hvirfill er rakaður,
hvert skegg skorið af.
3Á strætunum gyrðast menn hærusekk,
á húsþökum og torgum kveina þeir allir,
fljótandi í tárum.
4Íbúar Hesbon og Eleale hljóða
svo að óp þeirra heyrist allt til Jahas.
Þess vegna kveina vígbúnir menn í Móab,
kjarkur þeirra er brostinn.
5Hjarta mitt kveinar yfir Móab,
flóttamenn þaðan eru komnir til Sóar og Eglat Selisía.
Grátandi ganga þeir upp stíginn við Lúkít,
á leiðinni til Hórónaím
kveina þeir af harmi yfir eyðingunni.
6Vötnin við Nimrím verða eyðimörk,
grasið skrælnar, jurtirnar sölna,
öll gróska hverfur.
7Því báru þeir yfir Pílviðará
það sem þeir öfluðu sér
og forðann sem þeir höfðu geymt.
8Ópið barst um allt Móabsland
og kvein þeirra allt til Eglaím
og harmakveinin til Beer Elím
9því að vatnsföllin við Dímon eru full af blóði.
En þó legg ég enn meira á Dímon.
Ég sendi ljón gegn þeim sem sluppu frá Móab
og þeim sem eftir urðu í landinu.