Landið unnið

Jósúa, eftirmaður Móse

1 Eftir dauða Móse, þjóns Drottins, ávarpaði Drottinn Jósúa Núnsson, þjón Móse, og sagði: 2 „Móse, þjónn minn, er dáinn. Leggðu nú af stað yfir Jórdan, þú og allt þetta fólk, og inn í landið sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum. 3 Ég gef ykkur hér með hvern þann blett sem þið stígið fæti á eins og ég hét Móse. 4 Land ykkar skal ná frá eyðimörkinni og Líbanon, að fljótinu mikla, Efrat, það er allt land Hetíta. Það skal ná allt að hinu mikla hafi þar sem sólin sest. 5 Enginn mun geta veitt þér viðnám svo lengi sem þú lifir. Ég mun vera með þér eins og ég var með Móse. Ég mun hvorki bregðast þér né yfirgefa þig. 6 Vertu djarfur og hughraustur. Þú átt sjálfur að skipta landinu í erfðahluti með þessari þjóð, landinu sem ég sór feðrum þeirra að gefa þeim. 7 Vertu aðeins djarfur og hughraustur. Gættu þess að framfylgja nákvæmlega lögunum sem Móse, þjónn minn, setti ykkur. Víktu hvorki til hægri né vinstri frá þeim svo að þér vegni vel hvert sem þú ferð. 8 Þessi lögbók skal ekki víkja úr munni þínum. Þú skalt hugleiða efni hennar dag og nótt svo að þú getir gætt þess að fylgja nákvæmlega því sem þar er skráð, til þess að ná settu marki og þér farnist vel. 9 Hef ég ekki boðið þér að vera djarfur og hughraustur? Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð.“
10 Þá gaf Jósúa eftirlitsmönnum fólksins þessi fyrirmæli: 11 „Farið um herbúðirnar og skipið fólkinu: Takið ykkur vistir því að þremur dögum liðnum skuluð þið fara yfir ána Jórdan svo að þið komist inn í og fáið til eignar landið sem Drottinn Guð ykkar gefur ykkur.“
12 En við ættbálk Rúbens, Gaðs og hálfan ættbálk Manasse sagði Jósúa: 13 „Minnist nú þess sem Móse, þjónn Drottins, bauð ykkur: Drottinn, Guð ykkar, veitir ykkur hvíld og gefur ykkur þetta land. 14 Konur ykkar, börn og fénaður á að vera eftir í landinu sem Móse fékk ykkur austan við Jórdan. En þið sem vopnfærir eruð eigið að fara hertygjaðir fyrir bræðrum ykkar yfir fljótið og veita þeim fulltingi 15 þar til Drottinn hefur veitt bræðrum ykkar hvíld eins og ykkur og þeir hafa tekið landið til eignar sem Drottinn, Guð ykkar, fær þeim. Þá getið þið snúið aftur og tekið til eignar ykkar eigið land sem Móse, þjónn Drottins, fékk ykkur handan við Jórdan þar sem sólin kemur upp.“
16 Þeir svöruðu Jósúa og sögðu: „Við munum framfylgja öllu sem þú hefur lagt fyrir okkur og hvert sem þú sendir okkur munum við fara. 17 Eins og við hlýddum Móse í einu og öllu munum við hlýða þér. Veri Drottinn, Guð þinn, með þér eins og hann var með Móse. 18 Hver sem rís gegn þínum boðum og hlýðir ekki orðum þínum í einu og öllu skal deyja. Vertu aðeins hraustur og djarfur.“