1 Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.
2Heyr orð mín, Drottinn,
gef gaum að andvörpum mínum.
3Heyr þú hróp mitt,
konungur minn og Guð minn,
því að til þín bið ég.
4Á morgnana heyrir þú ákall mitt, Drottinn,
á morgnana færi ég þér fórn mína og bíð þín.
5Þú ert ekki guð sem gleðst yfir ranglæti,
því geta vondir menn ekki leitað skjóls hjá þér.
6Dramblátir standast ekki fyrir augum þínum,
illvirkja hatar þú.
7Þú tortímir lygurum.
Drottinn hefur andstyggð á blóðþyrstum og svikurum.
8En ég fæ að ganga í hús þitt
fyrir mikla miskunn þína,
fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri
í ótta frammi fyrir þér.
9Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu
sakir óvina minna,
ger sléttan veg þinn fyrir mér.
10Sannleikur er ekki í munni þeirra,
hugur þeirra er spilltur,
kok þeirra opin gröf,
með tungunni hræsna þeir.
11Guð, dæm þá seka
og lát þá falla á eigin bragði.
Hrek þá burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra
því að þeir hafa risið gegn þér.
12Allir, sem leita hælis hjá þér, munu gleðjast,
þeir fagna um aldur.
Þú skýlir þeim
og þeir sem elska nafn þitt fagna yfir þér
13því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta,
hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.