Um guðsþjónustu og bænagjörð

1 Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. 2 Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. 3 Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, 4 sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.
5 Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús 6 sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma. 7 Guð skipaði mig prédikara og postula til að boða hann – ég tala sannleika, lýg ekki – kennara heiðingja í trú og sannleika.
8 Ég vil að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir með upplyftum heilögum höndum[ án reiði og tvídrægni. 9 Sömuleiðis vil ég að konur séu látlausar í klæðaburði, ekki með fléttur og gull eða perlur og skartklæði 10 heldur skrýðist góðum verkum eins og sómir konum er segjast vilja dýrka Guð.
11 Kona á að læra í kyrrþey í allri auðmýkt. 12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum heldur á hún að vera kyrrlát. 13 Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. 14 Adam lét ekki tælast heldur lét konan tælast og gerðist brotleg. 15 En hún fæðir börnin og verður því hólpin ef hún er staðföst[ í trú, kærleika og helgun samfara hóglæti.