Um sængurkonur

1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Þegar kona er þunguð og fæðir sveinbarn er hún óhrein í sjö daga á sama hátt og hún er óhrein þá daga sem hún hefur tíðir. 3 Á áttunda degi skal yfirhúð drengsins umskorin.
4 Konan skal halda kyrru fyrir í þrjátíu og þrjá daga meðan á blóðhreinsuninni stendur. Hún má hvorki snerta neitt heilagt né koma inn í helgidóminn fyrr en hreinsunardagar hennar eru liðnir. 5 Ef hún fæðir meybarn er hún óhrein í tvisvar sinnum sjö daga á sama hátt og þegar hún hefur tíðir.
Hún skal halda kyrru fyrir vegna blóðhreinsunarinnar í sextíu og sex daga. 6 Þegar hreinsunardagar hennar eru liðnir, hvort heldur eftir fæðingu sonar eða dóttur, skal hún færa prestinum veturgamla sauðkind í brennifórn og unga dúfu eða turtildúfu í syndafórn að dyrum samfundatjaldsins. 7 Hann skal færa það fram fyrir auglit Drottins og friðþægja fyrir hana. Þá verður hún hrein af blæðingum sínum.“
Þetta eru lög um konur sem fæða hvort heldur sveinbarn eða meybarn.
8 Eigi hún ekki fyrir sauðkind skal hún færa fram tvær turtildúfur eða tvær dúfur, aðra í brennifórn og hina í syndafórn. Presturinn skal friðþægja fyrir hana og verður hún þá hrein.