Styrjöld við þjóðirnar í vestri

1 Á átjánda stjórnarári Nebúkadnesars Assýríukonungs, á tuttugasta og öðrum degi fyrsta mánaðar, kom til umræðu í höll Nebúkadnesars að láta hefndina, sem hann hafði hótað öllum löndunum, koma yfir þau eins og hann hafði sagt. 2 Hann kallaði alla embættismenn sína og ráðsherra saman, lagði fyrir þá leynilega ráðagerð og kynnti þeim alla þá skelfingu sem hann hafði í ráði að láta koma yfir löndin. 3 Voru þeir allir sama sinnis og hann, að eyða skyldi öllum sem óhlýðnast höfðu boðum hans.
4 Þegar Nebúkadnesar Assýríukonungur hafði greint frá áætlun sinni boðaði hann Hólofernes, yfirhershöfðingja herja sinna, á sinn fund. Gekk hann næst konungi að völdum. Nebúkadnesar sagði við hann: 5 „Svo mælir stórkonungurinn, herra gjörvallrar jarðar: Þú skalt halda héðan og taka með þér menn sem treysta á mátt sinn, eitt hundrað og tuttugu þúsund fótgönguliða og tólf þúsund hesta og riddara. 6 Þú skalt halda í herför gegn öllum löndunum í vestri því að þau óhlýðnuðust boðum mínum. 7 Þú skalt kunngjöra þeim að þau skuli hafa til reiðu mold og vatn því að ég muni ráðast á þau af heift. Fætur herja minna munu þekja yfirborð jarðar og ég mun afhenda herjum mínum löndin til rána. 8 Fallnir munu fylla gil og árfarvegi, líkin stífla læki og ár svo að þær munu flæða yfir bakka sína. 9 Ég mun flytja hertekna til ystu endimarka jarðar. 10 Þú skalt fara fyrir mér og taka allar byggðir hinna óhlýðnu herskildi. Gangi íbúar þeirra þér á vald skalt þú gæta þeirra fyrir mig þar til ég kem til að gera upp sakir. 11 En þeim sem sýna þér mótþróa skalt þú ekki sýna neina vægð heldur ofurselja þá dauða og ránum um allt land þitt. 12 Ég hef svarið við líf mitt og veldi konungdóms míns að gera þetta og það mun ég sjálfur gera. 13 Ekki skalt þú heldur brjóta gegn einu einasta boði húsbónda þíns. Þú skalt gera allt nákvæmlega eins og ég hef lagt fyrir þig og þú skalt gera það án tafar.“

Herför Hólofernesar

14 Hólofernes hélt af stað frá húsbónda sínum og kvaddi saman alla yfirhershöfðingja, hershöfðingja og foringja Assýríuhers. 15 Hann valdi úrvalslið eins og konungurinn hafði boðið honum, eitt hundrað og tuttugu þúsund fótgönguliða og tólf þúsund bogfima riddara. 16 Hann skipaði þeim í bardagafylkingar eins og venja var. 17 Enn fremur hafði hann gríðarlegan fjölda burðardýra, úlfalda, asna og múldýr og auk þess fleiri sauðkindur, naut og geitur en tölu yrði á komið hernum til viðurværis. 18 Hafði hann yfrið nægar vistir handa hverjum hermanni auk gnóttar gulls og silfurs úr fjárhirslu konungs.
19 Síðan lagði Hólofernes og allur hans her upp í herförina til að ryðja Nebúkadnesari konungi braut og þekja allt yfirborð jarðar í vestri með stríðsvögnum, riddurum og úrvalsfótgönguliði. 20 Hernum fylgdi einnig sundurleitur skari, slíkur aragrúi að engri tölu varð á komið fremur en engisprettusveim eða sandkorn jarðar.
21 Þeir héldu þrjár dagleiðir frá Níníve yfir á Bekteletsléttu og slógu upp herbúðum handan Bektelet í nánd fjallsins norður af Efri-Kilíkíu. 22 Þaðan hélt Hólofernes upp í fjöllin með allan her sinn, fótgöngulið, riddara og stríðsvagna. 23 Eyddi hann Pút og Lúd og fór ránshendi um byggðir Rassismanna og Ísmaelíta í jaðri eyðimerkurinnar sunnan við land Kelea. 24 Hann hélt með fram Efrat og gegnum Mesópótamíu og eyddi öllum víggirtum borgum með fram Abronánni og allt til sjávar. 25 Hann náði Kilíkíuhéraði á sitt vald og gekk á milli bols og höfuðs á öllum sem veittu honum mótspyrnu. Síðan hélt hann til Jafetsbyggða sem eru í suðri gegnt Arabíu. 26 Hann umkringdi alla Mídíaníta, brenndi tjöld þeirra og rændi fjárbyrgi þeirra.
27 Um hveitiskurðartímann hélt hann ofan á Damaskussléttuna, brenndi þar alla akra, slátraði sauða- og nautahjörðum, rændi borgir og gereyddi haglendið umhverfis þær og hjó niður alla unga menn með sverði.
28 Allir þeir sem bjuggu á strandlengjunni fylltust ótta og skelfingu við hann. Íbúar Sídonar og Týrusar, Súr og Ókína og þeir sem bjuggu í Jabne, Asdód og Askelon urðu alteknir ótta.