II.
Á þrettánda ári Nabogodonosor kóngs, á öðrum og tuttugasta degi hins fyrsta mánaðar, var sú ráðagjörð í húsi Nabogodonosor kóngs af Assyria að hann skyldi hefna sín. Og hann heimti til sín alla sína ráðgjafa, höfðingja og höfuðsmenn og hafði heimuglega ráðagjörð við þá og sagði þeim hvernin að hann hugði sér öll þessi lönd að brjóta undir sitt ríki.
Þá þetta leist þeim öllum þá kallaði Nabogodonosor kóngur fyrir sig Holofernem sinn stríðshöfðingja og sagði: „Drag þú út í móti öllum þeim ríkjum sem liggja við vestrinu og sérdeilis í móti þeim sem fyrirlitið hafa minn boðskap. Þú skalt ekki hlífa neinu ríki og allar sterkar borgir skalt þú mér undirgefnar gjöra.“
Þá kallaði Holofernes höfuðsmennina yfir því herliði Assyriis til sín og brynjaði fólkið til bardaga so sem konungurinn hafði honum boðið, hundrað og tuttugu þúsundir fótgönguliðs og tólf þúsundir bogmanna á hestum. [ Og hann lét allan sinn stríðsher draga undan sér með óteljandi úlfalda, með miklum viðurbúnaði, þar með naut og sauði óteljandi handa sínu fólki. Og hann lét úr öllu Sýrlandi flytja korn til síns herliðs. En gull og silfur tók hann ógrynni með sér úr konungsins fjárhirslum. Og hann reisti fram með allan sinn her, með vagna, riddaralið og bogmenn og þeir huldu jörðina sem engisprettur.
Og þá hann var nú kominn yfir landamerki Assyrialands þá kom hann til þess stóra fjalls Ange til vinstri síðu við Cilicia og vann alla þeirra bæi og sterkar borgir. Og hann niðurbraut Meloti, eina víðfræga borg, og rændi allt fólkið í Tarsis og Ísmaelssonu sem bjuggu gegnt eyðimörkinni og í suðurálfu þess landsins Kellón. Hann reisti yfir um Euphrates og kom í Mesopotamiam og niðurbraut alla stóra staði þá sem fyrir honum urðu, allt í frá lækjum Mamre inn til sjávarins, og tók til sín landamerkin allt í frá Cilicia inn til landamerkja Joppe sem liggja til suðurs. Og hann burt flutti alla sonu Madian og rænti öllu þeirra góssi og sló með sverðseggjum alla þá sem honum veittu mótstöðu. Eftir þetta reisti hann ofan í landið Damascus um hausttímann og uppbrenndi allt þeirra kornsæði og lét niður höggva öll tré og víngarða. Og allt landið varð hrætt við hann.