XLI.

Og hann leiddi mig inn í musterið og mælti útbrotin hjá veggjunum. Þau voru sex álna breið á hvora hlið, so víð sem húsið var. Og portin voru tíu álna breið en veggirnir á hvora hlið hjá portinu var hvor fyrir sig fimm álna breiður. Og hann mælti rúmið í musterinu, það var fjörutígi álna að lengdinni og tuttugu álna að breiddinni.

Og hann gekk þangað inn og mælti dyrnar, tvær álnir, og dyrnar voru sex álnir og breiddin dyranna sjö álnir. Og hann stikaði tuttugu álnir á lengdina og tuttgu álnir á breiddina hjá musterinu. Og hann sagði til mín: Þetta er það hið allra heilagasta. Og hann mælti vegginn á húsinu, sex álna á hæð. Þar voru svalir alla vegana utan um kring, útskiptar í herbergi sem voru fjögra álna víð á alla vegu. Og þau sömu herbergi voru þrettán og tuttugu hvorumegin eitt hjá öðru og þar stóðu stólpar neðan undir upp við veggina á húsinu alla vegana um kring sem þau báru.

Og yfir þessum voru enn fleiri loftsvalir allt um kring og svalirnar voru ofan til víðari og menn gengu frá hinni neðstu og til hinnar sem í miðið var og frá þeirri í miðið var til hinnar hæðstu og hver ein stóð sex álna yfir annarri. Og víddin á þeirri hinni efstu lofsvölunni var fimm álnir og stólparnir báru svalirnar upp að húsinu og þar voru tuttugu álnir í frá öðrum veggnum til eins annars í húsinu.

Og þar voru tvær dyr upp að vindsteininum, aðrar á mót norðrinu en aðrar á móti suðrinu, og vindsteinnin var fimm álna víður. Og múrinn mót vestrinu var fimmtán og sextígi álna víður, níutígu álna langur.

Og hann mælti lengdina hússins. Það hafði hundrað álna utar í gegnum með múrnum og því eð þar var hjá og víddin frammi fyrir á húsinu mót austrinu með því sem þar studdi að var og hundrað álna.

Og hann mælti lengdina á byggingunni með öllu því sem þar studdi að, frá einu horninu til annars, það var hundrað álnir á hvora síðiu með því hinu innra musterinu og lofthúsinu og fordyrunum, með þeim dyrunum, vindaugum, hyrningunum og þeim þrimur loftsvölunum og því stannþilinu alla vegana utan um kring.

Hann mælti og einnin hversu hátt það var frá jörðunni upp að vindaugunum og hversu breið það vindaugun skyldu vera. Og hann mælti frá portinu inn til hins allra heilagasta bæði innan og utan allt um kring.

Og þar voru kerúbím útgrafnir á húsinu rétt um kring, frá neðanverðu og að efstu gáttinni á dyrunum og á veggjunum, og þar voru útskorin pálmviðarlauf, smíðuð undir kerúbím. Og hver þeirra hafði tvö höfuð, öðrumegin so sem mannshöfuð en hinumegin so sem eitt leónshöfuð.

Og dyrnar á musterinu voru ferkantaðar og allir hlutir voru lystilegir til samans settir hver við annan.

Og það tréaltarið var þriggja álna hátt og tveggja álna að lengd og breidd og allir langveggirnir og hyrningarnar voru af tré. Og hann sagði til mín: Þetta er það borðið sem standa skal fyrir Drottni.

Og dyrnar bæði á musterinu og hjá því hinu allra heilagasta hafði tvo hurðarvængi sem menn láta upp og aftur. Og þar voru einnin kerúbím og útskorin pálmviðarlauf á, líka sem á veggjunum. Og þar voru sterkar stengur fyrir gegnt lofthúsinu og þar voru á mjó vindaugu og mörg útskorin pálmviðarlauf allt um kring á lofthúsinu og á veggjunum.