1 Að svo búnu leiddi hann mig inn í musterissalinn og mældi stoðirnar. Þær voru sex álnir að þykkt beggja vegna. 2 Dyrnar voru tíu álnir á breidd og hliðarveggirnir báðum megin við dyrnar voru hvor um sig fimm álnir. Því næst mældi hann lengd musterissalarins og var hann fjörutíu álnir á lengd en tuttugu á breidd.
3 Þá gekk hann inn fyrir og mældi stoðirnar við dyrnar. Þær voru tvær álnir. Dyrnar voru sex álnir á breidd en hliðarveggir inngangsins sjö. 4 Hann mældi lengd herbergisins og var hún tuttugu álnir og breiddin tuttugu í átt að musterissalnum. Hann sagði við mig: „Þetta er hið allra helgasta.“
5 Hann mældi múrvegg musterisins. Hann var sex álnir á þykkt. Útbygging, sem náði umhverfis allt musterið, var fjórar álnir á breidd. 6 Í henni voru hliðarherbergi eitt upp af öðru, þrjár hæðir. Á múrvegg musterisins voru syllur allt í kring vegna hliðarherbergjanna. Þær héldu uppi þakbjálkum þeirra en engar festingar voru í veggjum musterisins. 7 Byggt var umhverfis allt húsið og breikkaði það upp á við frá einni hæð til annarrar. Gengið var frá neðstu hæðinni upp á þá efstu um miðhæðina. 8 Ég sá að umhverfis musterið var upphækkun sem var grunnur hliðarherbergjanna og var hún ein mælistöng á hæð, fullar sex álnir. 9 Útveggur viðbyggingarinnar var fimm álnir á þykkt. Á milli hliðarherbergja hússins 10 og álmu prestanna var autt svæði umhverfis húsið allt, tuttugu álnir á breidd. 11 Dyrum hliðarbyggingarinnar að opna svæðinu var þannig komið fyrir að einar dyr sneru í norður og aðrar í suður. Múrinn umhverfis opna svæðið var fimm álnir á þykkt.
12 Gegnt afmarkaða svæðinu að vestanverðu var bygging. Hún var sjötíu álnir á breidd. Veggur þeirrar byggingar var fimm álnir á breidd allan hringinn og níutíu álnir á lengd.
13 Hann mældi því næst musterið og var það hundrað álnir á lengd, einnig afmarkaða svæðið og bygginguna og múra hennar. Það var hundrað álnir á lengd. 14 Framhlið musterisins og afmarkaða svæðið austan megin voru hundrað álnir á breidd. 15 Hann mældi lengd byggingarinnar sem stóð við afmarkaða svæðið á bak við það, og hann mældi einnig álmur þess beggja vegna og voru þær hundrað álnir.
Musterissalurinn og forsalurinn, sem sneri að forgarðinum, 16 voru þiljaðir að innan. Gluggarnir voru lokaðir með rimlum og voru þrefaldar umgjörðir um þá ofan við gluggakisturnar. Þiljurnar náðu allt umhverfis frá gólfi upp að gluggum 17 og yfir dyrnar. Í innra herberginu og því ytra, á öllum veggjum bæði að utan og innan, voru markaðir reitir. 18 Í þá voru skornir kerúbar og pálmar, einn pálmi milli tveggja kerúba. Hver kerúb hafði tvö andlit, 19 mannsandlit sem sneri að pálmanum öðrum megin við hann og ljónsandlit sem sneri að pálmanum hinum megin. Þannig var húsið útskorið allan hringinn: 20 Kerúbar og pálmar voru skornir á vegg musterissalarins frá gólfi og yfir dyrnar.
21 Ferföld umgjörð var um dyr musterissalarins. Framan við hið heilaga var eitthvað sem virtist vera 22 altari úr tré. Það var þrjár álnir á hæð, tvær á lengd og tvær á breidd. Á því voru horn og fótstallur þess og hliðar voru úr viði. Hann sagði við mig: „Þetta er borðið sem stendur frammi fyrir Drottni.“
23 Fyrir musterissalnum voru vængjahurðir og fyrir hinu heilaga 24 voru einnig vængjahurðir. Í dyrunum voru hreyfanlegir hurðarvængir, tveir á hverjum dyrum. 25 Á hurðarvængi musterissalarins voru skornir kerúbar og pálmar eins og þeir sem skornir voru í veggina. Á framhlið musterissalarins, sem sneri út, voru trérimlar. 26 Á báðum hliðarveggjum forsalarins voru gluggar sem lokað var með grindum og pálmaskreytingar voru einnig á útbyggingum hússins og grindum þess.