Iðrun hinna guðlausu

1Þá mun hinn réttláti standa með mikilli einurð
frammi fyrir þeim er þjökuðu hann
og virtu erfiði hans einskis.
2 Þegar þeir sjá hann verða þeir skelfingu
og furðu lostnir á óskiljanlegu hjálpræði hans.
3 Iðrandi munu þeir segja við sjálfa sig
og andvarpa í sálarangist:
4 „Þetta er sá sem vér heimskingjarnir hæddumst að fyrrum
og höfðum að háði og spotti.
Vér töldum líferni hans fásinnu
og endalok hans smánarleg.
5 Af hverju telst hann nú til barna Guðs
og hefur öðlast hlutskipti með heilögum?
6 Vér höfum þá villst af vegi sannleikans,
ljós réttlætisins hefur ekki lýst oss
og sólin hefur aldrei runnið upp yfir oss.
7 Vér flæktum oss í þistlum lögleysis og glötunar
og vér eigruðum um veglaus öræfi,
en veg Drottins þekktum vér eigi.
8 Hvaða gagn hefur drambið unnið oss?
Hvað hefur auður og oflæti fært oss?
9 Allt er það liðið hjá eins og skuggi,
eins og fregn sem þýtur hjá
10 eða skip sem klýfur bárufalda,
slóð þess finnst ekki,
ekkert kjölfar í öldunum.
11 Eða eins og fugl flýgur um loftið
og enginn sér merki flugsins.
Hann brýtur sér leið með vængjaslögum sem bæra léttan blæinn.
Hann klýfur loftið með sterkum þyt blakandi vængja,
en síðan sjást engin merki þess að um loftið var farið.
12 Eða þegar ör er skotið að marki,
loftið klofnar og rennur saman á ný
og enginn veit hvar örin fló.
13 Þannig erum vér. Nýfæddir erum vér horfnir
og getum ekki sýnt nein merki um drýgðar dáðir
heldur tærðumst vér upp í illri breytni.“
14 Von hins guðlausa er sem sáð er hrekst fyrir vindi,
eins og skúm sem stormur feykir
eða reykur sem vindur dreifir
og hverfur eins og minning um næturgest.

Umbun réttlátra, hegning guðlausra

15En réttlátir lifa um aldur.
Laun þeirra eru hjá Drottni
og Hinn hæsti annast um þá.
16 Þess vegna munu þeir hljóta skínandi konungskórónu
og tignarlegt höfuðdjásn úr hendi Drottins.
Hann mun skýla þeim með hægri hendi
og hlífa þeim með armi sínum.
17 Hann mun búast heilagri reiði
og hervæða sköpunina til varnar gegn óvinum.
18 Hann mun klæðast brynju réttlætis
og setja upp hispurslausan dóm sem hjálm
19 og taka ósigrandi heilagleikann að skildi.
20 Úr bráðri reiði mun hann smíða hvasst sverð
og heimurinn mun fylgja honum í herför gegn fávísum.
21 Eldingar munu þjóta sem óskeikular örvar
og fljúga til marks eins og skotið af þöndum skýjaboga.
22 Haglhríðin mun dynja eins og steinum væri slöngvað í bræði.
Vötn sjávarins munu æða í gegn þeim
og holskeflur steypast yfir þá án miskunnar.
23 Máttugur andinn mun standa í gegn þeim
og feykja þeim burt eins og ofviðri.
Þannig mun lögleysið leggja gjörvalla jörðina í auðn
og illgjörðir steypa hásætum hinna voldugu.