Gyðingar sæta trúarofsóknum

1 Skömmu eftir þetta sendi konungur öldung frá Aþenu til að þvinga Gyðinga til að snúa baki við lögmáli feðranna og láta af að lifa eftir lögmáli Guðs. 2 Honum bar einnig að vanhelga musterið í Jerúsalem og vígja það hinum ólympíska Seifi, sem og musterið á Garísím Gesta-Seifi, en margt útlendinga bjó þar.
3 Þessi yfirþyrmandi illska var þungbær og þjakandi á allan hátt. 4 Heiðingjarnir lögðu musterið undir svallveislu, döðruðu þar við drósir og lögðust með dækjum innan vébanda og báru þangað margt sem óhæfa var að hafa á þeim stað. 5 Þeir þöktu altarið með viðurstyggilegum fórnum sem lögmálið bannar með öllu. 6 Hvíldardaginn var ekki unnt að halda heilagan eða hátíðir feðranna. Jafnvel var ókleift að játa sig Gyðing. 7 Mánaðarlega, á fæðingardegi konungs, var fólkið neytt af mikilli hörku til að taka þátt í blótum þar sem mönnum var gert að neyta innyfla fórnardýra. Þegar svo Bakkusarhátíðin var haldin voru Gyðingar þvingaðir til að vera með í skrúðgöngu til heiðurs Bakkusi og bera laufsveig á höfði. 8 Enn fremur var grísku borgunum í grenndinni boðið, að undirlagi Ptólemeusar, að þvinga Gyðinga til hins sama og neyða þá til að taka þátt í blótum. 9 Þeir sem vildu ekki taka upp gríska siði skyldu drepnir.
Það var degi ljósara að hörmungartímar fóru í hönd. 10 Tvær konur voru teknar höndum fyrir að hafa látið umskera syni sína. Þær voru reknar fyrir allra augum um borgina þvera með smábörnin hengd við brjóst sín og loks hrundið fram af borgarmúrunum. 11 Við Filippus var ljóstrað upp um nokkra aðra Gyðinga sem höfðu komið saman á laun í hellum þar í grenndinni til að halda hvíldardaginn hátíðlegan. Þeir voru allir brenndir til bana því að þeir höfðu ekki fengið sig til að verja sig vegna dýrðar og helgi dagsins.

Drottinn hegnir og miskunnar

12 Ég hvet alla sem lesa þessa bók til að láta ekki hugfallast af þessum hörmungum heldur hugsa sem svo að prófraunirnar séu ekki til að tortíma þjóð okkar heldur til að aga hana. 13 Enda er það merki um mikla náð að hegna syndurum skjótt fyrir syndir fremur en að láta þá bíða hegningar lengi. 14 Drottinn fer ekki með okkur eins og aðrar þjóðir sem hann dregur við sig að refsa allt þar til þær hafa fyllt mæli synda sinna. Hann ákvað að breyta öðruvísi við okkur 15 svo að hann þyrfti ekki að refsa okkur þegar við hefðum syndgað úr öllu hófi. 16 Þess vegna sviptir hann okkur aldrei miskunn sinni og þótt hann agi lýð sinn með áföllum yfirgefur hann okkur aldrei. 17 Þetta hef ég sagt ykkur til íhugunar og eftir þennan útúrdúr sný ég mér aftur að frásögninni.

Eleasar deyr fyrir trú sína

18 Einna virtastur af fræðimönnunum var Eleasar. Hann var aldraður maður og sviphreinn. Hann var þvingaður til að opna munninn og svínakjöti troðið upp í hann. 19 En hann kaus fremur að deyja með sæmd en að lifa við skömm. Hrækti hann kjötinu út úr sér og gekk sjálfviljugur að pyntingarstaðnum. 20 Slíkt sæmir þeim sem eru nógu hugaðir til að hafna því sem óheimilt er að neyta, jafnvel þótt þeir unni lífinu og viti að dauðasök varði.
21 En þeir sem settir voru yfir hina löglausu fórnarmáltíð höfðu þekkt Eleasar lengi. Þeir tóku hann á eintal og hvöttu hann til að verða sér úti um kjöt sem honum væri frjálst að neyta og hann hefði sjálfur látið matreiða. Gæti hann látist eta af fórnarkjötinu svo sem konungurinn hafði fyrirskipað. 22 Með því móti gæti hann komist hjá lífláti og þeir mundu fara mildilega með hann vegna langrar vináttu þeirra.
23 En Eleasar tók ákvörðun sem sæmdi árum hans og aldurstign og hærum sem báru vott um göfugt líferni. Frá bernsku hafði dagfar hans verið til fyrirmyndar og auk þess í samræmi við heilagt lögmál Guðs. Þess vegna svaraði hann og bað þá um að deyða sig án tafar. 24 „Það sæmir ekki aldri mínum,“ sagði hann, „að hræsna þannig. Það gæti komið mörgum ungum manni til að halda að níræður hefði Eleasar tekið heiðna trú. 25 Hræsni mín og löngun til að treina lífið lítillega mundi afvegaleiða þá og ég svívirða og flekka elli mína. 26 Því að þótt ég kæmist hjá hegningu manna um sinn gæti ég aldrei umflúið hönd Hins almáttuga, hvorki lífs né liðinn. 27 Þess vegna ætla ég að láta lífið karlmannlega og sýna að ég var verður langra lífdaga. 28 Með því að láta lífið fúslega og göfugmannlega fyrir hið háa og heilaga lögmál gef ég æskunni fagurt fordæmi.“
Að svo mæltu gekk hann rakleiðis að pyntingartólunum.
29 En velvildin sem böðlarnir sýndu honum skömmu áður umhverfðist í óvild af því að þeim fannst það sem hann sagði fásinna. 30 Er hann svo hafði nær verið barinn til bana stundi hann og sagði: „Drottinn, sem hefur hina heilögu þekkingu, veit að ég gat komist hjá dauða. Þess í stað er ég nú lostinn svipuhöggum og líð óbærilegar kvalir á líkama mínum. En Drottinn veit líka að sál mín ber þetta með gleði af því að ég óttast hann.“
31 Á þennan hátt fór hann héðan af heimi og lét með dauða sínum ekki aðeins hinum ungu heldur stærstum hluta þjóðarinnar eftir göfugt dæmi að breyta eftir og hetjudáð að minnast.