Spekin varðveitir hina réttlátu

1 Það var spekin sem varðveitti þann sem fyrstur var skapaður, forföður manna, meðan hann var einn. Hún bjargaði honum þegar hann hrasaði 2 og gaf honum mátt til að ríkja yfir öllu. 3 En hinn rangláti sneri við henni baki í reiði og tortímdist er hann drap bróður sinn í heift. 4 Þegar flóðið færði jörðina í kaf af hans völdum bjargaði spekin henni aftur og vísaði hinum réttláta veg á lítilfjörlegu fleyi. 5 Og aftur í glundroðanum, þegar þjóðirnar höfðu sameinast í illskunni, fann spekin hinn réttláta og varðveitti hann flekklausan frammi fyrir Guði og lét hann eigi bugast af elsku til sonar síns.
6 Þegar hinir guðlausu fórust var það hún sem frelsaði hinn réttláta mann þegar hann flýði eldinn sem féll á borgirnar fimm. 7 Til vitnis um illsku þeirra er þar enn rjúkandi auðn og jurtir, sem bera ávexti í ótíma, og saltstólpi, bautasteinn um trúlausa sál. 8 Því að þeir sködduðust ekki aðeins af vanþekkingu á hinu góða, þegar þeir höfnuðu spekinni, heldur létu þeir auk þess lifendum eftir minnismerki um fávísi sína svo að afglöp þeirra gætu eigi leynst. 9 Spekin frelsaði úr nauðum þá sem þjónuðu henni.
10 Hún leiddi hinn réttláta, sem flýði reiði bróður síns, um beinar brautir. Hún sýndi honum Guðs ríki og veitti honum þekkingu á heilögum málum,[ lét honum farnast vel í verkum sínum og veitti honum umbun erfiðis síns. 11 Spekin veitti honum fulltingi gegn ásælni þeirra sem vildu kúga hann og auðgaði hann. 12 Hún varðveitti hann fyrir óvinum og gerði hann óhultan fyrir þeim er sátu um hann. Hún veitti honum sigur í harðri glímu til þess að honum lærðist að guðræknin er sterkari en allt.
13 Hún yfirgaf ekki hinn réttláta þegar hann var seldur, heldur varðveitti hann frá synd. 14 Hún fór með honum ofan í dýflissu og yfirgaf hann ekki í fjötrum. Að lokum færði hún honum veldissprota ríkisins og vald yfir þeim sem höfðu kúgað hann. Hún afhjúpaði lygi þeirra sem höfðu ófrægt hann og veitti honum eilífan orðstír.
15 Hún frelsaði heilagan lýð og flekklausa niðja frá þjóð kúgara. 16 Hún tók sér bólfestu í sál þjóns Drottins og stóð í gegn ægilegum konungum með undrum og táknum. 17 Hún veitti hinum heilögu umbun erfiðis síns og leiddi þá um undursamlegan veg. Hún varð þeim hlíf um daga og stjörnublik um nætur. 18 Hún fór með þá um Rauðahafið og leiddi þá gegnum víðáttumikil vötn 19 en færði óvini þeirra í kaf og spjó þeim úr ógnardjúpinu. 20 Þess vegna rúðu hinir réttlátu guðlausa og þeir sungu, Drottinn, þínu heilaga nafni lof og dásömuðu einum rómi verndarhönd þína. 21 Spekin lauk upp munni mállausra og lét tungu barna tala skýrt.