Dáin lögmálinu

1 Þið vitið, systkin[ – ég tala hér við menn sem þekkja lögmálið – að lögmálið ræður ekki yfir manni lengur en hann lifir. 2 Þannig er gift kona bundin manni sínum að lögum meðan hann lifir. En deyi maðurinn er hún leyst undan því lögmáli sem bindur hana honum. 3 Hún er því talin hórkona ef hún verður annars manns að manni sínum lifandi. En deyi maður hennar er hún laus undan því lögmáli og telst ekki hórkona þótt hún verði annars manns.
4 Eins er um ykkur, bræður mínir og systur.[ Þið hafið dáið með Kristi og um leið fengið lausn undan lögmálinu og hafið gefist öðrum, honum sem var upp vakinn frá dauðum svo að við mættum bera Guði ávöxt. 5 Þegar við lutum okkar spillta eðli[ voru syndugar ástríður, vaktar af lögmálinu, virkar í limum okkar svo að við bárum dauðanum ávöxt. 6 En nú erum við leyst undan lögmálinu og dáin frá því sem áður hélt okkur í fjötrum og getum því þjónað með nýju lífi andans en ekki með fylgd við fornan lagabókstaf.

Lögmálið og syndin

7 Hvað er þá meira að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. Sannleikurinn er sá að án lögmálsins hefði ég ekki vitað hvað synd er. Ég hefði ekki vitað um girndina hefði lögmálið ekki sagt: „Þú skalt ekki girnast.“ 8 En syndin neytti færis með boðorðinu og vakti með mér alls kyns girnd. Án lögmáls er syndin dauð. 9 Ég lifði einu sinni án lögmáls. En þegar boðorðið kom lifnaði syndin en ég dó. 10 Boðorðið, sem átti að verða til lífs, reyndist vera mér til dauða 11 því að syndin fékk færi með boðorðinu, tældi mig og deyddi með því. 12 Lögmálið er vissulega heilagt, boðorðið heilagt, réttlátt og gott.
13 Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því. Nei, það var syndin. Til þess að hún yrði ber að því að vera synd olli hún mér dauða með því sem gott er. Þannig skyldi boðorðið sýna hve skelfileg syndin er.
14 Vitað er að lögmálið er andlegt en ég er jarðneskt hold, í greipum syndarinnar. 15 Ég skil ekki hvað ég aðhefst. Það sem ég vil geri ég ekki, hitt sem ég hata, það geri ég. 16 Fyrst ég geri það sem ég vil ekki er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott. 17 En þá er það ekki framar ég sjálfur sem geri þetta heldur syndin sem í mér býr.
18 Ég veit að ekki býr neitt gott í mér, það er í spilltu eðli mínu.[ Að vilja veitist mér auðvelt en mig skortir alla getu til góðs. 19 Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég. 20 En ef ég geri það sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur sem framkvæmi það heldur syndin sem í mér býr.
21 Þannig reynist mér það sem regla að þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast. 22 Í hjarta mínu hef ég mætur á lögmáli Guðs 23 en ég sé annað lögmál í limum mínum og það stríðir gegn lögmáli hugar míns, hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.
24 Ég aumur maður! Hver frelsar mig frá þessum dauðans líkama? Guði sé lof að Jesús Kristur, Drottinn vor, frelsar. En sem sagt: Sjálfur þjóna ég lögmáli Guðs með huga mínum en lögmáli syndarinnar með ytri gjörðum.[