Akas konungur í Júda

1 Akas var tuttugu ára þegar hann varð konungur og hann ríkti sextán ár í Jerúsalem. Hann gerði ekki það sem rétt var í augum Drottins eins og Davíð, forfaðir hans, hafði gert. 2 Hann breytti eins og konungar Ísraels og lét jafnvel gera steyptar myndir af Baölunum. 3 Það var hann sem færði brennifórnir í Hinnomssonardal og lét syni sína ganga gegnum eld að viðurstyggilegum hætti þeirra þjóða sem Drottinn hafði hrakið í burtu undan Ísraelsmönnum. 4 Hann færði sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðum og á hólum og undir hverju grænu tré.

Stríð Júda við Aram og Ísrael

5 Drottinn, Guð hans, seldi hann því í hendur konungi Aramea. Þeir unnu sigur á honum og tóku fjölmarga menn hans til fanga og fluttu þá til Damaskus.
Drottinn seldi hann einnig í hendur Ísraelskonungi og hann gersigraði þá. 6 Peka Remaljason felldi hundrað og tuttugu þúsund menn á einum degi í Júda. Það voru allt hraustir menn en þetta varð vegna þess að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna. 7 Síkrí, hetja frá Efraím, drap Maaseja, son konungs, hirðstjórann Asríkam og Elkana sem næstur gekk konungi. 8 Ísraelsmenn fluttu í útlegð tvö hundruð þúsund ættmenni sín, konur, syni og dætur. Þeir tóku einnig mikið herfang af þeim og fluttu það til Samaríu.

Spádómur Ódeðs

9 Þar bjó spámaður Drottins að nafni Ódeð. Hann gekk á móti hernum, sem var að koma heim til Samaríu, og sagði: „Drottinn, Guð feðra ykkar, reiddist Júda. Þess vegna hefur hann selt þá ykkur í hendur. En þið hafið fellt þá af þeirri heift sem hrópar til himins. 10 Nú ætlið þið að kúga Júdamenn og íbúa Jerúsalem með því að gera þá að þrælum ykkar og ambáttum. En eruð þið sjálfir ekki orðnir sekir gagnvart Drottni, Guði ykkar? 11 Hlustið nú á mig. Sendið aftur fangana sem þið hafið tekið af ættbræðrum ykkar því að annars vofir brennandi reiði Drottins yfir ykkur.“
12 Því næst gengu nokkrir af leiðtogum Efraímíta á móti þeim sem voru að koma heim úr herförinni. Það voru Asarja Jóhanansson, Berekía Mesillemótsson, Hiskía Sallúmsson og Amasa Hadlaíson. 13 Þeir ávörpuðu þá og sögðu: „Komið ekki hingað með fangana. Með því munuð þið auka við sekt okkar og synd gegn Drottni en sekt okkar er þegar mikil og heiftarreiði gegn Ísrael.“
14 Þá skildu stríðsmennirnir fangana og herfangið eftir frammi fyrir leiðtogunum og öllum söfnuðinum. 15 Síðan gengu þeir menn fram sem höfðu verið valdir til þess með nafnakalli og tóku fangana að sér. Þeir klæddu þá sem voru naktir, gáfu þeim klæði og skó af herfanginu, gáfu þeim að eta og drekka og smurðu þá smyrslum. Því næst fluttu þeir alla, sem ekki gátu gengið, á ösnum til Jeríkó, pálmaborgarinnar, til ættbræðra þeirra og sneru síðan aftur heim til Samaríu.

Akas og Assýríumenn

16 Um þessar mundir sendi Akas konungur menn til konungs Assýríu og bað um hjálp 17 af því að Edómítar höfðu einnig komið og sigrað Júdamenn og tekið fanga. 18 Filistear höfðu á sama tíma ráðist á borgirnar á láglendinu og í þeim hluta Negeb sem heyrir Júda til. Þeir höfðu tekið Bet Semes, Ajalon, Gederót og Sókó ásamt þorpunum umhverfis, Timna ásamt þorpunum umhverfis og Gimsó ásamt þorpunum umhverfis, og sest að í þessum borgum. 19 Þetta varð af því að Drottinn auðmýkti Júdamenn vegna Akasar Ísraelskonungs. Hann hafði framið óhæfu í Júda og verið Drottni ótrúr. 20 En Tíglat Píleser, konungur Assýríu, hélt gegn honum og þrengdi að honum í stað þess að veita honum lið. 21 Þó að Akas hefði rænt hús Drottins, konungshöllina og höfðingjana og afhent konungi Assýríu ránsfenginn, fékk hann enga hjálp frá honum.
22 Akas sveik Drottin eins og áður, jafnvel þegar að honum svarf. Þannig var Akas konungur. 23 Hann færði guðunum í Damaskus, sem höfðu sigrað hann, sláturfórnir og sagði: „Guðir Arameakonunga hafa hjálpað þeim. Nú ætla ég að færa þeim sláturfórnir, þá munu þeir einnig hjálpa mér.“ En þeir urðu honum aðeins til falls og öllum Ísrael.
24 Akas lét safna saman öllum áhöldum húss Guðs. Því næst lét hann brjóta þau, loka hliðum húss Drottins og gera ölturu handa sér við hvert horn í Jerúsalem. 25 Hann lét gera fórnarhæðir í sérhverri borg í Júda til að færa framandi guðum fórnir. Þannig vakti hann reiði Drottins, Guðs feðra sinna.

Akas deyr

26 Saga hans, frá upphafi til enda, og frásagnir af öðrum verkum hans, er skráð í bók konunga Júda og Ísraels. 27 Akas var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn í Jerúsalem en þó ekki í gröfum Ísraelskonunga. Hiskía, sonur hans, varð konungur eftir hann.