Hagleiksmennirnir

1 Drottinn ávarpaði Móse og sagði: 2 „Ég hef kallað Besalel Úríson, Húrssonar, af ættbálki Júda, með nafni. 3 Ég hef fyllt hann anda Guðs með visku, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, 4 til að gera uppdrætti, til að smíða úr gulli, silfri og eir, 5 til að slípa eðalsteina og greypa þá, til tréskurðar, já, til að vinna að hvers kyns smíði. 6 Ég hef sjálfur fengið honum til aðstoðar Oholíab Akísamaksson af ættbálki Dans. Ég hef lagt speki í hjörtu allra hugvitsmannanna svo að þeir geti gert allt sem ég hef falið þér: 7 samfundatjaldið, örk sáttmálstáknsins, lokið á hana og öll áhöld sem heyra tjaldinu til, 8 borðið og áhöld þess, ljósastikuna úr skíru gulli og öll áhöld hennar, reykelsisaltarið, 9 brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, kerið og stétt þess, 10 litklæðin og hinn helga skrúða Arons prests og prestaskrúða sona hans, 11 smurningarolíuna og ilmandi reykelsið fyrir helgidóminn. Þeir skulu gera allt nákvæmlega eins og ég hef lagt fyrir þig.“

Hvíldardagurinn

12 Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Talaðu til Ísraelsmanna og segðu: 13 Þið skuluð halda hvíldardaga mína því að hvíldardagurinn er tákn milli mín og ykkar frá kyni til kyns svo að þið játið að ég er Drottinn sá sem helgar ykkur. 14 Haldið hvíldardaginn því að hann skal vera ykkur heilagur. Hver sem vanhelgar hann skal líflátinn því að hver sem vinnur þá einhver dagleg störf skal upprættur úr þjóð sinni. 15 Sex daga skaltu vinna en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Sérhver, sem vinnur verk á hvíldardegi, skal líflátinn. 16 Ísraelsmenn skulu virða hvíldardaginn með því að halda hvíldardaginn frá kyni til kyns sem ævarandi sáttmála. 17 Hann er ævarandi tákn milli mín og Ísraelsmanna því að Drottinn gerði himin og jörð á sex dögum en sjöunda daginn hvíldist hann og endurnærðist.“
18 Þegar Drottinn hafði talað við Móse á Sínaífjalli fékk hann honum báðar sáttmálstöflurnar, steintöflur, skráðar með fingri Guðs.