1Hrópaðu nú. Heldur þú að einhver svari þér? Til hvers hinna heilögu ætlarðu að snúa þér?
2Gremjan gerir út af við heimskingjann
og ákafinn verður einfeldningnum að bana.
3Ég hef sjálfur séð heimskingja festa rætur
en ég formælti bústað hans þegar í stað.
4Börn hans voru heillum horfin
og troðin niður í borgarhliðinu
þar sem enginn var til að bjarga þeim.
5Uppskeru hans át hungraður maður,
sótti hana jafnvel inn í þyrna,
hinn þyrsti ásældist auð hans.
6Nei, bölið sprettur ekki úr moldinni
og þjáningin vex ekki úr jarðveginum
7heldur er maðurinn borinn til böls
eins og neistar sem þeytast upp.
8Ég mundi leita til Guðs
og leggja mál mín fyrir hann
9sem vinnur ómæld stórvirki,
kraftaverk sem ekki verður tölu á komið.
10Hann gefur jörðinni regn
og sendir vatn yfir vellina.
11Hann upphefur smælingja
og syrgjendum verður hjálpað.
12Hann spillir ráðum lævísra
og hendur þeirra fá engu áorkað.
13Hann geldur slóttugum í sömu mynt
og bragðvísir falla á eigin bragði
14svo að þeir lenda í myrkri um miðjan dag
og þreifa fyrir sér á hádegi eins og um nótt.
15Hann bjargar snauðum frá sverði munns þeirra
og úr greipum hins volduga.
16Þannig öðlast hinn hjálparlausi von
og vonskan lokar gini sínu.
17Sæll er sá sem Guð leiðbeinir,
sá sem hafnar ekki ögun Hins almáttka
18því að hann særir en bindur um,
hann slær en hendur hans græða.
19Úr sex nauðum bjargar hann þér,
í þeirri sjöundu snertir þig ekkert illt.
20Í hallæri bjargar hann þér frá dauða
og frá mætti sverðsins í stríði.
21Þú verður varinn fyrir svipu tungunnar
og þarft ekkert að óttast þegar eyðingin kemur,
22 þú getur hlegið að eyðingu og hungri
og villidýrin þarftu ekki að óttast.
23 Þú ert í bandalagi við steinana á sléttunni
og dýr merkurinnar eru þér vinveitt,
24 þú verður þess vís að tjald þitt er óhult
og skoðir þú bústað þinn sérðu að ekkert skortir,
25 þú kemst að raun um að niðjar þínir eru margir,
afkvæmi þín sem gras á grundu,
26 þú nýtur heilsu þar til þú verður grafinn
líkt og kornknippi sem sótt er á réttum tíma.
27 Þetta höfum vér hugleitt, þannig er það.
Vér höfum hlustað, hafðu það hugfast.