Píslarvætti móður og sjö sona hennar

1 Svo bar einnig við að sjö bræður voru gripnir ásamt móður sinni. Konungurinn lamdi þá með svipum og ólum til að kúga þá til að eta svínakjöt sem lögmálið bannar. 2 Einn bræðranna hafði orð fyrir þeim og sagði: „Hvers ætlar þú að verða vísari hjá okkur? Hvað ætlar þú að fræðast um? Við viljum fremur deyja en brjóta lög feðra okkar.“
3 Konungur varð ævareiður og bauð mönnum sínum að glóðhita pönnur og katla. 4 Jafnskjótt og þeir voru orðnir glóandi skipaði hann að skera tunguna úr þeim sem hafði talað, flá af honum höfuðleðrið og aflima hann fyrir augunum á bræðrum hans og móður. 5 Þegar hann var með öllu ósjálfbjarga, en lífsmark enn með honum, skipaði konungur að hann skyldi lagður á eldinn og steiktur á pönnu. Er eiminn lagði upp af pönnunni hvöttu bræður hans og móðir hvert annað til að deyja hetjulega og sögðu: 6 „Þetta sér Drottinn Guð og hann mun vissulega miskunna okkur eins og Móse boðaði í ljóði sínu sem fordæmir þá sem sneru baki við Drottni og segir: Hann mun aumkast yfir þjóna sína.“
7 Þegar hinn fyrsti hafði látið lífið með þessum hætti var öðrum þeirra misþyrmt jafn háðulega. Húð og hár var slitið af höfði hans og síðan var hann spurður: „Ætlar þú að eta áður en þú verður limaður sundur?“ 8 Hann svaraði á móðurmáli sínu: „Aldrei.“
Þá var hann pyntaður áfram á sama hátt og hinn fyrsti.
9 Í andarslitrunum sagði hann: „Grimmdarhundur. Þú getur svipt okkur þessu lífi en konungur alheims mun reisa okkur upp að nýju til eilífs lífs af því að við deyjum fyrir lögmál hans.“
10 Þá mátti hinn þriðji sæta sömu afarkostum. Þegar þeir ætluðu að skera úr honum tunguna teygði hann hana strax fram, rétti út hendurnar án alls hiks 11 og sagði fullur hugmóðs: „Þetta þáði ég af himni. Lögmálsins vegna afsala ég mér þessu því að ég veit að Guð mun gefa mér það aftur.“
12 Bæði konungurinn sjálfur og menn hans undruðust sálarstyrk unga mannsins og hve hann lét sér fátt um kvalirnar.
13 Þegar hann hafði látið lífið pyntuðu þeir og misþyrmdu hinum fjórða á sama hátt, 14 en er hann var að bana kominn sagði hann: „Þegar maður lætur lífið af mannavöldum er gott að geta fest von sína á fyrirheit Guðs um að hann muni reisa okkur upp að nýju. En þín bíður engin upprisa til lífs.“
15 Nú kom röðin að þeim fimmta. Var hann leiddur fram og tekið að misþyrma honum. 16 Leit hann á konunginn og sagði: „Þú hefur vald meðal manna þótt þú sért dauðlegur maður og þess vegna gerir þú það sem þér þóknast. En þú skalt ekki halda að Guð hafi sleppt hendi sinni af þjóð okkar. 17 Bíddu bara. Þú munt sjá mikinn mátt hans og hann mun þjaka þig og niðja þína.“
18 Eftir hann var hinn sjötti tekinn og er hann var að dauða kominn sagði hann: „Það er ekki allt sem sýnist. Við eigum skilið að líða á þennan hátt vegna þess að við höfum syndgað gegn Guði okkar. Það er undursamlegt sem orðið er. 19 En ímyndaðu þér ekki að þú munir komast hjá hegningu fyrir að hefja baráttu gegn Drottni.“
20 Móðirin var þó aðdáunarverðust og maklegt að hennar sé minnst með virðingu. Hún horfði á sjö syni bíða bana á einum og sama degi. Það bar hún af hugprýði vegna vonarinnar sem hún festi á Drottni. 21 Af miklum kjarki stappaði hún stálinu í hvern og einn sona sinna á móðurmálinu og brýndi kvenlund sína með karlmannshuga. 22 „Ég veit ekki hvernig þið urðuð til í lífi mínu,“ sagði hún við þá. „Ekki var það ég sem gaf ykkur líf og anda og ekki kom ég skipan á frumefnin sem þið eruð úr. 23 Það er skapari heimsins sem mótar manninn þegar hann verður til og ákvarðar tilurð allra hluta. Þess vegna mun hann í miskunn sinni gefa ykkur anda og líf að nýju fyrir það að fórna ykkur fyrir lögmál sitt.“
24 Antíokkus hélt að konan væri að sýna sér lítilsvirðingu og gera gys að sér. Hann lagði sig fram um að fá yngsta soninn, sem einn var eftir á lífi, til að snúa baki við lögmáli feðra sinna. Hann hét honum auði og hamingju og að taka hann í hóp vina sinna og skipa hann í valdastöðu ef hann léti að vilja sínum.
25 En sveinninn lét sér fátt um finnast. Konungur kallaði þá á móður hans og hvatti hana til að gefa unga manninum þau ráð sem mættu verða honum til bjargar.
26 Eftir langar fortölur samþykkti hún að gera þetta. 27 Laut hún ofan að honum en það sem hún sagði á móðurmálinu var til háðungar grimmum harðstjóranum: „Sonur minn, vertu miskunnsamur við mig. Í níu mánuði bar ég þig undir hjarta og hafði þig á brjósti í þrjú ár. Ég annaðist þig og veitti þér allt sem þú þarfnaðist þar til þú náðir þessum aldri.
28 Ég bið þig, barnið mitt: Líttu upp til himins og horfðu á jörðina og allt sem á henni er. Hugsaðu um það að Guð skapaði þetta af engu og að mannkynið allt varð til á sama hátt. 29 Vertu óhræddur við þennan böðul. Gakktu fús út í dauðann svo að þú reynist bræðrum þínum samboðinn og ég fái þig aftur ásamt þeim fyrir Guðs náð.“
30 Um leið og hún hafði lokið máli sínu sagði sveinninn: „Eftir hverju bíðið þið? Ekki hlýði ég boðum konungs. Ég hlýði boðum lögmálsins sem Móse miðlaði feðrum okkar. 31 En þú, sem hefur beitt þér fyrir svo mörgu níðingsverki á Hebreum, munt ekki umflýja hegningu Guðs. 32 Við líðum vegna okkar eigin synda. 33 En þótt hinn lifandi Drottinn hafi um sinn beitt reiði sinni til að aga okkur og hirta mun hann að nýju sættast við þjóna sína. 34 En þú, guðlausa afhrak og andstyggilegastur allra manna. Þú skalt ekki ofmetnast af fáfengilegum órum. Það eru þjónar himinsins sem þú leggur hendur á 35 og enn hefur þú ekki umflúið dóm hins almáttuga og alskyggna Guðs. 36 Bræður okkar máttu þola kvalir skamma hríð. Þeir hafa nú hlotið fyllingu fyrirheits Guðs um eilíft líf en þú munt hljóta maklega hegningu í dómi Guðs fyrir hroka þinn. 37 Eins og bræður mínir legg ég nú líkama minn og sál í sölurnar fyrir lögmál feðranna og bið Guð að hann reynist brátt náðugur lýð sínum en að raunir og kvalir neyði þig til að viðurkenna að hann einn sé Guð. 38 Ég bið þess að reiði Hins almáttuga, sem með réttu kom yfir alla þjóð okkar, muni sefast vegna þess sem henti mig og bræður mína.“
39 Þessi háðsyrði gerðu konunginn svo æfan af reiði að hann lét leika drenginn enn verr en hina. 40 Þannig lét einnig hann lífið óflekkaður og í fullu trausti til Guðs.
41 Eftir dauða sonanna lét móðirin lífið.
42 Þá er nóg sagt um blótveislurnar og hinar grimmilegu misþyrmingar.