Alexander mikli

1 Alexander Filippusson frá Makedóníu vann sigur á Daríusi, konungi Persa og Meda, eftir að hann fór frá landi Kitta. Settist hann að völdum í stað Daríusar en hafði áður ríkt yfir Grikklandi. 2 Hann átti í sífelldum styrjöldum, tók hvert virkið af öðru og lagði konunga að velli víða um lönd. 3 Hann sótti fram allt að ystu endimörkum jarðar og rændi fjölmargar þjóðir. Enginn á jörðu mátti sín neins fyrir honum og gerðist hann hrokafullur og drambsamur í hjarta. 4 Hann safnaði óvígum her og drottnaði yfir löndum, þjóðum og furstum sem urðu skattskyldir honum.
5 Þá varð hann sjúkur og fann að dauðinn nálgaðist. 6 Kallaði hann til sín tignustu þjóna sína, sem alist höfðu upp með honum frá unga aldri, og skipti ríki sínu milli þeirra í lifanda lífi. 7 Er Alexander dó hafði hann ríkt í tólf ár.
8 Þjónar hans tóku við völdum hver á sínum stað. 9 Að Alexander látnum létu þeir allir krýna sig. Hið sama gerðu svo niðjar þeirra sem tóku við af þeim. Var svo um langt árabil og komu þeir miklu illu til leiðar á jörðinni.

Antíokkus Epífanes og trúníðingar meðal Gyðinga

10 Afsprengi þeirra var hrakmennið Antíokkus Epífanes, sonur Antíokkusar konungs. Hafði hann verið gísl í Róm og kom til ríkis á eitt hundrað þrítugasta og sjöunda ári gríska konungdómsins.
11 Um þessar mundir tóku nokkrir Ísraelsmenn að snúa baki við lögmálinu og afvegaleiddu marga. Þeir sögðu: „Við skulum gera sáttmála við heiðingjana sem búa umhverfis okkur því að margt hefur gengið okkur öndvert síðan við sögðum skilið við þá.“ 12 Þetta tal féll ýmsum vel í geð 13 og urðu sumir landa þeirra svo ákafir að þeir héldu til konungs sem gaf þeim leyfi til að taka upp heiðna lifnaðarhætti. 14 Byggðu þeir íþróttaleikvang í Jerúsalem að heiðinni fyrirmynd, 15 létu gera sér forhúð og gerðust fráhverfir sáttmálanum heilaga. Þeir lögðu lag sitt við heiðingja og létu kaupa sig til illra verka.

Herför Antíokkusar til Egyptalands

16 Þegar Antíokkus var orðinn fastur í sessi afréð hann að ná völdum í Egyptalandi og drottna yfir báðum ríkjunum. 17 Hann hélt gegn Egyptum með mikinn her, stríðsvagna og fíla og stóran flota. 18 Hann lagði til orrustu við Ptólemeus, konung Egypta, sem bar lægri hlut fyrir honum, var hrakinn á flótta og féllu margir sárir. 19 Lið Antíokkusar tók víggirtar borgir Egypta og mikið herfang í landi þeirra.

Antíokkus ofsækir Gyðinga

20 Þegar Antíokkus hafði unnið sigur á Egyptum hélt hann árið eitt hundrað fjörutíu og þrjú með mikinn herafla til Ísraels og Jerúsalem. 21 Í ofurdrambi sínu gekk hann inn í helgidóminn og tók gullaltarið og ljósastikuna og allt sem henni heyrði, 22 skoðunarbrauðaborðið, dreypifórnarbollana, skálarnar, gullreykelsiskerin og fortjaldið. Krönsunum og allri gullskreytingunni á forhlið musterisins lét hann fletta af. 23 Hann tók silfur og gull og verðmæt áhöld og allt sem hann fann af fjársjóðunum sem í musterinu voru fólgnir. 24 Þetta allt tók hann og hafði með sér heim í land sitt. Hann olli blóðbaði og var afar digurbarkalegur í tali.
25 Þá varð harmur mikill hvarvetna í Ísrael.
26 Leiðtogar og öldungar hófu upp kveinstafi,
meyjar og sveinar misstu móðinn,
blómi kvenna bliknaði.
27 Sérhver brúðgumi hóf harmsöng,
hver brúður grét í dyngju sinni.
28 Landið skalf vegna þeirra er það byggðu,
öll Jakobs ætt hjúpaðist smán.

Jerúsalem hertekin

29 Tveimur árum síðar sendi konungur embættismann til að innheimta skatt í borgum Júda. Hann kom til Jerúsalem með mikinn her. 30 Hann friðmæltist við fólkið með fagurgala en svik bjuggu undir. Er hann hafði vakið traust þess réðst hann óvænt á borgina og gjörsigraði hana og féllu margir Ísraelsmenn. 31 Hann rændi borgina, lagði eld að henni og reif niður bæði húsin og múrana umhverfis hana. 32 Konur og börn voru hneppt í þrældóm og búsmali tekinn herfangi. 33 Konungsmenn reistu mikla og sterka múra umhverfis Davíðsborg, bjuggu þá sterkum turnum og komu sér upp virki á þann hátt. 34 Það mönnuðu þeir heiðnum syndurum og lögmálsbrjótum sem bjuggu tryggilega um sig. 35 Virkið bjuggu þeir vopnum og vistum og komu ránsfengnum frá Jerúsalem þar fyrir. Varð mikil ógnun að vígi þessu:
36 Það varð staður til árása á helgidóminn,
stöðugur ógnvaldur Ísraels.
37 Saklausu blóði var úthellt umhverfis musterið,
helgidóminn saurguðu þeir einnig.
38 Vegna þessara manna flýðu íbúar Jerúsalem
svo að borgin varð bústaður framandi manna.
Hún varð ókunn niðjum sínum,
yfirgefin af eigin börnum.
39 Helgidómur hennar eyddist og varð sem auðn,
hátíðir hennar urðu sorgardagar,
hvíldardagarnir háðung
og heiður hennar vansæmd.
40 Vanvirða hennar varð slík sem tign hennar var fyrr,
vegsemd hennar snerist í sorg.

Eitt ríki, ein þjóð, ein trú

41 Konungur sendi bréf um allt ríki sitt um að allir þegnar hans skyldu verða ein þjóð. 42 Bauð hann sérhverjum að snúa baki við siðum sínum. Allar þjóðir lutu boði konungs 43 og ýmsum í Ísrael geðjaðist guðsdýrkun hans vel. Færðu þeir hjáguðum fórnir og vanhelguðu hvíldardaginn.
44 Konungur sendi boðbera til Jerúsalem og borga Júdeu með bréf um að framandi siðum skyldi fylgt. 45 Brennifórnir, sláturfórnir og dreypifórnir skyldu aflagðar í helgidóminum og afhelga átti hvíldardaga og hátíðir, 46 saurga musterið og svívirða prestana. 47 Reisa skyldi ölturu, helgistaði og hof fyrir goðin og fórna svínum og öðrum óhreinum dýrum. 48 Drengi mátti ekki framar umskera en sál þeirra saurga með alls kyns flekkun og vanhelgun 49 svo að lögmálið gleymdist og öllum fyrirmælum þess yrði umsnúið. 50 Dauðarefsing lá við að óhlýðnast boðum konungs. 51 Þessi og áþekk fyrirmæli sendi konungur um allt ríki sitt. Setti hann eftirlitsmenn til að gæta þess að allir fylgdu þeim og tilskipun um fórnir sendi hann sérhverri borg í Júdeu. 52 Margir af þjóðinni urðu handgengnir konungsmönnum, allir sem gerðust fráhverfir lögmálinu. Létu þeir margt illt af sér leiða í landinu 53 og hröktu Ísraelsmenn í felur hvar sem þeir gátu leitað hælis.

Hjáguðadýrkun í húsi Guðs

54 Fimmtánda dag kíslevmánaðar árið eitt hundrað fjörutíu og fimm[ lét konungurinn reisa viðurstyggð eyðingarinnar á fórnaraltarinu og reisa ölturu víðs vegar í borgum Júdeu. 55 Fyrir dyrum húsa og á götum úti var reykelsi brennt. 56 Þær lögmálsbækur sem fundust voru rifnar og brenndar. 57 Fyndist sáttmálsbók í fórum einhvers var hann dauðasekur að boði konungs og einnig sá sem hafði mætur á lögmálinu. 58 Mánuðum saman sættu Ísraelsmenn, sem fundust í borgunum, grimmilegu aðkasti.
59 Tuttugasta og fimmta dag mánaðarins færðu þeir fórnir á altarinu sem reist var ofan á fórnaraltarinu. 60 Að fyrirmælum konungs voru konur, sem létu umskera syni sína, teknar af lífi. 61 Voru ungbörnin hengd um háls þeirra. Einnig voru heimamenn þeirra og þeir sem önnuðust umskurnina deyddir.
62 En margir í Ísrael voru staðfastir og staðráðnir í að eta ekkert óhreint. 63 Þeir kusu fremur að deyja en að saurga sig á mat og vanvirða sáttmálann heilaga og létu þeir lífið. 64 Máttug reiði þjakaði Ísrael mjög.