Gegn Jerúsalem

1 Boðskapur um Sýnadal:
Hvað hefur komið fyrir þig
fyrst allir íbúarnir eru farnir upp á þökin,
2þú hávaðasama borg, full af skarkala,
fagnandi virki?
Íbúar þínir, sem féllu,
féllu ekki fyrir sverði,
þeir létu ekki lífið í orrustu.
3Allir leiðtogar þínir flýðu í einu
og náðust án þess að skotið væri af boga.
Allir, sem til náðist, voru gripnir
þó að þeir hefðu flúið langt.
4Þess vegna segi ég:
„Horfið ekki á mig,
ég verð að gráta beisklega.
Reynið ekki að hugga mig
því að dóttir þjóðar minnar er eydd.“
5Dagur skelfingar, eyðingar og upplausnar
kom frá Guði, Drottni allsherjar, í Sýnadal.
Múrarnir voru brotnir niður,
neyðaróp glumdu í fjöllunum.
6Elam tók örvamæli,
mannaði hervagna dregna af hestum
og Kír tók fram skjöldinn.
7Fegurstu dalir þínir fylltust hervögnum,
riddarar fylktu liði gegn borgarhliðinu.
8Hann svipti [ burt vörn Júda.
Á þeim degi leist þú eftir herbúnaðinum í Skógarhúsinu. 9 Þér sáuð að margar sprungur voru í múrum Davíðsborgar og söfnuðuð vatni í neðri tjörnina, 10 tölduð húsin í Jerúsalem og rifuð nokkur þeirra til að treysta með borgarmúrinn. 11 Þér gerðuð þró milli beggja borgarmúranna fyrir vatnið úr gömlu tjörninni. En þér lituð ekki til þess sem hafði gert þetta, sáuð ekki að hann hafði mótað það fyrir löngu.
12Guð, Drottinn allsherjar,
hvatti menn á þeim degi til að gráta og kveina,
til að raka á sig skalla og gyrða sig hærusekk.
13En þess í stað ríkti glaumur og gleði,
naut voru felld, sauðum slátrað,
kjöt snætt og vín drukkið:
„Etum og drekkum
því að á morgun deyjum vér.“
14En Drottinn allsherjar lét hljóma í eyrum mínum:
„Þessi sekt verður yður ekki fyrirgefin
fyrr en þér deyið,“
segir Guð, Drottinn allsherjar.

Um tvo hirðmenn

15 Svo segir Guð, Drottinn allsherjar:
Farðu til bústjórans hérna, Sebna hallarráðsmanns, og segðu:
16Hvað leyfirðu þér að gera
og hvern áttu hér að
fyrst þú lætur höggva þér gröf hér?
Þú heggur þér gröf hátt uppi
og meitlar þér bústað í klettinum.
17En Drottinn mun fleygja þér burt, mikilmenni,
hann þrífur þig,
18vöðlar þér þétt saman
og þeytir þér eins og bolta út á víðan vang.
Þar muntu deyja og þar verða glæsivagnar þínir,
þú sem ert fjölskyldu húsbónda þíns til skammar.
19Ég steypi þér úr stöðu þinni, rek þig úr embætti þínu.
20 Á þeim degi mun ég kalla þjón minn, Eljakím Hilkíason. 21 Ég færi hann í kyrtil þinn, gyrði hann belti þínu og fæ honum völd þín í hendur. Hann skal verða faðir Jerúsalembúa og ættbálks Júda. 22 Ég legg lykilinn að húsi Davíðs á herðar honum. Þegar hann læsir fær enginn lokið upp og ljúki hann upp fær enginn læst. 23 Ég rek hann niður sem tjaldhæl á haldgóðan stað og hann hlýtur heiðurssætið í ætt föður síns. 24 Allur þungi föðurættar hans mun hvíla á honum, bæði brum og blöð, smákerin, bæði skálar og krúsir. 25 Á þeim degi, segir Drottinn allsherjar, mun naglinn, sem negldur var fastur á haldgóðan stað, láta undan. Hann losnar og fellur niður og allt, sem á honum hékk, mun brotna því að það hefur Drottinn sagt.