Gegn Móab: Eyðing Móabs

1 Um Móab.
Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels:
Vei, Nebó, hún er lögð í eyði, Kirjataím fallin,
virkið er orðið til skammar, lagt í rúst,
2vegsemd Móabs er horfin.
Í Hesbon brugguðu menn ill ráð gegn ríkinu:
„Komið, upprætum þá sem þjóð.“
Madmen, þú munt einnig þagna, sverðið eltir þig. [
3Heyrið kveinið frá Hórónaím, eyðing og tortíming.
4Móab er molaður, kveinin heyrast allt til Sóar.
5Menn ganga grátandi upp stíginn við Lúkít,
á veginum niður til Hórónaím
heyrast skelfingaróp vegna tortímingarinnar.
6Flýið, bjargið lífi yðar,
verðið sem villiasnar í eyðimörkinni.
7Þar sem þú treystir eigin verkum og auði
verður þú unnin,
Kamos mun fara í útlegð
ásamt prestum sínum og höfðingjum.
8Eyðandinn ræðst á sérhverja borg,
engin borg mun bjargast.
Dalurinn verður eyddur
og sléttunni spillt
eins og Drottinn hefur sagt.
9Reisið minnisstein yfir Móab
því að honum verður tortímt,
borgirnar verða lagðar í auðn,
enginn mun búa þar framar.
10Bölvaður sé sá sem hikar við að vinna verk Drottins.
Bölvaður sé sá sem synjar sverði sínu um blóð.
11Móab naut friðar frá æsku,
hann hvíldi í næði eins og vín á dreggjum.
Honum var ekki hellt úr einu keri í annað
og hann fór aldrei í útlegð.
Því varðveitti hann bragð sitt
og ilmurinn breyttist ekki.
12Þeir dagar koma, segir Drottinn,
þegar ég sendi menn til að hella úr honum,
þeir munu tæma ker hans, brjóta krukkur hans.
13Móab verður smánaður af Kamos
eins og Ísraelsmenn voru smánaðir af Betel sem þeir treystu.
14Hvernig getið þér sagt: „Vér erum hetjur,
hraustir hermenn?“
15Eyðandi Móabs heldur upp eftir gegn borgum hans
en blómi æskumanna hans fer niður eftir og verður slátrað,
segir konungurinn, Drottinn hersveitanna er nafn hans.
16Tortíming Móabs er í nánd,
ógæfan dynur brátt yfir hann.
17Sýnið honum samúð, nágrannar hans,
og allir sem þekkið nafn hans.
Segið: „Hvers vegna brast hinn sterki stafur,
hinn dýrlegi veldissproti?“

Frásögn flóttamannanna

18Stíg niður úr vegsemdinni, sestu í skarnið,
dóttir, sem býrð í Díbon,
því að eyðandi Móabs heldur gegn þér
og brýtur varnarvirki þín.
19Þú sem býrð í Aróer,
gakktu út á götuna og horfðu í kringum þig,
spyrðu flóttamanninn og konuna sem komist hefur undan: „Hvað gerðist?“
20Móab var niðurlægður, já, niðurbrotinn.
Grátið og kveinið.
Kunngjörið við Arnon:
Móab hefur verið eytt.
21Refsidómur kom yfir sléttlendið,
yfir Hólon, Jahsa og Mefaat,
22 yfir Díbon, Nebó og Bet-Díblataím,
23 yfir Kirjataím, Bet-Gamúl og Bet-Meon,
24 yfir Keríót og yfir Bosra,
yfir allar borgir í Móab, nær og fjær.
25 Horn Móabs var höggvið af,
armur hans brotinn, segir Drottinn.
26 Gerið Móab drukkinn
því að hann hefur hreykt sér gegn Drottni,
hann skal því spýja og verða að athlægi.
27 Varð Ísrael þér ekki aðhlátursefni?
Var hann gripinn meðal þjófa
fyrst þú skekur þig háðslega
í hvert skipti sem þú nefnir hann?
28 Flýið borgirnar, setjist að í klettunum,
þér, sem búið í Móab,
farið að eins og dúfan
sem gerir sér hreiður í klettum, í gapandi gjá.

Hroki Móabs

29 Vér höfum heyrt um hroka Móabs,
hann er fram úr hófi hrokafullur.
Um hroka hans og stolt höfum vér heyrt,
um dramb hans og ofmetnað.
30 Ég veit sjálfur um oflæti hans, segir Drottinn,
marklaus gífuryrði og einskisverð verk.
31 Þess vegna græt ég yfir Móab,
ég harma allan Móab,
kveina yfir fólkinu í Kír-Heres.
32 Ég græt meira yfir þér, vínviður í Síbma,
en yfir Jeser,
greinar þínar héngu út yfir hafið,
þær náðu til Jeser.
Eyðandinn kastaði sér yfir uppskeru þína
af ávöxtum og víni.
33 Fögnuður og gleði er horfin
úr víngörðunum og úr Móabslandi.
Vínið er þorrið í vínpressunum,
enginn treður þær lengur,
fagnaðarópin eru þögnuð.

34 Kveinið frá Hesbon og Eleale glymur til Jahas, menn æpa frá Sóar til Hórónaím og Eglat-Selisía, já, vatnsfarvegurinn við Nimrím breytist í eyðimörk.
35 Ég mun hindra, segir Drottinn, að Móab færi brennifórnir á fórnarhæðinni og kveiki guðum sínum fórnareld. 36 Hjarta mitt titrar vegna Móabs eins og flaututónn og hjarta mitt titrar eins og flaututónn vegna fólksins frá Kír-Heres því að það hefur misst það sem eftir var af eigum þess. 37 Sérhvert höfuð er rakað, hvert skegg hefur verið skorið af, á hverjum handlegg eru skinnsprettur, um lendarnar hærusekkur. 38 Á hverju þaki og hverju torgi í Móab heyrist harmagrátur því að ég hef mölbrotið Móab eins og gagnslaust leirker, segir Drottinn. 39 Æ, hversu niðurbrotinn er hann. Hversu skammarlega sneri Móab baki í fjandmennina og flýði. Og Móab er orðinn til athlægis og skelfingar öllum nágrönnum sínum.

Dómur yfir Móab

40 Svo segir Drottinn:
Óvinurinn kemur svífandi eins og örn
og þenur vængina út yfir Móab.
41 Borgirnar eru unnar,
fjallavirkin fallin,
þann dag líður köppunum í Móab
eins og konu í barnsnauð.
42 Móab verður afmáður,
hann verður ekki þjóð framar
því að hann hreykti sér gegn Drottni.
43 Geigur, gryfja og gildra ógna þér
sem býrð í Móab, segir Drottinn.
44 Sá sem flýr geiginn
fellur í gryfjuna,
sá sem kemst upp úr gryfjunni
lendir í gildrunni.
Já, þetta sendi ég yfir Móab
árið sem hann verður dreginn til ábyrgðar.
45 Í skugga Hesbons standa örmagna flóttamenn
en eldur brýst út úr Hesbon,
borg Síhons stendur í ljósum logum.
Eldurinn sleikir þunnvanga Móabs,
hvirfil hávaðamannanna.
46 Vei þér, Móab.
Þú, þjóð Kamoss, ert glötuð.
Synir þínir eru hraktir í útlegð,
dætur þínar teknar til fanga.
47 Því næst mun ég snúa högum Móabs, segir Drottinn.
Hér lýkur dómsorðunum yfir Móab.