Guðbrandsbiblía 1584

Biblia | Þad Er, Øll | Heilỏg Ritning, vtlỏgd | a Norrænu. | Med Formalum Doct. | Martini. Lutheri. | Prentad a Holum, Af | Jone Jons Syne | M D LXXXIIII.

Prentun Guðbrandsbiblíu lauk 21. apríl 1584. Útgáfudagur var 6. júní 1584, en bókin mun þó ekki hafa farið að koma úr bandi fyrr en árið 1585. Þýðingin er kennd við Guðbrand Þorláksson (1541/1542–1627) sem þá var biskup á Hólum í Hjaltadal.

Guðbrandur notaði, að svo miklu leyti sem hægt var og til náðist, eldri þýðingar í hina miklu smíð, og jafnframt sínar eigin. Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (1514/1515–1556), sem út hafði komið árið 1540, tók hann upp eftir að hafa yfirfarið það, leiðrétt villur o.s.frv. Sumt var það til bóta en annað ekki. Aðrir sem vitað er um að áttu hlut að máli voru Gissur Einarsson (um 1512–1548) og e.t.v. Gísli Jónsson (um 1515–1587) og Ólafur Hjaltason (um 1491–1569).

Guðbrandsbiblía er talin vera eitthvert mesta bókmenntaafrek þjóðarinnar og einhver mesti skerfur til íslenskrar menningarsögu, fyrr og síðar. Að því er sagnir herma eiga sjö menn að hafa unnið við prentun hennar í eitt og hálft eða tvö ár.

Hún var prentuð í 500 eintökum. Brotið var stórt, svokallað fólíó, og blaðsíður 1.254.

Til nýjunga heyrði í íslenskri bókagerð að Biblían var skreytt myndum, hátt í 30 talsins.

Hvert eintak kostaði 8–12 ríkisdali sem var feiknaverð á þeim tíma og svaraði til tveggja eða þriggja kýrverða.

Guðbrandsbiblía er ein af örfáum fyrri alda útgáfum sem endurprentaðar hafa verið í óbreyttri mynd og það í tvígang. Fyrst var hún ljósprentuð og útgefin af Lithoprenti á árunum 1956–1957, í 500 eintökum, og síðan ljósprentuð og gefin út öðru sinni af bókaforlaginu Lögbergi, árið 1984, í 400 eintökum.


Texti Guðbrandsbiblíu hér á vefnum var unninn fyrir vefinn af Jóni Hjörleifi Stefánssyni. Hægt er að nálgast ljósprent af upphaflegum texta Guðbrandsbiblíu á vefsvæði Landsbókasafns – Háskólabókasafns, baekur.is. Slóðin á Guðbrandsbiblíu er http://baekur.is/is/bok/000036975/Biblia_thad_er_oll_heilog

Lýsing Guðbrandsbiblíu hér að ofan var skrifuð fyrir sýningarskrá sýningarinnar „Þann arf vér bestan fengum“ sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni 26. september 2015.