Bókin Ester

I.

Það skeði á dögum Assveri hver eð ríkti yfir hundrað sjö og tuttugu þjóðlöndum, frá India og allt til Blálands. [ Og sem hann sat á sínu kónglegu hásæti í þeim kónglega stað Súsan á þriðja ári hans ríkis gjörði hann eitt gestaboð öllum sínum höfðingjum og þénurum og þeim villdustu af Persia og Media, landstjórnurum og þeim æðstu mönnum í sínum löndum og vildi hér með láta sjá sína kónglega dýrð og mikilsháttar ríkdóm síns tignarveldis um marga daga, sem var hundrað og áttatígi dagar.

Og sem þessir dagar fengu enda gjörði kóngurinn eitt gestaboð öllu því fólki sem var á Súsansloti, bæði smám og stórum, í sjö daga í því hósi sem var í aldingarðinum hjá kóngsins húsi. Þar héngu hvít, rauð og gul tjöld af silki og skarlati á marmarastólpum, á guðvefjar- og skarlatsstögum fest í silfurhringa. Bekkirnir voru af gulli og silfri en gólfið var lagt með gulum, grænum, hvítum og svörtum marmarasteinum. Og þénararnir báru drykkinn inn í gulllegum kerum og aldrei í sömum heldur í öðrum og öðrum kerum. Og kóngsins vín var yfirgnæfanlegt svo sem kóngsins tign tilheyrði. Og að öngvum var haldið hvað mikið hver skyldi drekka því kóngurinn hafði svo boðið öllum sínum þénurum í sínu húsi að hver skyldi gjöra sem honum best líkaði.

Og hans drottning Vastí gjörði og svo einnin eitt kvennagestaboð í þeim konunglega sal Assveri kóngs. [ Og á þeim sjöunda degi sem kóngurinn var orðinn glaður af víni þá bauð hann Mehúmam, Bista, Harbóna, Bigta, Abagta, Setar og Karkas, þessum sínum sjö herbergjasveinum, þeir eð Assvero kóngi þjónuðu, að þeir skyldu sækja Vastí drottningu og leiða hana inn fyrir kónginn með sinni kónglegri kórónu svo að höfðingjarnir og allur lýður mætti sjá hennar fegurð, því hún var harla væn. En Vastí drottning vildi ekki koma eftir skipan kóngsins sem hann bauð henni fyrir sína herbergjasveina. Þá varð kóngurinn mjög reiður svo hans grimmd brann í hans hjarta.

Og kóngurinn talaði við þá vísustu hverjir að best vissu landsins rétt og ætíð voru kónginum nálægir, því að konungleg málaferli urðu jafnan að koma fyrir þá hyggnustu. En þessir voru kónginum næstir: Karsena, Setar, Admata, Tarsís, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingjar Persarum og Medorum, hverjir að sáu kóngsins andlit og fyrstu sæti höfðu í ríkinu, hvern dóm að dæma skyldi um Vastí drottningu fyrir það að hún hafði ekki gjört eftir kóngsins boði sem hann bauð fyrir sína herbergjasveina.

Þá sagði Memúkan að áheyranda kónginum og höfðingjunum: „Vastí drottning hefur ekki alleinasta misgjört við kónginn heldur og svo við alla höfðingjana og við allar þjóðír þær sem að eru í öllum löndum Assveru kóngs. Því að þessi drottningarinnar breytni mun útberast til allra kvenna so að þær munu fyrirlíta sína menn undir þeirra augu og munu svo segja: Assverus kóngur bauð sinni drottningu Vastí að koma fyrir sig en hún vildi ekki. So munu allar höfðingjakvinnur í Persia og Meden segja til allra kóngsins höfðingja þá þær spyrja og frétta hvað drottningin hefur gjört. Svo mun þar af koma nóg reiði og fyrirlitning.

Nú þar fyrir ef kónginum virðist svo þá láti hann útganga eitt konunglegt boð og láti það skrifa eftir lögmáli Persarum og Medorum hvert að órjúfanlegt er að Vastí skuli ekki meir koma fyrir Assverum kóng heldur að kóngurinn gefi annarri hennar ríki sem henni er næst hver að betri er en hún og að þetta kóngsins bréf sem gjört verður útberist um allt hans ríki sem mjög er vítt svo að allar kvinnur hafi og haldi sína menn í heiðri hvert þeir eiga að sér meira eða minna.“ Þetta ráð þóknaðist kónginum vel og so öllum hans höfðingjum. Og kóngurinn lét gjöra hér um eftir orðum Memúkan. Og þegar strax voru bréfin send út um öll kóngsins lönd, í sérhvert land eftir þess skrifi og til sérhvers fólks eftir þess tungumáli, að hver maður skal vera ráðandi í sínu eigin húsi og að þetta skyldi útberast eftir hvers fólks tungumáli.