XXII.

Og Satan reis upp í móti Ísrael og skaut Davíð í hug að hann léti telja Ísraelslýð. [ Og Davíð sagði til Jóab og til höfðingjanna fólksins: „Farið og teljið Ísrael frá Berseba og allt til Dan og kunngjörið mér það aftur að eg viti hversu margur að hann er.“ Jóab svaraði: „Drottinn hundraðfaldi sitt fólk fram yfir það sem nú er það margt. En minn herra kóngur, eru þeir ekki allir míns herra þénarar? Hvar fyrir vill minn herra vita þetta? Því skal skuld koma á Ísrael?“

En það gekk fram sem kóngur vildi í móti Jóab. [ Og Jóab fór af stað og reisti í gegnum allan Ísrael og kom til Jerúsalem. Og hann fékk Davíð manntal fólksins. Og allur Ísrael var ellefu sinnum hundrað þúsund manns sem vopnfærir voru. En af Júda fjórum sinnum hundrað þúsund og sjötígi þúsundir vopnfærra manna. En Leví og Benjamín taldi hann ekki með þessum því að Jóab gjörði nauðugur þessa kóngsskipan.

En þetta mislíkaði Guði og hann sló Ísrael. Og Davíð sagði til Guðs: „Eg hefi þunglega syndgast að eg gjörði slíkt. En tak nú burt misgjörning þíns þénara því að eg hefi gjört mjög fávíslega.“

Og Guð Drottinn talaði með Gað Davíðs sjáanda og sagði: [ „Far þú, tala við Davíð og seg þú honum: Svo segir Drottinn: Þrjá hluti legg eg fyrir þig, kjós þú hvern þú vilt að eg gjöri þér.“ Og þá Gað kom til Davíðs sagði hann til hans: „Svo segir Drottinn: Kjós þér hvort þú vilt þriggja ára hallæri eða að þú flýir þrjá mánaði fyrir þínum fjandmönnum og fyrir sverði þinna óvina að það grípi þig eða að Drottins sverð og drepsótt gangi um í þrjá daga í landinu að engill Drottins slái í hel í öllum Ísraels landsálfum. So sjá nú til hversu eg skal svara þeim sem mig útsendi.“ Davíð sagði til Gað: „Mjög þrengjunst eg. En þó kýs eg að falla í hönd Drottins því að hans miskunn er mjög mikil en ekki vil eg falla í mannanna hendur.“

Þá lét Drottinn drepsótt koma yfir Ísrael so þar féllu sjötígi þúsundir manna af Ísraelsfólki. [ Og Guð sendi engilinn til Jerúsalem að slá hana. Og þá hann var að slá leit Drottinn til og hann angraðist yfir því inu vonda og sagði til engilsins sem sló (fólkið): „Það er nóg, þín hönd láti af.“ En engill Drottins stóð hjá lauagarði Arnan Jebusiter. Og Davíð upplyfti sínum augum og sá engil Drottins standa á millum himins og jarðar og hafði brugðið sverð í sinni hendi og rétti það yfir Jerúsalem. Þá féll Davíð fram til jarðar og þeir inu elstu með honum, klæddir [ sekkjum. Og Davíð sagði til Guðs: „Hvert er eg eigi sá sem bauð að telja fólkið? Eg er sá sem syndgaðist og gjörði það hið vonda – hvað hafa þessir sauðir gjört? Drottinn Guð minn, snúist þín hönd í gegn mér og míns föðurs húsi en lát þitt fólk eigi slást.“

Engillinn sagði til Gað og bauð honum að segja Davíð að hann skyldi stíga upp og reisa Drottni eitt altari í lauagarði Arnan Jebusither. Og Davíð gekk upp eftir orði Gað sem hann sagði til hans í nafni Drottins. En sem Arnan snerist við og sá engilinn og hans fjórir synir með honum fóru þeir að fela sig því að þeir voru að þreskja hveiti. En sem Davíð gekk til Arnan leit Arnan við og sá Davíð. Hann gekk út af lauagarðinum og féll til jarðar og laut Davíð.

Og Davíð sagði til Arnan: [ „Gef mér þinn lauagarð so eg megi byggja altari Drottni. Fyrir fulla peninga skalt þú gefa mér hann so að plágan megi takast af fólkinu.“ Arnan svaraði Davíð: „Tak hann til þín og gjör, herra kóngur, hvað þér þóknast. Sjá, eg gef uxana til brennioffurs og okin til viðar og hveiti til matoffurs, það gef eg allt saman.“ Davíð kóngur sagði til Arnan: „Ekki skal svo vera heldur vil eg kaupa þetta fyrir fulla peninga. Því að ei vil eg taka það sem þér tilheyrir fyrir Drottni og eigi heldur gefa það sem eg þigg kauplaust til brennifórnar.“ So gaf Davíð Arnan fyrir lauagarðinn sex hundruð sekel gulls að vikt. Og Davíð reisti Drottni þar eitt altari og færði þar yfir brennifórnir og þakklætisfórnir. Og sem hann ákallaði Drottin þá bænheyrði hann hann af himni fyrir eldinn yfir brennioffursins altari. Og Drottinn sagði til engilsins: „Lát þitt sverð í sínar slíðrir.“

Á þeim sama tíma þá Davíð sá það að Drottinn hafði bænheyrt hann í þeim lauagarði Arnan Jebusiter þá plagaði hann að færa þar fórnir. [ Því að Drottins tjaldbúð sem Móses gjörði í eyðimörkinni og það brennifórnaaltarið var í þann tíma á hæðinni í Gíbeon og gat Davíð ekki farið þangað að leita Guðs, so var hann hræddur orðinn fyrir sverði Drottins engils. Og Davíð sagði: „Hér skal Drottins Guðs hús vera og þetta altarið til brennifórna Ísrael.“