IX.

Guð minna forfeðra og Drottinn allrar gæsku, þú sem alla hluti gjörðir fyrir þitt orð og fyrir þína speki hefur manninn tilreitt að hann skyldi drottna yfir skepnunum sem þú hefur skapað, að hann skyldi stýra heiminum með heilagleika og réttlæti og dæma með réttvísu hjarta: [ Gef mér þá speki sem ætíð er í kringum þinn veldisstól og útkasta mér ei frá þínum börnum. Því eg er þinn þræll og sonur ambáttar þinnar, ein óstyrk manneskja og stundleg og of skilningsveik í þínum réttindum og lögmáli. Og þó að nokkur á meðal mannanna sona væri fullkominn þá gildir hann ekkert ef hann hefur eigi þá speki sem frá þér kemur.

Þú útvaldir mig til kóngs yfir þinn lýð og að vera dómari yfir sonum þínum og dætrum og bauðs mér að byggja eitt musteri á þínu heilaga fjalli og eitt altari í þeim stað sem þú býr, hvert að vera skyldi líkt þeirri heilögu tjaldbúð sem þú lést forðum gjöra og þín speki með þér, hver eð veit þín verk og þar var nálæg þá þú gjörðir heiminn og veit hvað þér vel líkar og hvað rétt er í þínum boðorðum. [

Send hana hingað ofan af þínum heilaga himni og af þínu dýrðarveldissæti, send hana so að hún sé hjá mér og erfiði meður mér so að eg kunni að skilja hvað þér vel þóknast. Því að hún veit alla hluti og skilur það. Og lát hana leiða mig skikkanlega fram í mínum verkum og varðveita mig fyrir sína vegsemd. Þá munu þér þóknast mín verk og eg mun dæma þitt fólk réttvíslega og maklegur vera míns föðurs hásætis.

Því hver er sá maður sem veit Guðs ráð eða hver kann að hugsa Guðs vilja? [ Því að dauðlegs manns hugsanir eru efasamar og vort áform er háskasamlegt. Því að dauðlegur líkami þyngir sálina og þetta jarðlegt hreysi niðurþykkir tvístruðu hugskoti. Vér hittum naumlega á það sem á jörðunni er og finnum það varla sem á milli handanna er. Hver vill þá rannsaka það sem er á himnum? Hver vill vita þitt ráð utan so sé að þú gefir spekina og sendir þinn heilagan anda af hæðinni og að verkin á jörðunni verði réttvís og mennirnir læri hvað þér vel þóknast og verði sáluhjálplegir fyrir spekina?