Drottinn mælti við Mósen og Aron í Egyptalandi og sagði: „Þessi mánuður skal vera hinn fyrsti mánuður meðal yðar og hann skal yður vera sá fyrsti mánuður ársins. [ Talið til alls almúgans af Ísrael og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka eitt lamb fyrir sitt hús, já eitt lamb fyrir hvört hús. [ En ef þeir eru ekki so margir í húsinu að þeir geti uppetið lambið þá skal hann taka sinn næsta nágranna til sín, þar til að þeir eru so margir að þeir geta uppetið lambið.

En þér skuluð taka það lamb sem engin lýti hefur, eitt hrútlamb ársgamalt. Það skulu þér taka af lömbunum og af kiðunum. Og það skulu þér geyma til fjórtánda dags í þeim mánuði. Og allur mannfjöldi Ísraels skal sæfa það að kveldi dags. Og þeir skulu taka af blóðinu og ríða því á báða dyrastafina og á það efsta dyratréð þess hússins þar þeir eta það inni. Og þá sömu nótt skulu þér eta það kjöt sem er steikt við eld með ósýrðu brauði og með beisku salti. Þér skuluð ekki eta það hrátt og ekki soðið í vatni, heldur steikt við eld með þess höfði og fótum og innyflum. Ekki skulu þér leyfa nokkuð þar af til morguns. En ef nokkuð gengur af til morguns, það skuluð þér uppbrenna í eldi.

Og so skulu þér þess neyta: Gyrða skulu þér lendar yðar og hafið skó á yðrum fótum og staf í yðrum höndum. [ Og þér skuluð eta það so sem þeir eð fljótlega vilja ferðast. Því það er Drottins páskar. Því að ég vil fara um Egyptaland þessa sömu nótt og drepa allan frumburð í Egyptalandi, bæði á meðal manna og fénaðar. Og ég vil auðsýna mína refsing á öllum skúrgoðum egypskra manna. Ég er Drottinn. Og það blóð skal vera yðvart mark á þeim húsum þar sem þér inni eruð, að þar sem ég sé blóðið þar vil ég ganga fram hjá yður. Og þar skal enginn plága koma á yður sem yður fordjarfi nær ég slæ Egyptaland.

Og þann sama dag skulu þér halda til minningar og hann skulu þér og yðar eftirkomendur halda Drottni helgan til eirnrar hátíðar, þér og allir yðrir eftirkomendur, á tilsettum tíma. [ Ósýrt brauð skulu þér eta í sjö daga, sem er: þann fyrsta dag skal burt takast súrt brauð úr yðrum húsum. Hver sem etur súrt brauð frá þeim fyrsta degi allt til þess sjöunda, hans sál skal upprætast af Ísrael. Sá fyrsti dagur skal vera helgur að þér komið þá til samans. Sá sjöundi skal og vera helgur að þér komið þá til samans. Ekkert erfiði skuluð þér fremja á þeim dögum, utan það sem til matgjörða heyrir handa allsháttuðum sálum, það megi þér aðeins gjöra.

Og þér skuluð halda ósýrðra brauða hátíð. [ Því að á þann sama dag færða ég yður her út af Egyptalandi. Þar fyrir skulu þér og allir yðar eftirkomendur halda þennan dag til eirnrar ævinlegrar skikkanar. Þann fjórtánda dag í mánaðinum að kveldi skulu þér ósýrt brauð eta og til þess tuttugasta og fyrsta dags í sama mánaði að aftni. Þar skal ekki finnast sýrt brauð í yðrum húsum á þeim sjö dögum. Því hver sem etur sýrt brauð, hans sál skal upprætast frá Ísraelis samkundu, hvert hann er heldur tilkomandi eður innbyggjari í landinu. Þar fyrir, etið með öllu ekkert sýrt brauð heldur einskostar ósýrt brauð í öllum yðar hýbýlum.“

Þá kallaði Móses alla þá elstu af Ísrael til saman og sagði til þeirra: „Útveljið og takið yður sauði, sérhver til síns heimkynnis, og slátrið páskalambi. Og takið eitt bindini með ýsóp og drepið því í blóðið það sem er í mundlauginni og ríðið því framan á dyratréð og so á báða dyrastólpana. Og engin manneskja skal fara út fyrir dyrnar á sínu húsi fyrr en að morni. Því að Drottinn vill fara um kring og ljósta þá egypsku. Og þar hann sér blóðið á dyratrénu og á báðum dyrastólpunum þá mun hann ganga fram hjá um þær dyr og láta ekki fordjarfan koma í yðar hús að skaða yður. Þar fyrir halt þessa skikkan fyrir þig og þín börn ævinlega.

Og þegar þér komið í það land sem Drottinn mun gefa yður so sem hann hefur sagt þá haldið þessa þjónustugjörð. Og þá yðar börn segja til yðar: Hvað er þetta fyrir þjónustugjörð? Þá skulu þér svara: Það er Drottins páskaoffur sem gekk framhjá Ísraelis fólki í Egyptaland þá hann sló Egyptana en frelsaði vor hús.“ Þá féll fólkið fram og baðst fyrir. Og Ísraelissynir gengu í burt og gjörðu so sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aron.

Og um miðnáttartíma drap Drottinn allan frumburð í Egyptalandi, frá faraónis frumgetna syni sem sat á hans stóli og allt til frumgetnings þess sem sat í myrkvastofu, og so fénaðarins frumburð. [

Þá stóð faraó upp og allir hans þénarar og so allur landslýður á þeirri nóttu og þar gjörðist eitt mikið óp í Egyptalandi. Því að þar var ekki eitt hús að ei væri dauður maður inni. Og hann kallaði á Mósen og Aron um nóttina og sagði: „Takið yður upp og farið frá mínu fólki, þér og Ísraelissynir. Farið og þjónið yðrum Drottni sem þér hafið sagt. Takið og með yður yðar naut og sauði so sem þér hafið talað. Farið og blessið mig.“ Og þeir egypsku þrengdu að fólkinu og ráku það hastarlega af landinu því þeir sögðu: „Vér munum allir deyja.“

Og fólkið bar með sér hrátt deig þeim til fæðslu áður en það gat súrnað og bundu það í sínum klæðum og báru það á öxlum sér. Og Ísraelssynir höfðu gjört sem Móses sagði og báðust af egypskum eftir silfurkerum, gullkerum og klæðnaði. Drottinn hafði og gefið fólkinu náð fyrir þeim egypsku so að þeir lánuðu þeim þetta. Og þeir ræntu þá egypsku.

So ferðuðust Ísraelssynir frá Raemses og til Súkót, sex sinnum hundrað þúsund manna fótgönguliðs, að auk börn og margt annað almúgafólk sem að fylgdi þeim, so og naut og sauðir og mjög mikið kvikfé. [ Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af því hráu deigi sem þeir báru af Egyptalandi. Því það var ekki súrnað sökum þess að þeir voru so fljótlega reknir af Egyptalandi og máttu þar ekki lengur tefja og þeir höfðu ekki neitt annað búið sér til vegarnestis.

Ísraelssynir höfðu þá búið í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátygu ár. Og þá þessi ár voru liðin þá gekk allur Drottins her af Egyptalandi á einum degi. Þar fyrir halda menn Drottni þá nátt því að hann leiddi þá af Egyptalandi. Þá nótt skulu Ísraelssynir Drottni helga halda, þeir og þeirra eftirkomendur. [

Og Drottinn mælti við Mósen og Aron: „Þessi er háttur páskahaldsins: Enginn útlendingur skal eta þar af. En sé þar nokkur þræll sá sem keyptur er, láti hann sig umskera, so má hann eta þar af. Enginn útlendingur eða leigumaður skal eta þar af. Menn skulu og eta það í einu húsi. Þér skuluð ekkert bera af kjötinu út af húsinu. Þér skuluð og ekkert þess bein í sundur brjóta. Öll Ísraelis samkunda skal þetta so gjöra.

Sé það so að þar búi nokkur útlendingur hjá þér og vilji halda herrans páska, þá skal hann umskera allt kallkyns og þá má hann koma og gjöra það og skal hann þá vera so sem eirn annar sá þar er óðalborinn. Því að enginn óumskorinn skal eta þar af. Þessi lög skulu eins vera fyrir þá sem óðalbornir eru í landi so sem fyrir þá framandi sem búa á meðal yðar.“ Og allir Ísraelssynir gjörðu so sem Drottinn hafði boðið Móse og Aron. Á þeim sama degi leiddi Drottinn Ísraelssonu af Egyptalandi og þeirra her.