XIIII.

Á þeim tíma heyrði Heródes fjórðungshöfðingi ryktið af Jesú. [ Og hann sagði til sinna hirðsveina: „Þessi er Jóhannes baptista hver af dauða er upp aftur risinn og því gjörast þessi kraftaverk af honum.“ Því að Heródes hafði fanga látið Johannem, bundið hann og í varðhöld sett fyrir sakir Herodiadis, húsfreyju Philippi bróður hans. [ Því að Jóhannes hafði til hans sagt: „Eigi hæfir þér hana að hafa.“ Og því vildi hann hafa líflátið hann en þorði þó eigi fyrir fólkinu því að það hélt hann fyrir spámann.

En að ártíðardegi Heródes dansaði dóttir Herodiadis mitt frammi fyrir honum og það hagaði Heródes ofurvel. Af því lofaði hann henni með eiði að gefa henni hvers hún æskti af honum. Og eftir því hún var áður tileggjuð af móður sinni sagði hún: „Gef mér á diski höfuð Jóhannes baptista.“ Og konungurinn varð hryggur. En þó, fyrir eiðsins sakir og þeirra er með honum til borðs sátu, bauð hann að það gæfist henni, sendi út og lét afhöfða Johannem í myrkvastofu. Og var höfuð hans borið á diski og gefið stúlkunni og hún færði móður sinni. Þá komu lærisveinar hans og tóku hans líkama og grófu, komu síðan og kunngjörðu það Jesú.

En er Jesús heyrði það fór hann þaðan á skipi alleina til eyðimerkur. [ Og þá fólkið heyrði það fylgdi það honum á fæti úr stöðunum. Og Jesús gekk fram undan og leit þann mikla múg og sá aumur á þeim og læknaði þá af þeim sem krankir voru.

En að kveldi gengu hans lærisveinar til hans og sögðu: [ „Þessi staður er í eyði. Tími tekur að líða. Lát fólkið frá þér að það gangi í kauptúnin og kaupi sér þar fæðu.“ En Jesús sagði til þeirra: „Þeir hafa þess eigi þörf að þeir gangi burt. Gefi þér þeim að eta.“ Þeir sögðu: „Vær höfum ekki hér nema fimm brauð og tvo fiska.“ Hann sagði: „Færið mér þau hingað.“ Og hann bauð fólkinu að setjast niður á grasið og tók þau fimm brauð og tvo fiska, leit til himins, þakkaði og braut þau og gaf sínum lærisveinum brauðin en lærisveinarnir gáfu þau fólkinu. Og þeir snæddu allir og urðu saddir og tóku upp þær leifar er afgengu, tólf karfir fullar. En þeir eð etið höfðu voru tals fimm þúsund manna, undanteknum könum og börnum.

Og jafnsnart kom Jesús sínum lærisveinum til að þeir gengi á skip og færu fyrir honum yfir um sjóinn þar til hann léti fólkið frá sér. Og er hann hafði fólkið frá sér látið gekk hann einnsaman upp á fjallið að biðjast fyrir. Og um kveldið var hann þar alleina en skipið var þá mitt á sjánum og hraktist í bylgjunum því að vindurinn var þvert í móti. En um fjórðu eykt nætur kom Jesús til þeirra gangandi á sjánum. [ En er lærisveinarnir sáu hann á sjónum ganga hræddust þeir og sögðu að það væri skrímsl og kölluðu upp af hræðslu. En Jesús talaði strax til þeirra og sagði: „Verið stöðugir, eg em hann, óttist eigi.“

En Pétur svaraði honum og sagði: „Ef þú ert það, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“ Og hann sagði: „Kom.“ Og Pétur sté af skipinu og gekk á vatninu að hann kæmi til Jesú. En er hann leit megnan vind ógnaði honum og tók að sökkva, kallaði og sagði: [ „Herra, hjálpa þú mér!“ En Jesús rétti jafnsnart út höndina og sagði til hans: „Þú lítiltrúaður, fyrir því efaðist þú?“ Og er þeir voru á skipið komnir kyrrði vindinn. En þeir sem á skipinu voru komu og féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannlega ertu Guðs sonur.“

Og þeir fóru yfir um og komu til Genesaretjarðar. Og er hann þekktu þar sveitarmenn sendu þeir út um allt það byggðarlag og færðu til hans alla vanfæra menn og báðu hann um að þeir mættu aðeins snerta föll hans fata. [ Og so margir sem hann snertu urðu allir heilbrigðir.