XVI.

Og orð Drottins það skeði til mín og sagði: Öngva konu skaltu þér til eignar taka og hverki syni né dætur geta í þessum stað. Því að so segir Drottinn af þeim sonum og dætrum sem fæðast í þessum stað og einnin af mæðrunum þeim sem þau fæða og af feðrunum þeirra sem þau geta í þessu landi: Þau skulu deyja af sótt og þau skulu hvorki hörmuð né jörðuð vera heldur skulu þau að saurindum verða í landinu, þar að auk fyrir sverði og hungri fyrirfarast og þeirra líkamir skulu fuglum loftsins og dýrum jarðarinnar að átu verða.

Því að so segir Drottinn: Þú skalt ekki ganga burt í hryggð og eigi skaltu fara í nokkurn stað til að gráta né að hafa nokkra samhörmung yfir þeim. Því að eg hefi í burt tekið minn frið í frá þessu fólki, segir Drottinn, líka einnin mína náð og miskunnsemi, so að bæði stórir og smáir skulu deyja í þessu landi og verða hverki jarðaðir né harmdauðir og enginn skal reyta sitt hár né gjöra sig sköllóttan þeirra vegna og enginn skal neinu útskipta hjá gröfinni þeim til hugsvölunar yfir líkinu og ekki gefa þeim þann huggunardrykkinn eftir föður og móður. [ Þar fyrir skaltu ekki innganga í nokkurt drykkjuhús til að sitja hjá þeim, hverki til matar né öls. Því að so segir Drottinn Sebaót, Guð Ísraels: Sjá þú, eg vil burt taka í þessum stað fyrir yðar augsýn og af yður liföndum raustina gleðinnar og unaðsemdarinnar, raustina brúðgumans og brúðarinnar.

Og nær eð þú hefir nú sagt þessu fólki allt þetta og þeir segja til þín: [ „Hvar fyrir mælir Drottinn yfir oss alla þessa stóru ógæfu? Hver er sú synd og sá misgjörningur þar eð vér höfum með syndgast á móti Drottni Guði vorum?“ þá skaltu segja þeim: Þar fyrir að yðrir feður yfirgáfu mig, segir Drottinn, og eftirfylgdu annarlegum guðum, þjónuðu þeim og tilbáðu þá, en mig yfirgáfu þeir og héldu ekki mitt lögmál. [ Og þér gjörið það enn verr en yðrir forfeður því að sjá þú, að hver lifir eftir sínu vondu hjartans hugboði so að hann hlýðir mér ei. Þar fyrir vil eg útdrífa yður af þessu landi, burt í það land sem hvorki þér né yðrir forfeður vita nein deili á. Þar skulu þér þjóna annarlegum guðum dag og nótt, þar vil eg og einnin öngva náð auðsýna yður.

Þar fyrir sjá þú, sá tími kemur, segir Drottinn, það ekki skal oftar sagt vera: „So sannarlega sem Drottinn lifir, sá eð útleiddi Ísraelssonu af Egyptalandi“ heldur: „So sannarlega sem Drottinn lifir, sá eð útleiddi Ísraelssonu af því norðurlandinu og úr öllum þeim löndum sem hann hafði í burt rekið þá.“ Því að eg vil innflytja þá aftur í það landið sem eg hefi gefið þeirra forfeðrum.

Sjá þú, eg mun fiskimenn út senda, segir Drottinn. Þeir skulu veiða þá og þar eftir á vil eg ústenda marga veiðimenn, þeir skulu veiða þá upp á öllum fjöllum og upp á öllum hæðum og í öllum bjargskorum. Því að mín augu álíta alla þeirra vegu so að þeir kunna ekki að dyljast fyrir mér og þeirra misgjörningur er opinn fyrir mínum augum. En áður fyrri þá vil eg þeirra misgjörning og synd tveföldu launa fyrir það að þeir saurguðu mitt land meður [ líkunum sinna afguða og uppfylldu mína arfleifð meður sínar svívirðingar.

Drottinn, þú ert minn styrkur og kraftur og mitt athvarf í nauðinni. [ Hinir heiðnu munu til þín koma í frá enda veraldarinnar og segja: „Vorir forfeður höfðu falska og fáfengilega guði sem ekki kunna að hjálpa.“ Hvernin kann einn maður afguði að gjöra þa´sem ekki eru afguðir? Þar fyrir sjá þú, að nú vil eg kenna þeim mína hönd og magtarveldi so að þeir skulu formerkja það eg heiti Drottinn.